Morgunblaðið - 24.09.2006, Síða 32
þungarokk
32 SUNNUDAGUR 24. SEPTEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
F
östudagurinn 26. sept-
ember 1986 er að kvöldi
kominn. Bandaríska
þungarokkshljóm-
sveitin Metallica hefur
nýlokið vel heppnuðum tónleikum í
Sonahallen í Stokkhólmi og er að búa
sig til brottferðar frá höfuðstað Svía.
Meiningin er að nýta nóttina til að
keyra suður til Kaupmannahafnar
þar sem næstu tónleikar í Norð-
urlandareisu sveitarinnar eru fyr-
irhugaðir kvöldið eftir. Hljómsveitin
og starfsmenn hennar eru að tínast
inn í tvær rútur við tónleikahöllina og
tveir menn draga svo lítið ber á spila-
stokk upp úr pússi sínu til að skera úr
um það hvor fái efri kojuna í annarri
rútunni. Þetta eru gítarleikarinn Kirk
Hammett og bassaleikarinn Cliff
Burton. Sá síðarnefndi dregur spaða-
ásinn. Kojan er hans.
Segir nú ekki meira af ferðum Me-
tallica fyrr en í dagrenningu, laug-
ardaginn 27. september. Rúturnar
eru að nálgast bæinn Ljungby í Smá-
löndunum og allt með kyrrum kjörum
á þjóðveginum. Skyndilega fer eitt-
hvað úrskeiðis. Bílstjóri annarrar rút-
unnar missir stjórn á henni. Um borð
eru meðlimir Metallica, fjórir að tölu,
fyrrnefndir Burton og Hammett,
Lars Ulrich trommuleikari og James
Hetfield gítarleikari og söngvari, auk
aðstoðarmannanna Flemming Lar-
sen, John Marshall og Aidan Mullen
og tónleikastjórans Bobby Schneider.
Hvar er Cliff?
John Marshall lýsir atburðarásinni
þannig: „Við vorum á einbreiðum
vegi. Rútan beygði snögglega til
hægri og ég held að bílstjórinn hafi
rétt hana of mikið af þegar hann
snarsneri stýrinu til vinstri í því
augnamiði að halda okkur á veginum.
Stýrið læstist og rútan snerist al-
gjörlega við. Afturendinn slóst eins
og sporður á fiski og skoppaði á hjól-
unum. Á þessu augnabliki byrjuðu
menn að ranka við sér. Ég held að ég
hafi dottið fram úr kojunni. Rak mig
illa í bríkina og gat varla gengið á eft-
ir. Rútan hafnaði á endanum ofan í
skurði við veginn þar sem hún valt á
hliðina.“
Mikil skelfing grípur um sig meðan
farþegarnir reyna að brjóta sér leið
út úr flakinu. Mullen og Larsen sitja
fastir undir rútunni en eru á lífi. Þrjár
klukkustundir tekur að losa þá. Þrír
liðsmenn hljómsveitarinnar komast
út tiltölulega óskaddaðir, Ulrich er
fingurbrotinn, Hetfield aðeins með
skrámur og Hammett með glóð-
arauga. Þeir eru í losti. Að öðru leyti
amar ekkert að þeim.
„Við sátum þarna í geðshræringu í
frostinu. Ég á brókinni og sokkunum
einum fata áður en einhver færði mér
teppi,“ heldur Marshall frásögn sinni
áfram. „Ég man að James og Kirk
öskruðu á bílstjórann. Þarna voru
menn farnir að gera sér grein fyrir
því að Cliff var ekki heill á húfi. Ég
man að James gekk upp veginn til að
athuga hvort hálka væri á honum en
það var skýringin sem bílstjórinn gaf
á slysinu. Kirk grét.“
Það er engin hljómsveit lengur!
Cliff Burton, sem var í fasta svefni í
efri kojunni þeim megin sem rútan
fór út af, hafði kastast út þegar hún
valt. Hann varð undir rútunni og beið
bana samstundis.
„Ég sá hann liggja undir rútunni.
Fæturnir stóðu út undan flakinu. Ég
missti stjórn á mér,“ rifjaði James
Hetfield upp mörgum árum síðar.
