Morgunblaðið - 13.05.2006, Page 67

Morgunblaðið - 13.05.2006, Page 67
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 13. MAÍ 2006 67 MINNINGAR Elsku amma. Þú fórst alltof fljótt frá mér, en mikið var ég ánægð að hafa ákveðið að kíkja í heimsókn á Hjallaland helgina áður en þú fórst, þar áttum við dýrmætan tíma saman eins og alltaf. Það var alltaf gaman að vera hjá ömmu og afa bæði í bernsku og núna síðustu árin. Alltaf nóg að gera í sveitinni, þótt þú vildir nú nánast allt- af gera allt sjálf, þú varst svo dugleg. Alltaf að gera fallega hluti í höndun- um, baka ástarpunga, tína ber og búa til sultu, fara í fjósið, þrífa og svo mætti lengi telja. Þú varst alltaf á fullu en samt hafðirðu alltaf tíma til að sinna afa, börnum og gestum. Þú vildir allt fyrir alla gera og hjálpa öll- um. Þú hjálpaðir mér oft þegar ég var lítil og búin að koma mér í einhver vændræði, skítug upp fyrir haus og blaut í fæturna. Ráðin hættu aldrei og voru einnig mjög gagnsöm síðustu árin, ég gat spjallað við þig um allt. Við sátum saman yfir hlaðborðinu inni í eldhúsi, sem þú settir alltaf á borð, þrátt fyrir að ég væri kannski ein og gátum við spjallað um heima og geima, það var ekkert sem þú gast ekki talað um. Ég á eftir að sakna þín óskaplega mikið elsku amma mín. En þótt þú sért farin frá okkur eigum við góðar og fallegar minningar um þig sem við getum alltaf rifjað upp. Við hittumst einmitt öll barnabörnin um daginn og elduðum saman, þar voru margar minningar rifjaðar upp og höfðum við öll af nógu að taka. Það var reyndar ekki vaskað upp um leið og við vorum búin að borða, þú hefðir löngu verið búin að því. En núna sé ég ömmu mína alls staðar, til dæmis í dætrum þínum þegar þær eru að reyna að láta okkur borða eitthvað, spyrja hvort við getum ekki örugg- lega borðað eitthvað meira. Maður var aldrei svangur á Hjallalandi, kvöldsnarlið var uppáhaldið mitt þeg- ar maður fékk ástarpunga og mjólk rétt áður en maður fór að sofa. Elsku amma, ég er svo heppin að hafa haft þig í mínu lífi, elska þig ávallt. Þín nafna Guðný Jónsdóttir. Elsku amma. Maður á nú hálfbágt með að trúa því að þú hafir kvatt okk- ur fyrir fullt og allt. Þú, þessi sterka kona, sem alltaf fann sér eitthvað að gera og kvartaði aldrei yfir neinu. Alltaf þegar maður kom í sveitina varstu tilbúin með nýbakaða ástar- punga eða eitthvert annað góðgæti sem þú hafðir galdrað fram með lítilli fyrirhöfn. Þau voru líka ófá skiptin sem þú komst til okkar krakkanna út í „bú“ með eitthvað sem við gátum notað í eldhúsinu okkar sem við höfð- um þar úti við lækinn, áhöld sem þú varst hætt að nota og lést okkur fá til að leika okkur með. Nonna og Manna-spólurnar kunnum við öll barnabörnin utan að og þú varst farin að hrista hausinn brosandi síðustu ár- in þegar við vorum enn að spyrja hvort spólurnar væru ekki örugglega ennþá til. Þessar minningar og marg- ar fleiri hafa yljað okkur fjölskyld- unni síðustu daga og hjálpað okkur að takast á við sorgina. Ég sakna þín elsku amma og hefði viljað eyða meiri tíma með þér og var farinn að hlakka til að hitta þig á Hjallalandi í sumar, en ég veit að afi mun taka þar vel á móti mér. Mikið er ég þó feginn að ég gat kvatt þig áður en þú fórst, það er ég þakklátur fyrir. Elsku amma, ég vona að þér líði vel og ég veit að þú munt vaka yfir afa og vera með honum í