Morgunblaðið - 08.05.2006, Blaðsíða 26

Morgunblaðið - 08.05.2006, Blaðsíða 26
26 MÁNUDAGUR 8. MAÍ 2006 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR augun“ eins og við kölluðum það með gleraugunum þínum. Þú hefur verið öllum svo góð og yndisleg, þú varst sannarlega vinur vina þinna. Sakna þín og hugsa ætíð til þín. Ástarkveðja, Gunnar frændi. Er yfir hana færist værð og ró ó, flokkar engla komið nær og um vefjið með vængjum víðum og hvíslið í eyra með rómum þýðum elsku vina nú færð þú þína fró. Ó, því hún var mér svo kær. Hún Lilja er dáin. Ég heyrði orðin og sá varirnar á manninum mínum hreyfast, en það gat samt ekki verið satt. Fallegi, fal- legi engillinn minn, hún Lilja. Lilja með sín undurfögru möndlu- löguðu tindrandi augu, með sitt bjarta bros og sinn smitandi hlátur. Baráttustúlkan mín, sem ég gælu- nafnið gaf, vítamínsprautan mín, því það eitt að setjast niður með Lilju eða bara að tala við hana í síma var eins og að fá vítamínsprautu beint í æð. Þvílíkan kraft og jákvæðni fékk mað- ur hjá henni að það var svo auðvelt að takast á við alla hluti eftir að hafa fengið að hlusta á viðhorf hennar til lífsins. Guð var mikið örlátur þegar mannsbarnið Lilja kom í heiminn. Og ég er fádæma lánsöm kona því ég fékk þann heiður að fá að kynnast henni Lilju frá blautu barnsbeini. Ég fékk að sjá hana vaxa og dafna og verða sá fallegi einstaklingur sem hún varð bæði að utan sem að innan. Allir sem litu Lilju augum sáu hennar ytri fegurð, fegurð hennar var svo mikil að það geislaði af henni yndis- þokki og töfrar. En það vorum við sem þekktum hana sem sáu líka feg- urðina sem kom að innan.Við fengum að sjá styrkinn og manngæskuna sem hún hafði til að bera. Elskuna sem hún gaf frá sér og stoðina sem hún veitti öðrum, því allt- af var hún boðin og búin til að koma og liðsinna öðrum og veita sinn stuðn- ing. Sama hvað gekk á hjá henni gat hún alltaf gefið af sér ást og um- hyggju. Það er svo margt sem kemur upp í huga minn er ég hugsa um hana Lilju. Svo margar stundir sem við áttum saman. Þegar hún var lítil skotta og kom og sýndi mér nýju gleraugun sín. „Veistu, Linda, ég sé meira að segja myndina af skútunni í glerinu inni í stofu heima. Vissirðu að það er mynd af skútu þar?“ Þegar hún og sonur minn Hilmar Már komu inn einn kaldan vetrardag grátandi af kulda og með naglakul. Þegar ég tók litlu hendurnar þeirra í lófa mína og byrj- aði að blása á þær. Bjó svo til heitt kakó og setti kökur á borð og horfði á þau háma í sig með hamingju og gleði, bæði búin að gleyma naglakul- inu því að töfrakakóið gerði galdur- inn. Kvöldið áður en hún var að flytja norður á Árskógsand með foreldrum sínum. Þá grét hún í fanginu á mér og sagði, „ætlarðu nokkuð að gleyma mér þó ég flytji? Ég ætla aldrei að gleyma þér, Linda.“ Hvað það var létt að segja, „nei, elsku ástin mín, ég mun aldrei, aldrei gleyma þér“. Þegar við sátum hér á Ránargötu og spjölluðum saman um heima og geima og hlógum eins og kjánar af minningum eða sögum úr fortíðinni. Allar þessar yndislegu stundir og minningar mun ég geyma sem gull í hjarta mínu. Ég mun alla tíð þakka Guði fyrir að hafa fengið að fá Lilju inn í mitt líf. Fyrir alla gleðina sem hún færði mér og minni fjölskyldu. Elsku, elsku, Jana, Sjöfn, Anný Rós, Birgir, Áki og Birkir Freyr. Ég get á engan hátt lýst með orðum því sem ég segja vil til ykkar allra. Ég get aðeins sagt ég samhryggist ykkur svo innilega og vona að góður guð gefi ykkur styrk til að komast í gegn um þennan erfiða missi. Eins vil ég senda þér, Gummi minn, og allri þinn fjölskyldu mínar innilegustu og