Morgunblaðið - 07.10.2006, Síða 22
22 LAUGARDAGUR 7. OKTÓBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
AKUREYRI
ÁRBORGARSVÆÐIÐ
STJÓRN sundfélagsins Óðins mótmælir því harð-
lega að byggð verði líkamsræktarstöð á sundlaug-
arsvæðinu og segir að framkomnar hugmyndir um
50 m yfirbyggða sundlaug í tengslum við Sundlaug
Akureyrar rúmist ekki með þeirri byggingu sem
nú er fyrirhuguð, skv. tilkynningu frá félaginu.
Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu
samþykkti bæjarstjórn í vikunni að auglýsa breyt-
ingu á deiliskipulagi og veita eiganda Vaxtarrækt-
arinnar leyfi til þess að byggja heilsuræktarstöð á
milli sundlaugarinnar og Íþróttahallarinnar.
Að mati stjórnar Óðins er það ótrúleg skamm-
sýni að heimila umrædda breytingu á deiliskipu-
lagi. „Eðlilegra er að fram fari heildarendurskoð-
un á skipulagi sundlaugarsvæðisins með
framtíðaruppbyggingu í huga. Fyrirhuguð bygg-
ing þrengir hins vegar mjög að sundlaugarsvæð-
inu og reisir skorður við eðlilegri þróun þess.“
Félagið telur ljóst að framkomnar hugmyndir
um 50 metra yfirbyggða sundlaug í tengslum við
Sundlaug Akureyrar rúmist ekki með þeirri bygg-
ingu sem nú er fyrirhuguð. „Raunar er vandséð að
um frekari uppbyggingu í tengslum við sundlaug-
ina geti orðið að ræða, verði af hugmyndum um
byggingu líkamsræktarstöðvar á þessum stað.“
Stjórn Óðins segir að flestum ætti að vera ljóst
að bygging 50 metra yfirbyggðrar sundlaugar á
Akureyri til sundkennslu, æfinga og keppni, er
einungis spurning um tíma. „Slíkar laugar eru
þegar til staðar eða á teikniborðinu í öllum stærri
bæjarfélögum landsins. Nægir að benda á nýja
laug í Reykjanesbæ því til staðfestingar og áætl-
anir sem í gangi eru á Akranesi, í Hafnarfirði og
víðar. Stjórn Sundfélagsins Óðins skorar á bæj-
aryfirvöld að skoða málin í stærra samhengi þann-
ig að ein framkvæmd verði ekki til þess að skerða
möguleika á uppbyggingu til framtíðar.“
Hörð mótmæli sundfélagsins
Stjórn Óðins segir fyrirhugað heilsuræktarhús skerða sundlaugarsvæðið
Í HNOTSKURN
»Stjórn sundfélagsins Óðins leggst alfar-ið gegn byggingu heilsuræktarhúss á
svæðinu milli Sundlaugar Akureyrar og
Íþróttahallarinnar.
»Sundfélagið telur yfirbyggða 50 msundlaug ekki rúmast á svæðinu ef
heilsuræktarhúsið rís.
» Stjórn Óðins skorar á bæjaryfirvöld aðskoða málið í stærra samhengi.
LA æfir nú leikritið Herra Kolbert
en frumsýnt verður í lok mánaðar-
ins. Hér er starfsfólk sýninarinnar;
leikstjóri er Jón Páll Eyjólfsson
(Maríubjallan) og leikarar Edda
Björg Eyjólfsdóttir, Gísli Pétur
Hinriksson, Guðjón Davíð Karlsson,
Ólafur Steinn Ingunnarson og Unn-
ur Ösp Stefánsdóttir.
Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Herra Kolbert farinn á stjá
HÁSKÓLINN á Akureyri braut
ekki jafnréttislög við ráðningu í starf
lektors í fjölmiðlafræði við félagsvís-
inda- og lagadeild, að mati kæru-
nefndar jafnréttismála, en ákvörðun
um ráðninguna var tekin í apríl 2005.
Karl var ráðinn en kona sem einn-
ig sótti um kærði þá niðurstöðu.
Báðir umsækjendur voru taldir
hæfir og kærunefndin telur, miðað
við skilgreiningu starfsins og hvað
var lögð áhersla á í auglýsingu, að
rök skólans fyrir ráðningu karlsins
teljist málefnaleg og að ekki verði
talið að kynferði kæranda hafi ráðið
því að hún hlaut ekki starfið.
HA braut
ekki lög
Kynferði ekki talið
hafa ráðið úrslitum
Jón Erlendsson
var kjörinn for-
maður VG á Ak-
ureyri á aðal-
fundi í vikunni.