anda heima á Hjallalandi, og færð Guð með þér í lið til að styrkja hann í sorginni. Hvíldu í friði. Þinn Smári Jökull. Elsku amma mín. Ég trúi ekki enn að þú sért farin frá okkur, að þú kom- ir ekki með útbreiddan faðminn á móti mér næst þegar ég kem í sveit- ina. Það eru nú ófá sumrin sem ég hef eytt hjá ykkur afa í sveitinni og þaðan á ég mínar bestu minningar. Þær eru of margar til telja þær upp hér en munu varðveitast í hjarta mínu um ókomna framtíð. Þú varst og verður alltaf mín fyr- irmynd og ég vona að guð gefi mér sama styrk, dugnað og örlæti og þú bjóst yfir. Elsku amma mín. Það er svo sárt að þurfa að kveðja þig, en ég veit að þú vakir yfir okkur og verndar. Ég er svo þakklát fyrir að ég skyldi ná að sjá þig og vera hjá þér áður en þú kvaddir þennan heim. Það er afa líka ómetanlegt að hann náði að vera hjá þér og halda í höndina á þér þegar yf- ir lauk, rétt eins og þú hefðir beðið eftir honum. Ég elska þig. Þín Kolbrún. Ég vil með örfáum orðum minnast systur minnar Guðnýjar, en ég gæti skrifað um hana langa sögu. Hún var sú fyrsta sem bauð mér hjálp þegar ég þurfti á henni að halda, hún með börnin sín sjö. Öll eru þau á lífi í dag og studdu þessi duglegu hjón, Guðný og Sveinn, börnin sín til mennta. Missir þeirra er mikill. Ég bið Guð að styrkja þau og blessa í framtíðinni og einnig eiginmann hennar, Svein Jóns- son, sem unni konu sinni heitt alla tíð. Vertu sæl systir mín góð, nú ertu gengin á feðranna slóð. Þunga og þrautir lífsins barst þrekmikil kona ætíð varst. Elín Friðriksdóttir frá Laugum, síðar á Kvisthaga. Guðný móðursystir mín, Nýja á Hjallalandi, eins og hún var oft köll- uð, er dáin. Við skyldmennin erum harmi slegin. Horfin er á braut dug- leg og heilsteypt kona sem okkur þótti svo vænt um. Kona sem gekk í öll störf sem til féllu. Hún bauð upp á nýbakaðar kræsingar, kleinur, ástar- punga og hafrakex með heitri rabar- barasultu um kaffileytið og skaust síðan út í fjós að mjólka um sexleytið. Ástarpungarnir voru frægir í Skaga- firðinum og hafrakexið með heitri rabarbarasultunni kitlaði af einhverj- um ástæðum hláturtaugarnar. Ég hlakkaði alltaf mikið til að koma akandi í hvíta Volvo Amazon station- bílnum hans pabba frá Laugum og í Hjallaland. Gestrisni Nýju og Sveins á Hjallalandi var mikil þrátt fyrir að plássið væri ekki mikið, sjö börn og í nægu að snúast. Foreldrar mínir þáðu þó oftar en ekki næturgistingu í haustferðinni suður því Nýja og mamma voru ekki bara systur heldur líka góðar vinkonur. Yngri systurnar, Hadda, Gígja og Anna, voru óborg- anlegar þegar þær tóku á móti frænku sinni með svo mikilli gleði og fjöri að engu var líkt. Ég fékk t.d. að keyra grána gamla, sem var gamall traktor af Ferguson-gerð, líklega módel 57. Þær systur vildu leyfa mér, sem uppalin var á skólastaðnum Laugum, að keyra úti á túni og helst í 3. gír! Ég reyndi að stýra, það gekk allavega og við hlógum dátt. Eldri systkinin komu öll í Laugar, Jón og Una fóru bæði í Laugaskóla og bjuggu hjá okkur og Una og Sigga Dóra unnu báðar á hótelinu, sem for- eldrar mínir ráku fyrir skólanefnd Laugaskóla. Sigga, sem er yngstur, kynntist ég best eftir að ég flutti í Kópavoginn. Þetta er yndisleg fjöl- skylda sem nú sér á bak kærri konu, eiginkonu og móður. Kæri Sveinn, frændfólk mitt og fjölskylda. Við munum alltaf muna eftir Guðnýju á