dýpstu samúðarkveðj- ur . Ég bið góðan guð að styrkja ykkur öll og leiða ykkur þessa erfiðu tíma. Linda, Flateyri. Elsku Lilja mín. Á svona stundu veit maður ekki hvar maður á að byrja, þú varst svo yndisleg og góð við allt og alla, dugnaðurinn orkan og hlýjan sem streymdi frá þér gerði það að verkum að stundum hreinlega gleymdi maður hversu veik þú varst. Ég man síðasta sumar þegar þú komst í brúðkaupið mitt, þá ljómaðir þú af fegurð og ekki að sjá á þér að þú hefðir verið að ljúka meðferð. En þegar líða tók á og komið fram á nótt komstu til mín og sagðir, elsku Petra mín, ég verð að fara heim en langar svo að vera lengur, það er svo gaman, svo brostirðu þínu fallega brosi. En ég vil þakka fyrir að hafa hitt þig ný- lega þegar þú komst með systur þinni heim til mín á kynningu hjá Írisi syst- ir minni, það var rosalega gott að hafa séð þig, þó svo að maður vissi ekki að það væri í síðasta sinn. En ekki stopp- aðir þú lengi, því síminn hringdi og þú boðuð á fund hjá flokknum. Kossinn og brosið, sem við fengum, geymi ég ávallt í hjarta mínu. Ég gæti skrifað endalaust en nú kveð ég þig, elsku frænka, og bið guð og englana að passa þig. Ég veit að þú situr efst í englahópnum og hjálpar okkur hin- um eins og þér einni er lagið. Ég vil votta fjölskyldu þinni mína samúð og guð veit að lífið verður ekki auðvelt án þín, elskan, ég veit þú vakir yfir mömmu þinni, pabba, Birgi, Guðrúnu og systkinum. Elska þig, ástin mín. Ástarkveðja, Petra Sif frænka. Elsku Lilja mín, með söknuði í hjarta langar mig að fá að kveðja þig með nokkrum orðum. Ég man eftir þér sem smástelpu á Flateyri. þú varst algjör skotta með mikið krullað og þykkt hár og alltaf brosandi. Svo flytjið þið á Árskógsströnd og fékk ég þá að kynnast ykkur systrum betur en síðastliðin ár höfum við kynnst ennþá betur og ég er og verð alltaf al- veg óendanlega þakklát fyrir það, elsku Lilja mín, því það eru forrétt- indi að hafa kynnst þér, þú ert einstök og er ég ótrúlega stolt af því að vera frænka þín. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa hitt þig síðast þegar ég kom norður. Þá komstu heim til Petru að hitta mig en varst nú ekki búin að stoppa í nema svona 15 mínútur þegar síminn hringdi. Það hafði gleymst að láta þig vita að fundi sem þú varst búin að segja mér að yrði um kvöldið hafði verið flýtt svo þú varðst að rjúka. Þú brostir þínu fallega brosi, kysstir okkur og knúsaðir og sagðist hitta mig betur næst. En því miður varð ekkert næst. Ég vil trúa því að þér sé ætlað eitt- hvað mikilvægt hlutverk þarna hin- um megin, því það er engin smá- kjarnakona sem hann var að kalla til sín. En það er ekki þar með sagt að þetta sé sanngjarnt, því þú varst í blóma lífsins, áttir frábæra foreldra og systur sem stóðu eins og klettur við hlið þér í þessum veikindum. Von- andi lærum við með tímanum að lifa með þessari ákvörðun hans. Elsku Lilja, þú ert fyrirmynd mín í lífinu og ég get fullyrt það að allir sem þig hittu heilluðust af þér. Þvílíkt út- lit, útgeislun, jákvæðni og fegurð og það besta fannst mér alltaf að fegurð þín var jafnt að innan sem utan. Ég man í brúðkaupinu mínu þegar þú komst til mín brosandi og horfðir á mig og sagðir, hvar fékkstu þennan kjól, hann er geggjaður, ég hef aldrei séð svona flottan kjól. Ég var svo upp með mér og er ennþá því hrós frá þér var sko alvöru hrós og ætla ég að reyna að tileinka mér það frá þér, elsku Lilja mín, því þú varst ein af þeim sem voru óspar á það. Einnig man ég að í hvert skipti sem við hitt- umst vorum við að hrósa hvor annarri fyrir flotta flík eða skart. Oft hafði Sjöfn orð á