„Ég man að bílstjórinn var að
reyna að toga teppi undan honum til
að geta notað það handa öðrum. Þú
skalt ekki voga þér, þrumaði ég yfir
honum. Mig langaði að drepa mann-
inn. Ég hef ekki hugmynd um hvort
hann var ölvaður eða hvort hann lenti
í hálku. Það eina sem ég vissi var að
hann hafði verið við stýrið og að Cliff
var ekki lengur á lífi.“
Og hann heldur áfram: „Ég man að
Bobby tónleikastjóri sagði: „Ókei,
söfnum hljómsveitinni saman og
komum henni á hótelið.“ Ég hélt nú
ekki. Hvaða hljómsveit? Það er engin
hljómsveit lengur!“
Við björgunaraðgerðina slitnaði
kapall sem notaður var til að hífa rút-
una upp með þeim afleiðingum að
hún skall aftur á líki Burtons.
Bílstjórinn var yfirheyrður af lög-
reglunni í Ljungby en ákæra var
aldrei gefin út á hendur honum. Nið-
urstaða rannsóknarinnar var sú að
hálka á veginum hefði valdið slysinu.
Sögusagnir þess efnis að bílstjórinn
hafi verið ölvaður eru enn á sveimi.
Þær eiga ekki við rök að styðjast. Hér
var aðeins um hörmulegt slys að
ræða.
Þrír eftirlifandi liðsmenn Metallica
komu niðurbrotnir á hótel um morg-
uninn ásamt föruneyti sínu. Þar
sleiktu þeir sárin. Reiðin helltist yfir
Hetfield sem ku hafa mölvað tvær
rúður í herbergi sínu um kvöldið.
Hann var ekki mönnum sinnandi.
Sagan segir að hann hafi hlaupið út á
götu um nóttina og hrópað: „Cliff,
hvar í andskotanum ertu?“
Tilgangslaus dauði
Ulrich og Hammett báru harm
sinn í hljóði. „Ég var ekki svo reiður í
fyrstu,“ sagði Ulrich síðar. „Ég var að
sjálfsögðu sorgmæddur en reiðin
greip mig ekki fyrr en ég fór að velta
dauðdaga Cliffs fyrir mér. Það er
gömul saga og ný að rokkarar falli frá
en oftast kalla þeir það yfir sig með
ofdrykkju eða eiturlyfjaneyslu. Þetta
var öðruvísi. Gjörsamlega tilgangs-
laus dauði.“
Tveimur dögum síðar flaug Metal-
lica heim til Bandaríkjanna, buguð af
harmi.
Burton var jarðsunginn í San
Francisco 7. október 1986. Líkið var
brennt. Athöfnin náði hámarki þegar
tónverkið Orion af Master of Puppets
var leikið en það er að verulegu leyti
eftir Burton. Metallica lék Orion ekki
opinberlega í heild sinni aftur, aðeins
part og part, fyrr en nú í sumar, þeg-
ar hljómsveitin minntist þess að tutt-
ugu ár eru liðin frá útgáfu plötunnar.
Mikil óvissa ríkti um framtíð Me-
tallica eftir fráfall Burtons en þre-
menningarnir brugðust við áfallinu á
þann hátt sem þeir þekktu best – með
taumlausri drykkju. Fljótlega hertu
þeir þó upp hugann og ákváðu að
halda starfsemi hljómsveitarinnar
áfram – í virðingarskyni við Burton.
Það var ekki í hans anda að leggja
upp laupana. Efnt var til áheyrn-
arprófs, þar sem fjörutíu bassaleik-
arar spreyttu sig. Jason Newsted
hreppti hnossið. Saga Metallica hélt
áfram.
Hljómsveitin minntist Burtons
með dramatískum hætti á næstu
plötu, … and Justice for All, sem kom
út 1988, en eitt laganna, To Live is to
Die, er að mestu sett saman úr stefj-
um sem Burton hafði samið sjálfur.
Og bautasteinarnir eru víðar. Þannig
er eitt frægasta lag Megadeth, In My
Darkest Hour, tileinkað Burton en
aðalsprauta Megadeth, Dave Mus-
taine, var forveri Hammetts í Metal-
lica.
Æfði í fjóra til sex tíma á dag
Clifford Lee Burton fæddist 10.
febrúar 1962 í Castro Valley í Kali-
forníu. Hann lærði á píanó frá sex ára
aldri og tók sér bassagítar fyrst í
hönd átta árum síðar. Hann lék í bíl-
skúrshljómsveitum í heimabæ sínum
samhliða tónlistarnámi hjá manni að
nafni Steve Hamady. Að sögn for-
eldra Burtons varði hann alla tíð fjór-
um til sex klukkustundum á dag í æf-
ingar, jafnvel eftir að hann gekk til
liðs við Metallica. Tæknina vildi Bur-
ton hafa á sínu valdi. Hann sótti um
tíma nám í tónlist á háskólastigi.