Hjallalandi. Við mun- um alltaf muna hve hlý og heilsteypt hún var. Hún var vel metin. Una María Óskarsdóttir. Minningar frá bernskudögum eru fjársjóður sem ekki tæmist, og þaðan eru vináttubönd sem ekki slitna. Það greru ekki götur á milli bæjanna Uppsala og Úlfsstaðakots, nú Sunnu- hvols. Á bæjunum voru stórir systk- inahópar og tíðar ferðir á milli. For- eldrar Guðnýjar voru ein af mörgum hetjum hversdagslífsins. Þau komu upp stórum barnahópi og byggðu jörð sína upp. Heimilið einkenndist af snyrtimennsku og reglusemi. Syst- urnar Guðný og Sigríður stóðu næst- ar mér í aldri og voru jafnan nefndar samtímis. Í þeirra félagsskap leitaði ég löngum og var ætíð velkomin. Myndir þessa tíma eru skýrar. Eins og ævintýrið þegar flutt var úr gamla bænum þar og í nýja húsið. Blöndu- hlíðin fór vel með börnin sín. Við fylgdumst að í barnaskólanum í Sól- heimagerði og sundkennslunni í Víði- vallalauginni. Sjóndeildarhringurinn var stór. Í vestri stóð Mælifellshnjúk- urinn vörð og Blönduhlíðarfjöllin skýldu í austri. Guðný lærði snemma að taka til hendi þegar Una, mamma hennar, fór að sinna hjúkrunarstörf- um á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki, kom það í Guðnýjar hlut að sjá um heimilið, þá nýlega fermd. Ég man hvað ég dáðist að dugnaði hennar. Hún þekkti það frá bernsku að ekk- ert gerist af sjálfu sér. Með þá dýr- mætu reynslu og sjóndeildarhringinn fagra hélt hún að heiman, en yfirgaf ekki fjörðinn sinn. Guðný skilaði miklu dagsverki. Þau Sveinn byggðu sér nýbýlið Hjallaland og þar inntu þau af hendi mikið starf, bjuggu góðu búi og komu upp börnunum sínum sjö. Þegar um hægðist og búskap var lokið nutu þau hjón þess að ferðast, bæði innan lands og utan, og tóku virkan þátt í starfi eldri borgara. Í þeim félagsskap áttum við Guðný okkar síðustu samverustundir. Nú stöndum við ráðþrota og spyrjum, hvers vegna, eins og örskotsstund, af hverju? En fáum engin svör. Okkar er að minnast og þakka. Minnast æskuvinkonunnar og þakka fyrir hennar líf. Aldinn sveitungi okkar sagði: Minningar eru auður, sem ekki fúnar. Guð blessi minningu Guðnýjar. Innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldunnar. Helga Bjarnadóttir frá Uppsölum. Kær móðursystir er borin til graf- ar í dag. Kallið kom snöggt og óvænt. Hugurinn reikar aftur í tímann. Bíllinn beygir upp heimreiðina og við mér blasir grátt steinhúsið – nýtt með tröppum. Í hlaðinu stendur Land Rover jeppi með blæjum. Ég er fimm ára, að koma í Hjallaland í fyrsta skipti. Á móti mér kemur Nýja, glöð og frjálsleg í fasi og að baki henni stendur Svenni unglegur og kankvís með tungubroddinn í öðru munnvikinu. Síðan eru að verða liðin 49 ár. Ég var í sveit hjá Nýju og Sveini á Hjallalandi hvert sumar í sjö ár. Á hverju vori þegar ég kom í sveitina hafði eitthvað breyst – eitthvað bæst við. Fyrst var það nýja íbúðarhúsið og gömlu fjárhúsin, ásamt Landro- vernum, sem var notaður í allt nema að slá túnin. Síðan bættist við fjós og hlaða, súrheysturn og fyrsta flokks mjólkurhús ásamt ýmsum landbún- aðartækjum. Ný tún voru ræktuð á hverju ári og landið girt. Eljan og dugnaðurinn var endalaus, unnið var myrkranna á milli. Land var brotið, jörðin ræktuð og bústofninn stækk- aði. Fyrst þegar ég dvaldist sumar- langt á Hjallalandi voru börnin orðin þrjú, en smátt og smátt fjölgaði þeim og