Fundurinn skor-
ar m.a. á ríki og
sveitarfélög að
ganga strax til
samninga um
tryggingu tekju-
stofna handa
sveitarfélögunum, svo þau fái hald-
ið uppi nauðsynlegri þjónustu á
landsbyggðinni. Ennfremur skorar
fundurinn á ríkisvaldið að leggja
aukið fé til öldrunarþjónustu með
hækkun daggjalda.
Jón formaður
Vinstri grænna
Jón
Erlendsson
VEGNA mjög góðrar aðsóknar á
sumarsýningu Minjasafnsins á Ak-
ureyri hefur verið ákveðið að fram-
lengja sýningartímann til 19. nóv-
ember nk. Safnið verður opið allar
helgar frá klukkan 14–16 fram til
19. nóvember og eftir sam-
komulagi. Sýningin nefnist „Ef þú
giftist“ og er þar fjallað um brúð-
kaup, brúðkaupssiði og ýmiskonar
tískustrauma.
Brúðkaupssýn-
ingin framlengd
FÉLAGAR í Veðurklúbbnum á
Dalbæ telja að október verði mild-
ur, ríkjandi norðaustan- og aust-
anáttir. Þó komi dagar er grána
mun niður eftir fjallshlíðum, og all-
mikið verður um næturfrost. Mán-
uðurinn í heild verður hæg-
viðrasamur. Minnt er á að spáin
fyrir september hafi ræst og að spá
klúbbfélaga um mjög góða berja-
sprettu hafi staðist fullkomlega.
Veðurklúbburinn
spáir mildu veðri
Eftir Sigurð Jónsson
Selfoss | „Ég er bjartsýnn á góða uppbygg-
ingu í heilbrigðisþjónustunni á Suðurlandi og
mér finnst gott að starfa hérna. Uppbyggingin
gerist ekki af sjálfu sér og allir þurfa að vera
vakandi. Með sameiningu heilbrigðisstofnana
á Suðurlandi var stefnt að því að gera hana öfl-
ugri. Hver staður á Suðurlandi hefur sín sér-
kenni og margar einingar geta verið brothætt-
ar til dæmis þar sem einn læknir og
hjúkrunarfræðingur halda uppi þjónustunni,“
sagði Magnús Skúlason, framkvæmdastjóri
Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.
Framkvæmdir eru að hefjast aftur við ný-
byggingu stofnunarinnar á Selfossi eftir að
hafa legið niðri um skeið vegna þess að ákveðið
var að stækka nýbygginguna um eina hæð.
Það varð til þess að leggja þurfti talsverða
vinnu í hönnun í tengslum við stækkunina.
Samningar við verktaka eru nú í höfn og mun
hann hefjast handa á næstu dögum.
Stækkun er flókið verkefni
„Það var fyrir ári að það byrjuðu umræður
um að fá þriðju hæðina ofan á nýbygginguna
og eftir að það var ákveðið tók við hönn-
unarvinna sem lauk í júlí og samstarfsnefnd
um opinberar byggingar hefur síðan samþykkt
breytingarnar. Stækkunin er viðbót við fyrsta
áfanga byggingarinnar sem var uppsteypa
hennar og frágangur á 2. hæð hússins og á lóð.
Það er ekki orðið ljóst með framgang næsta
áfanga sem er að fullklára húsið en búast má
við að áætlun um hann verði tilbúin núna á
haustdögum. En það er mjög brýnt fyrir okk-
ur og líka þingmenn að vita hvernig þessi áætl-
un verður og hvað næsti áfangi verður stór og
hvenær honum muni ljúka. Við munum þrýsta
á að þetta gerist sem fyrst. Það hefur legið fyr-
ir að það er vilji hjá ráðuneytinu að klára þau
verk sem byrjað er á áður en farið er í ný verk-
efni,“ sagði Magnús og benti á að fram-
kvæmdir sem þessar, þar sem verið er að bæta
nýju húsi við eldra hús, væru flóknar og þeim
fylgdi mikil röskun á viðkvæmri starfsemi. Það
væri því nauðsynlegt að geta skipulagt fram-
kvæmdir vel og tekið mið af starfseminni á
sjúkrahúsinu.
„Við erum að fá tvær hjúkrunardeildir inn í
húsið sem veldur því um leið að það þarf að
breyta gamla húsinu og færa til starfsemi þar
svo þetta komist fyrir. Til dæmis þyrfti heilsu-
gæslan að geta flutt strax í nýja húsið svo
hægt sé að breyta núverandi húsnæði hennar
fyrir aðra starfsemi sem flytja þarf til í húsinu.