því hversu líkan smekk við hefðum og var ég alltaf svo ánægð þegar Sjöfn nefndi þetta, því mér fannst þú alltaf svo flott. Elsku Lilja mín, þú ert heilsteypt- asta og flottasta manneskja sem ég hef kynnst og þó að ég sé nú nokkrum árum eldri en þú leit ég alltaf upp til þín síðustu ár. Mér fannst alltaf eins og þú hlytir að vera eldri en ég, þú varst með skoðanir á öllu, vissir svo mikið og það var svo gaman að ræða við þig um allt. Elsku Lilja mín, ég kveð þig með miklum söknuði og hlakka til að hitta þig aftur þegar minn tími kemur, elsku stelpa. Ég bið þig að vaka yfir fjölskyldunni þinni því missir hennar er mikill og munum við hér gera allt sem við getum til að létta undir með þeim. Elsku Jana, Gummi, Birgir, Guðrún, Katrín, Sjöfn, Anný, Dagný og aðrir aðstandendur, megi góður guð hjálpa ykkur í gegnum þennan erfiða tíma. Ég elska þig. Þín frænka, Íris Rún. Já, æskan var indæl og fögur – ekki þó laus við sorgir – Hún sagði mér fallegar sögur, hún sýndi mér skýjaborgir, ljósgeisla lét hún streyma, sem lýstu inn í töfraheima. (Hinrik B. Þorláksson.) Hún Lilja frænka okkar er látin og skilur eftir sig stórt skarð í hjarta okkar, en um leið margar góðar minningar. Hún var stór stúlka strax við fæðingu og átti eftir að reynast stór manneskja á marga vegu. Hún var skírð á Flateyri ásamt frændum sínum, Hauki okkar og Hirti. Við munum þegar hún kom suður og gisti hjá okkur í veikindum sínum. Þar kynntumst við lífsgleði hennar og æðruleysi; hún talaði jafnan um hversu gott henni þætti að komast í sófann okkar og fá að kúra undir teppi. Þá hafði hún alltaf dálæti á góð- um rjómaís og nutum við ófárra slíkra undir hennar leiðsögn. Hún Lilja átti sér marga drauma, til dæmis tilkynnti hún okkur einn dag að hún ætlaði að verða fornleifa- fræðingur og ferðast víða um heim- inn. Á endanum heillaði heimspekin hana meir en fornleifafræðin, en hún kynntist þó mörgu og mörgum. Þegar Grikkir, feður heimspekinnar, kvöddu hina látnu spurðu þeir sig að- eins að einu: var viðkomandi innblás- inn? Þeir fjölmörgu vinir sem Lilja eignaðist á lífsleiðinni myndu eflaust svara þessu á sama hátt og við: svo sannarlega! Einmitt þegar lífið lék hana verst reis hún bara hærra og mætti mótlætinu með hugrekki og lífsþrótti sem átti sér engan líka. Á sinni stuttu lífsleið afrekaði hún svo ótrúlega margt og gaf svo mörgum af sínu stóra hjarta. Það er með söknuði og trega að við kveðjum frænku okkar, hetjuna sem gaf okkur svo margt á svo stuttum tíma. Við munum ætíð hugsa til henn- ar með ást í hjarta og bros á vörum. Elsku Kristjana og fjölskylda, okk- ur langar til að minnast frænku okkar með þessu ljóði eftir langalangafa hennar Lilju: Minn, góði guð og faðir ég græt ei því ég veit þau dóu ei, en dafna Í dýpri og frjórri reit. Ó, leif mér ljúfi faðir þá lífsins hérvist dvín á ljóss- og sólarlandi að líta blómin mín. (Hinrik B. Þorláksson.) Ragnar, Þórunn og fjölskylda. en ég veit eina stjörnu, eina stjörnu sem skín, Þetta voru orðin sem mættu mér á baráttufundi Stefnu hinn 1. maí síð- astliðinn eftir að mér hafði verið til- kynnt um andlát þitt Lilja mín. Fé- lagar okkar vissu ekki þá að þeir voru að syngja um þig. Héðan af muntu í okkar huga ávallt verða stjarnan sem skín. Kynni okkar voru ekki löng en þér tókst svo sannarlega að komast að hjarta mínu. Gleði þín og bjartsýni smitaði alla sem voru í félagsskap þínum. Atorka þín leiddi fljótt til þess að við vorum löngu hætt að líta á þig sem sjúkling. Sennilega hefur það líka átt sinn þátt í því að þér leið svo vel hjá okkur. Ég man þegar við vor- um að fara af stað