Orðspor Burtons óx hratt og
snemma á níunda áratugnum var
hann farinn að vekja mikla eftirtekt
með hljómsveit sinni Trauma í San
Francisco. Meðal aðdáenda hans voru
tveir bólugrafnir unglingar frá Los
Angeles, James Hetfield og Lars Ul-
rich. Þá sárvantaði bassaleikara í ný-
stofnaða hljómsveit sína, Metallica,
en meðleigjandi Hetfields, Ron
McGovney, var ekki vandanum vax-
inn.
Félagarnir fréttu af Trauma og
skruppu norður til San Francisco í
því skyni að berja bandið augum.
„Við heyrðum þetta líka mergjaða
sóló,“ rifjar Hetfield upp, „en hugs-
uðum með okkur, það er enginn gít-
arleikari þarna. Þá kom í ljós að þetta
var bassaleikarinn, Cliff, með wah
wah-pedala og svona líka svakalegan
makka. Honum stóð á sama hvort
fólk var í salnum. Hann horfði bara
niður á hljóðfærið og spilaði.“
Til gamans má geta að Burton var
að spila hið fræga sóló (Anesthesia)
Pulling Teeth sem síðar var hljóð-
ritað fyrir fyrstu plötu Metallica.
Við komum þá bara til þín
Hetfield og Ulrich voru ekki í vafa.
Þennan mann yrðu þeir að fá til liðs
við sig. Burton var því ekki afhuga en
það var bara eitt vandamál: Hann gat
ekki hugsað sér að flytja til Los Ang-
eles. Tónlistarlífið þar var í hans huga
ein stór loftbóla. Hetfield og Ulrich
horfðu ráðvilltir hvor á annan en
gripu svo lausnina á lofti: „Við kom-
um þá bara til þín.“ Málið var leyst og
á síðustu dögum ársins 1982 gekk
Burton í Metallica.
Ulrich var sonur danskra innflytj-
enda, staðráðinn í að láta ameríska
drauminn rætast, og Hetfield ólst
upp á strangkristnu heimili. Í brjósti
hans brann reiði. Burton var af allt
öðru sauðahúsi. Foreldrar hans voru
gamlir hippar og hann drakk ýmis
þau gildi í sig með móðurmjólkinni.
Burton hafði tamið sér afslappað við-
horf til lífsins. Hann var prúðmenni,
nautnamaður og húmoristi. Sjarmör
og sérvitringur. Sannkallaður lífs-
kúnstner.
Þessir eiginleikar nutu sín ekki síst
í samskiptum við aðdáendur Metal-
lica. Burton hafði alltaf nægan tíma
fyrir þá. Einhverju sinni knúði ungur
drengur dyra hjá honum að morgni
dags til að fá bolinn sinn áritaðan.
Rauða vindmyllan
Á miðvikudaginn kem-
ur verða tuttugu ár síð-
an Cliff Burton, bassa-
leikari hinnar
goðsagnakenndu
þungarokkshljóm-
sveitar Metallica, beið
bana í rútuslysi í Sví-
þjóð, 24 ára að aldri.
Orri Páll Ormarsson
rifjar þennan voveif-
lega atburð upp og
reynir að varpa ljósi á
sérvitring og séní sem
var rokkheiminum
harmdauði.
Berserkur Hinn dagfarsprúði Cliff Burton minnti helst á Heklu gömlu í ham á sviði.
Í HNOTSKURN
»Cliff Burton tók við starfibassaleikara í Metallica milli
jóla og nýárs 1982 og gegndi því
til dauðadags, 27. september
1986.
»Hann lét lífið í hörmulegurútuslysi skammt frá bæn-
um Ljungby í Svíþjóð. Rútan
rann til í hálku og hafnaði ofan í
skurði. Burton kastaðist út úr
rútunni og varð undir henni.
»Burton lék inn á þrjár fyrstuplötur Metallica, Kill ’Em
All, Ride the Lightning og Mast-
er of Puppets.
»Hann var best menntaðurMetallica-manna í tónlist og
hafði mikil áhrif á félaga sína.
»Foreldrar Burtons fullyrðaað hann hafi alla tíð æft í
4–6 klukkustundir á dag, jafn-
vel eftir að hann gekk til liðs við
Metallica.