Morgunblaðið - 12.08.2006, Qupperneq 10
10 LAUGARDAGUR 12. ÁGÚST 2006 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
1% út úr kortinu
á morgun
Það má segja að krakkarnirá námskeiðinu hans Al-berts sanni þau orð hansað þau séu líflegur og
krefjandi hópur. Þau eru spennt
fyrir þessari fjölmiðlaathygli og
hlaupa inn og út úr sviðsmynd við-
talsins, ef svo má segja. „Taktu
mynd af mér!“ er krafa dagsins. Í
auga stormsins situr Albert V.
Magnússon með gleraugu í hvítri
umgjörð og biður þau að láta sig
hverfa í smástund.
Ég heyrði að þú værir með svo
skemmtilegt lífsleikninámskeið.
„Já, það er líklega alveg hægt
að kalla þetta lífsleikninámskeið. Í
rauninni er þetta útivistar- og sigl-
inganámskeið, með sjálfshjálp og
öðru. Þau læra að vinna í hóp, um-
gangast og deila hlutum.“ Þetta er
þriðja árið sem Albert heldur
þessi námskeið en hann er uppal-
inn á Ísafirði. „Ég er hérna í sum-
arfríum bara, ég vinn annars á
leikskóla og er íþróttakennari í
Hafnarfirði. Ég fæ tveggja mán-
aða sumarfrí og nýti það til að
halda þrjú hálfsmánaðar nám-
skeið.“
Læra ábyrgð gjörða sinna
Krakkarnir eru á aldrinum níu
til fjórtán ára og eru á námskeið-
inu frá kl. 10–16. „Við stundum
alls konar siglingar og útivist og
förum t.a.m. í 7–9 km gönguferð
hérna um skíðasvæðið og lærum
að njóta þess sem við eigum hérna
í firðinum. Það þarf ekki alltaf að
fara til Reykjavíkur til að upplifa.“
Eru þetta þá aðallega krakkar
héðan frá Ísafirði? „Nei, við erum
til dæmis núna með krakka frá
Lúxemborg, Noregi og alls staðar
af landinu. Þau eiga þá kannski
ömmu eða hafa einhver tengsl,
einhvers staðar verða þau að búa.“
Hann segir þennan aldurshóp
skemmtilegan að vinna með.
„Mjög svo. Þau eru mátulega
hress. En líka svolítið krefjandi,
eiginlega mjög! Þau eru miskunn-
arlaus í að þurfa að hafa fullt pró-
gramm. Svo ég er líka að reyna að
kenna þeim að njóta þess að
slappa af og kúpla sig niður. Það
þarf einhvern veginn allt að gerast
núna. Ef við förum út á stórri
skútu og það er ekki nógu mikill
vindur, þá finnst þeim eitthvað
vera að og spyrja af hverju við
getum ekki sett mótorinn á og
keyrt allt í botn. Þau þurfa að
læra að njóta andartaksins.“
Hvernig finnst þér það ganga?
„Það gengur mjög vel. En þau
þurfa auðvitað að uppgötva þetta
sjálf, það er erfitt að kenna það.
Ég finn það samt sjálfur að það er
gott að koma úr borgarysnum og
þurfa ekki að vera einhvern veg-
inn alltaf á klukkunni.“
En hvað fá þau helst út úr
þessu? „Þau læra að taka tillit til
hvert annars, en líka að ábyrgðin
er hjá þeim, gagnvart seglbátum
og öðru. Þau eru ábyrg gjörða
sinna og ef þau hlusta ekki, hvolfa
þau bara bátnum í sjóinn. Það hef-
ur gerst nokkrum sinnum. Að vísu
er það ekki alltaf slys held ég, fólk
sem kemur brosandi upp úr sjón-
um hefur ekki dottið!“ Að sjálf-
sögðu segir hann þó fyllsta örygg-
is gætt. „Reglunum sem við
setjum er fylgt stíft eftir. Þau
mega til dæmis ekki hlaupa eftir
bryggjunni heldur ganga hægt og
rólega.“
Sjálfur hefur
hann verið við-
riðinn siglingar
frá barnsaldri.