Það má því segja að breytingarnar á gamla
húsinu séu í raun þriðji áfanginn sem nauðsyn-
legt er að liggi fyrir um leið og framhaldið með
annan áfanga skýrist,“ sagði Magnús.
„Eftir allar breytingarnar verðum við komin
með öfluga heilsugæslu hérna, 40 hjúkr-
unarrými, auk sjúkra- og fæðingardeildar,
samtals 31 rúm, ásamt auknu rými fyrir ýmsa
stoðþjónustu. Fjöldi hjúkrunarrýma á Selfossi
nær með þessu landsmeðaltali en þess ber að
geta að íbúum hér á svæðinu fjölgar mjög
hratt. Með þessari bættu aðstöðu getum við
veitt meiri þjónustu og það verður mikill
styrkur að fá þessa þriðju hæð ofan á húsið.
Hún mun nýtast fyrir heilabilaða og síðan opn-
ast möguleikar á hvíldarinnlögnum til
skemmri tíma. Þetta á allt eftir að skipuleggja
og líka aukna heimahjúkrun sem er stórt
áhersluatriði en tillögur vinnuhóps um öldr-
unarmál sem unnið er eftir ganga út á það að
HSu geti veitt stofnunum á Suðurlandi sér-
hæfða þjónustu. Í tillögum hópsins er líka gert
ráð fyrir lítilli öldrunarlækningadeild svo ein-
hver dæmi séu nefnd. Þetta eru atriði sem eru
í deiglunni en byggingin hjálpar verulega til í
því verkefni að bæta þjónustuna en það er ljóst
að það er framundan spennandi uppbygging í
heilbrigðisþjónustunni á Suðurlandi,“ sagði
Magnús en Heilbrigðisstofnun Suðurlands
tekur til 8 heilsugæslustöðva á Suðurlandi,
sjúkrahússins á Selfossi og Sogns, ásamt því
að þjónusta Litla-Hraun.
Hjá stofnuninni eru hátt á fjórða hundrað
starfsmenn. Velta næsta árs er áætluð 1.480
milljónir auk Réttargeðdeildarinnar á Sogni
með 180 milljónir. Í fjárlögum er að sögn
Magnúsar leiðrétting fyrir stofnunina sam-
kvæmt ákveðnu reiknilíkani sem metur þjón-
ustumagn út frá íbúafjölda o.fl. Þessi leiðrétt-
ing nemur 38 milljónum. Að sögn Magnúsar er
einnig nauðsynlegt að taka tillit til aldurs-
samsetningar íbúanna á þjónustusvæðinu því
það er þáttur sem hefur áhrif á kostnað.
Ekki liggur fyrir leiðrétting fyrir rekstur
ársins 2006 og fyrri ára en um síðustu áramót
var uppsafnaður halli 104 milljónir og gerir
Magnús ráð fyrir að hann verði hátt í 200 millj-
ónir króna um næstu áramót. „Við gerum okk-
ur vonir um leiðréttingu á þessu vegna þess að
hallinn er tilkominn vegna aukinnar þjónustu
við vaxandi íbúafjölda og auknar kröfur til
þjónustunnar,“ sagði Magnús.
Krefjandi og skemmtilegt
„Ég kann vel við þetta starf og mér finnst
gott að starfa á Suðurlandi, þetta er krefjandi
og skemmtilegt starf sem fylgir manni auðvit-
að hvert sem maður fer. Jú, jú, ég reyni að
nota frítímann vel og reyni að stunda útiveru
með konu minni, hef gaman af stangveiði,
gönguferðum ofl Svo stunda ég sund og aðra
líkamsrækt og les talsvert,“ sagði Magnús
þegar hann var inntur eftir því hvernig hann
verði frítímanum. Hann var í nokkur ár for-
maður Knattspyrnudeildar Breiðabliks sem er
fjölmennasta knattspyrnufélag landsins og á
syni sem leika með liði félagsins. „Ég fylgist
vel með knattspyrnunni, bæði í efstu deild og
annars staðar. Svo fer ég á leiki eins og ég hef
gert í mörg ár,“ sagði Magnús Skúlason.
Spennandi uppbygging framundan
Morgunblaðið/Sigurður Jónsson
Framkvæmt Magnús Skúlason, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, við ný-
byggingu stofnunarinnar á Selfossi. Framkvæmdir eru nú í fullum gangi á svæðinu.
Magnús Skúlason er
áhugamaður um útivist
og knattspyrnu