í prófkjörið að ég spurði þig hvort þetta yrði ekkert of mikið fyrir þig. Þú varst snögg til svars. Hélst nú ekki, það væri hvort eð er búið að spá þér dauða allt of oft og þú hefðir nú sannarlega enga ástæðu til þess að taka upp á því nú. Ég man hvað ég dáðist að þér við þetta svar. Hugrekki þitt og góðmennska smitaðist yfir á okkur hin. Gleðin sem fylgdi þér fór sem stormsveipur um litla VG-húsið okkar þegar þú steigst inn fyrir dyrnar. Baráttan var þér í blóð borin og það hve þú lagðir þig fram við þau verkefni sem þér voru falin var aðdáunarvert. Barátta þín fyrir bættum heimi mun skila sér. Við, félagar þínir í VG munum halda áfram að berjast fyrir því! Elsku Lilja, takk, takk, takk, fyrir að hafa fengið að kynnast þér. Dýrleif (Dilla) formaður VG á Akureyri. Elsku Lilja mín, það er svo margt sem mig langar að segja, en orðin koma ekki. Tárin renna niður kinn- arnar og það eina sem ég get hugsað er „af hverju“? Af hverju er lífið svona ósanngjarnt? Af hverju þarf allt að lenda á einni manneskju og fjölskyldu hennar. Það hlýtur að vera einhver tilgangur! Mér dettur í hug, „þeir sem Guðirnir elska deyja ung- ir,“ þú ert greinilega ein af þeim. Þú varst alltaf svo ljúf, hress og yndisleg. Og geislaðir alltaf af lífs- gleði og hamingju. Þú varst alltaf svo jákvæð og dugleg, stundum gleymdi maður því næstum að þú værir veik. Þú hafðir alltaf eitthvað fyrir stafni og gerðir allt vel sem þú tókst þér fyr- ir hendur. Mér dettur í hug í vetur þegar við fórum saman á teikninámskeið, þú lagðir þig alla fram og stóðst nám- skeiðið með prýði, ég aftur á móti var ekkert að nenna þessu, en ég gat ekki hætt og sleppt því að mæta, þá væri ég að missa af tækifæri til að vera allavega eina kvöldstund í viku með þér. Þegar ég hugsa um þig koma allar góðu minningarnar um vinskap okk- ar upp, við höfum nú ýmislegt brallað saman. Þú varst alltaf vinur vina þinna og betri vinkonu er ekki hægt að hugsa sér. Þú varst alltaf til staðar þegar maður þurfti á þér að halda. Það að eiga ekki eftir að hitta þig aftur, er svo óraunverulegt. Að geta ekki hringt í þig og boðið þér heim í kaffi, eða farið með þér á kaffihús. Þú munt alltaf lifa í hjarta mínu, engill- inn minn. Ég sakna þín sárt. Innilegar samúðar kveðjur til fjöl- skyldu þinnar og vina. Þín vinkona, Eva Ósk. l. maí sl. rann upp bjartur og fagur þar sem ég var staddur á landinu, en þess var skammt að bíða að ský drægi fyrir sólu. Hringt var frá Akureyri og mér tjáð að ung baráttukona, Lilja Guðmundsdóttir, hefði látist óvænt þá um nóttina. Lilja hafði skipað sér í raðir Vinstri grænna og tekið 6. sæti á framboðslista okkar við bæjar- stjórnarkosningarnar á Akureyri sem framundan eru. Þó kynni mín af Lilju væru ekki löng verða þau mér engu að síður minnistæð og hún sem persóna. Bjartsýni hennar, baráttu- vilji og jákvætt lífsviðhorf þrátt fyrir þau erfiðu veikindi sem hún hafði strítt við, vakti athygli og aðdáun. Lilja hafði fyrst samband við mig þegar hún hafði lent í nokkurri lífs- reynslu vegna samskipta sinna við til- tekinn fjölmiðil. Við skiptumst á bréf- um og töluðum saman í síma og það vakti strax athygli mína hversu hrein og bein hún var í öllum samskiptum og skýr í framsetningu. Seinna lágu leiðir okkar saman í stjórnmálunum. Sá kjarkur, dugnaður og baráttuvilji sem Lilja sýndi var hrífandi og ungu fólki og hverjum sem væri gott for- dæmi. Hún bar sitt fallega höfuð hátt og geislaði af áhuga á þeim viðfangs- efnum sem hún tók sér fyrir hendur. Lilja tók þátt í undirbúningi kosn- ingabaráttunnar af lifandi áhuga, mætti á ráðstefnu frambjóðenda