„Maður var að
elta þá sem áttu
báta og um 10–
11 ára aldur var ég sjálfur kominn
á seglbáta. Um fermingu fór ég á
seglbretti og stundaði það sport í
10–15 ár en er núna að færa mig
aftur í bátana. En það er mjög
gaman að geta borgað aðeins til
baka og gefa af sér núna.“
Yfirvinna lofthræðsluna
Segðu mér betur frá námskeið-
inu. „Við erum á seglbátum og
kajökum. Svo erum við í fleka-
smíði og þar kemur inn handverk,
að smíða sinn eigin fleka og nota
við það sög og hamar. Svo erum
við með aðgang
að stórum skút-
um sem þau fá
að prófa. Fyrir
utan reglur við
siglingarnar
þurfa þau svo
auðvitað að læra að klæða sig. Svo
yfirstígum við lofthræðslu með sigi
utan í olíutönkum. Margir segjast
ekki þora þegar horft er upp tank-
inn og labbað upp stigana. En það
hafa nú allir farið upp og niður
aftur. Auk þess lærum við skyndi-
hjálp og rétt viðbrögð þegar eitt-
hvað kemur upp á.“
Tveir aðrir en Albert hafa starf-
að við námskeiðið. „Við reynum að
nýta sérþekkingu hvers og eins,
einn hefur lært fjallabjörgun og
annar skyndihjálp og ég sé um
siglingarnar. Svo förum við saman
í sundlaug þar sem krakkarnir
læra að velta kajak, og þau læra
líka félagabjörgun.“
Hann segir nauðsynlegt að boðið
sé upp á eitthvað þessu líkt fyrir
krakka í bæjarfélaginu. „Það hefur
ekkert verið allt of mikið að gera
fyrir þau og mætti vera miklu
meira bæði hjá bæjarfélaginu og
íþróttafélögunum. Nýta þennan
mannauð sem er til í bænum, fullt
af fólki gæti lagt fram krafta.“
Hann segir marga gamla Ísfirð-
inga hafa taugar til bæjarins og
geta hugsað sér að búa þar. Þá
þurfi að sjálfsögðu að vera hægt
að finna vinnu við hæfi. „En þetta
er paradís til að ala upp krakka.“
Hressir krakkar læra lífsreglurnar
Albert V. Magnússon fer til heimastöðvanna Ísa-
fjarðar á sumrin og heldur útivistar- og siglinga-
námskeið fyrir krakka. Þar læra þau að vinna
saman og bjarga sér en ekki síður að njóta augna-
bliksins eins og Anna Pála Sverrisdóttir komst
að í heimsókn á Ísafjörð á dögunum.
„… kenna þeim að njóta
þess að slappa af og
kúpla sig niður.“
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Albert ásamt námskeiðskrökkum, sem fannst ekki mjög leiðinlegt að láta mynda sig.
VART hefur farið framhjá ökumönn-
um og öðrum vegfarendum að fjöldi
hringtorga hefur aukist nokkuð síð-
astliðin ár. Stefán Finnsson, yfir-
verkfræðingur hjá Reykjavíkur-
borg, segir að kostur hringtorga
umfram umferðarljós sé einkum sá
að þau dragi alltaf úr umferðarhrað-
anum en á umferðarljósum geti bílar
keyrt hratt komi þeir að þeim á
grænu ljósi. Á móti komi að hring-
torgin afkasti minni umferð og geti
skapað erfiðleika fyrir gangandi veg-
farendur þar sem umferð bíla er
stöðug útúr þeim.
„Við reynum þess vegna að hafa
torgin sveigjóttari þar sem gangandi
vegfarendur eru nærri en sé mjög
mikið um gangandi umferð, og þá
sérstaklega nærri skólum, reynum
við að nota frekar gönguljós.“ Erna
Bára Hreinsdóttir, tæknifræðingur
hjá veghönnunardeild Vegagerðar-
innar, tekur undir þetta og segir
meira um hringtorg inni í íbúðar-
hverfum en áður. „Hraðinn er minni
í hringtorgunum og því verða stór
umferðarslys síður í þeim en á hefð-
bundnum gatnamótum. Það verður
alltaf eitthvað eignatjón en það verð-
ur mun minna og lítið um slys á
fólki.“
Hún bendir á að einnig noti sveit-
arfélög úti á landi hringtorgin sem
eins konar hlið þar sem þjóðvegur-
inn kemur inn í bæi til að tryggja að
umferðahraðinn minnki.
Breytt útlit hringtorga
Fjölmargar spurningar vakna við
hönnun hringtorganna og segir
Erna að taka þurfi tillit til ýmissa
þátta. Eitt af því sem skiptar skoð-
anir eru um er hversu mikið útsýni á
að vera yfir hringtorgin. Sumir telja
mikilvægt að ökumenn sjái ekki yfir
hringtorgið. Minni hætta sé þá á að
ökumenn keyri yfir þau í myrkri og
þeir geti einbeitt sér frekar að um-
ferðinni sem komi frá vinstri. Fyrir
vikið hafi verið reynt að setja eitt-
hvað á torgin sem byrgi mönnum
sýn.
Erna segir þó að varast verði að
setja grjót í miðju þeirra en slíkt geti
verið afar hættulegt ef ökutækjum
sé óvart ekið yfir þau. Aðrir telji aft-
ur á móti að mikilvægt sé að öku-
maðurinn hafi yfirsýn yfir torgið í
heild sinni. Erna telur að stærsta út-
litsbreyting torganna sé þó svoköll-
uð yfirkeyrslusvæði en þá sé ysti
hringur torgsins lagður með öðruvísi
vegefni sem gefi hönnuðum tækifæri
til að leggja krappari hringtorg sem
stærri bílar geti þó keyrt í.
Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Hringtorgum fjölgar
Eftir Gunnar Pál Baldvinsson
gunnarpall@mbl.is