urðu þau alls sjö. Ótal minningar leita á hugann um viðburðarík og góð bernskuár í Sæ- mundarhlíðinni. Þarna kynntist ég öllum almennum sveitastörfum, frá því að rifja „Leyninginn“ í halarófu, raka á eftir Sveini, sem sló með orfi og ljá, stýra hestinum og rakstrarvél- inni ásamt mörgu fleira. Þarna lærði ég að sitja hest og aka dráttarvél, leggja net í fjallavatn og njóta náttúr- unnar. Fyrst og síðast eru það ljúfar minningar um Guðnýju, sem aldrei skipti skapi gagnvart mér, sem hafði þó orð fyrir að vera baldinn. Síðast þegar ég kom í Hjallaland fyrir tæpu ári síðan sátum við í eldhúsinu og spjölluðum um heima og geima. Aldr- ei kom maður að tómum kofunum hjá Guðnýju. Alltaf var eitthvað að spjalla um, því hún fylgdist vel með og sagði líka hreykin frá börnunum sínum sjö og öllum barnabörnunum. Naut ég þess að sitja með henni og gæða mér á kleinum, ástarpungum og öðru heimatilbúnu bakkelsi. Þegar hún kvaddi mig á tröppunum tók hún loforð af mér að ég yrði að koma fljótt aftur og þá með hana nöfnu sína því henni fyndist hún sjá okkur allt of sjaldan. Við kveðjum Guðnýju með miklum söknuði og sendum Sveini, börnunum og fjölskyldum þeirra okkar innileg- ustu samúðarkveðjur. Biðjum við góðan Guð að styrkja ykkur í sorg ykkar. Knútur og Guðný. Innilegar þakkir til allra sem sýndu okkur samúð og hlýhug við andlát og útför elskulegrar móður okkar, tengdamóður, ömmu, langömmu og langalangömmu, HELGU JÓNSDÓTTUR, Hrafnistu, áður til heimilis í Grundargerði 2. Sérstakar þakkir til starfsfólks á Hrafnistu í Reykjavík á 3. hæð G. Sigurður Jón Einarsson, Árný Runólfsdóttir, Anna Einarsdóttir, Guðmundur Jakobsson, Einar Einarsson, Margrét Lillian Skúladóttir, barnabörn, barnabarnabörn og barnabarnabarnabarn. Innilegar þakkir til allra sem sýndu okkur samúð og hlýhug við fráfall ástkærrar eiginkonu minnar, móður okkar, tengdamóður, dóttur, systur, mág- konu og ömmu, JÓNÍNU G. KRISTINSDÓTTUR, Lyngholti 7, Ísafirði. Sérstakar þakkir færum við Þorsteini Jóhannes- syni, heimahjúkruninni og starfsfólki Sjúkrahússins á Ísafirði fyrir góða umönnun og aðstoð. Guð blessi ykkur öll. Guðmundur Óli K. Lyngmo, Sigurlína Jónasdóttir, Magnús Gautur Gíslason, Linda G. Lyngmo, Haukur Eiríksson, Margrét E. Guðbjartsdóttir, Arnar Kristinsson, Ingibjörg Jónasdóttir og barnabörn. Innilegar þakkir sendum við öllum þeim sem sýndu okkur samúð og hlýhug við andlát og útför ÓLAFS SIGURGEIRSSONAR hæstaréttarlögmanns. Aðstandendur. Innilegar þakkir fyrir auðsýnda samúð og vinar- hug vegna andláts og útfarar elskulegrar eigin- konu minnar, móður okkar, tengdamóður, ömmu og langömmu, ÁSTU ANTONSDÓTTUR, Rjúpufelli 23. Þakkir færum við einnig starfsfólki Landspítalans í Fossvogi fyrir alúð og umhyggju. Otto J. Malmberg, Einar Malmberg, Katrín Hrafnsdóttir, Anton Malmberg, barnabörn og barnabarnabörn. Innilegar þakkir til allra sem sýndu okkur samúð og hlýhug við andlát og útför mannsins míns, föður okkar, tengdaföður, afa og langafa, ODDS SIGURÐSSONAR frá Kolviðarnesi. Sérstakar þakkir til starfsfólks Dvalarheimilis aldraðra, Borgarnesi. Guðbjörg Helgadóttir, börn, tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn. AÐALSTEINN GUÐJÓNSSON, (Steini bryti), lést mánudaginn 1. maí. Jarðarförin hefur farið fram. Aðstandendur.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.