og síðast sáumst við þegar kosningamið- stöð okkar á Akureyri var formlega opnuð á dögunum. Þá voru framund- an tónleikar á vegum unga fólksins og fleiri atburðir sem Lilja var með í að undirbúa af lífi og sál. Síðasta fram- lag hennar til baráttunnar, blaða- grein um hagsmunamál öryrkja eða fólks sem lent hefur í erfiðum veik- indum, birtist að henni látinni sl. fimmtudag. Lífið kvaddi hún á sjálf- um 1. maí eins og áður sagði. Það er með miklum söknuði sem við kveðjum þessa ungu og glæsilegu baráttukonu sem er nú tekin frá okk- ur svo alltof, alltof snemma. Minning- in um hana er björt og huggun að vita að hún lifði sínu stutta lífi fallega og með reisn. Blessuð sé minning henn- ar. Ég votta foreldrum, systkinum og öllum aðstandendum samúð mína og fjölskyldu minnar. Steingrímur J. Sigfússon. Hvernig er hægt að kveðja svo yndislega manneskju sem var rifin frá okkur í blóma lífsins? Kannski er betra að líta á þetta sem smá pásu. Við hittumst án efa á ný þar sem við getum fundið hlýjuna frá þér, séð fal- lega brosið þitt og hlegið saman. Hvert einasta bros, hver einasti hlát- ur, og hver einasti stórsigur þinn í líf- inu mun fylgja okkur að eilífu. Gleðji þig guðsstjörnur, sem gladdi bezt mig, og mörgu sinni, vegstjarnan fagra vizku þinnar, ástjarðar ljúfasta ljós! (Jónas Hallgrímsson.) Þetta er ekki endirinn og við mun- um líta framtíðina björtum augum eins og þú gerðir alltaf. Sigrún Lára og Hafþór. Ég á erfitt með að koma hugsunum mínum á blað. Ég gæti skrifað svo margt um persónuleika Lilju, hluti sem allir sem kynntust henni vissu. Um það hversu mikil hetja hún var, um æðruleysi hennar og styrk, lífs- gleði og þokka. Um bjarta brosið hennar og bera skallann sem hún bar með stolti. Um gleðina sem henni fylgdi og styrkinn sem hún veitti öðr- um. Um það hversu stórkostleg manneskja, félagi og vinur hún var. En það sem mig langar mest til að skrifa um er það hvað Lilja gerði fyrir mig. Lilja kenndi mér að sýna æðruleysi gagnvart hinum ýmsu smávægilegu vandamálum lífsins. Hún hvatti mig til að njóta lífsins, njóta tónlistar, dansa eins og vitleysingur, berjast fyrir því sem skipti mig máli, sinna áhugamálum mínum, syngja, brosa, sýna öðru fólki áhuga, kynnast sem flestum, sýna mig og sjá aðra, fara á listasýningar, skilja engan útundan, segja ,,ég elska þig“, vera pólitískt þenkjandi, hugsa um jafnréttismál og náttúruvernd, rækta sjálfa mig og um fram allt, að lifa lífinu lifandi. Þetta allt gerði Lilja og meira til. Ég verð leið þegar ég hugsa til þess að ég fái ekki að kynnast henni betur en um leið er ég óendanlega þakklát fyrir þann stutta tíma sem mér var gefinn með henni. Með þessari gyðju sem ég trúi að hafi verið send á jörðina í þennan allt of stutta tíma til þess að vera fyrirmynd og til að vekja okkur til umhugsunar um það hvað virki- lega skiptir máli í þessu lífi okkar. Lífið er stutt og óútreiknanlegt. Lilja kenndi mér að það er líka of verðmætt til þess að við leggjum okk- ur ekki fram við að kynnast náung- anum og njóta verðmætanna sem í kringum okkur eru, mannlífs, menn- ingar, tónlistar, náttúru, vináttu. Því hafin yfir hversdagsleikann gráa ert þú hjartans vina mín ég ljósið slekk og langt í fjarskann bláa leitar hugurinn til þín. Hjálmar. LILJA GUÐMUNDSDÓTTIR  Fleiri minningargreinar um Lilju Guðmundsdóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. Höfundar eru: Sveinn Arnarsson, Heiða Rún, Elísabet Björk, Heiða Björk, félagar í VG á Akureyri, Baldvin H. Sigurðsson, Hlynur Hallsson og Þuríður Backman.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.