Morgunblaðið - 28.12.2006, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - 28.12.2006, Blaðsíða 31
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 28. DESEMBER 2006 31 Elsku amma, nú ertu laus úr þessum veika líkama. Rosalega var það vont að heyra það að þú værir farin á annan og betri stað. Með sárum söknuði í hjarta kveðjumst við nú. Það var alltaf svo spennandi að fara suður til Reykjavíkur og hitta ömmu og gista hjá henni á Klapp- arstígnum. Alltaf fórum við í Kola- portið og keyptum lakkrís og niður á Tjörn til að gefa öndunum brauð. Þú hafðir alltaf tíma til þess. Tíma til að dútla eitthvað með barna- börnunum. Við eigum margar góð- ar minningar saman eins og þegar ég fékk að fara með þér og vinkonu þinni til Hríseyjar og við vorum þar í heila viku. Þið voruð að reyna að kenna mér og Dóru margföldunar- töfluna og að prjóna. Við vorum ekki alveg til í að eyða þessari viku í Hrísey í að þylja upp margföldun- artöfluna. Skildi ekkert hvað ég hefði með hana að gera í framtíð- inni. En þú kenndir mér líka meira en að þylja upp einhverjar tölur. Þú varst alltaf að vinna á svo skrítnum stöðum, miðað við ömmur sem eiga bara að vera heima og baka. Þú varst þú alltaf á einhverju flakki. Það var svo spennandi þegar ég mátti fara að heimsækja þig eina páskana. Þá varstu að vinna á Nesjavöllum og ég var hjá þér í tæpa viku. Fór með þér í vinnuna á morgnana og hjálpaði þér að þrífa. Ég man allavega þegar ég þreif kló- sett í fyrsta skiptið og þú varst að sýna mér hvernig ég ætti nú að gera þetta almennilega. Ég var svo stolt og ánægð, nú kunni ég sko að þrífa klósett og amma kenndi mér það. Ég held að það skipti litlu máli hvað þú gerðir, mér fannst allt sem þú varst að gera eitthvað svo öðru- vísi og flott. Þú ferðaðist til skrít- inna staða og vannst á stöðum sem mér fannst nú að ömmur ættu nú ekki að vera vinna á. Ég hafði alltaf voða áhyggjur þegar þú varst að vinna í vitanum. Hrædd um að þér myndi örugglega leiðast og var allt- af að biðja mömmu um að senda mig þangað, þá hefðir þú að minnsta kosti félagskap og kannski gæti ég hjálpað þér. Þú varst alveg einstök í alla staði. Þú hefur glímt við erfiðan sjúkdóm núna síðustu ár ævi þinnar og ef hann hefði ekki hrjáð þig værir þú örugglega á ein- hverju flakki og að vinna á skrítn- um stað þar sem hamingjan hefði skinið af þér. Elsku amma, ég sakna þín svo mikið og það er svo sárt að þú sért farin. Ég bið nú góðan Guð að geyma þig. Þín Efemía (Ebba litla). Ég minnist ömmu sem góðrar og glaðlyndrar konu. Ég kynntist henni mest eftir að hún varð veik og var komin á sjúkrahúsið. Við mamma fórum að heimsækja hana eins oft og við gátum. Þá lá ég oft í rúminu hennar eða sat í hjólastóln- um á meðan við mamma spjölluðum við hana. Eftir að hún var hætt að geta talað töluðum við mamma saman um alla heima og geima og hún fylgdist með. Hún hló oft að vitleysunni í okkur þegar við vorum að bulla eitthvað. Ég held að henni hafi þótt skemmtilegast þegar við vorum að spila og syngja fyrir hana. Þá ljómaði hún öll og brosti þegar við sungum uppáhalds lögin hennar. Ég elska þig amma mín, guð geymi þig. Ég horfi í ljóssins loga sem lýsir í hugskot mitt og sé á björtum boga brosandi andlit þitt. (Snjólaug Guðmundsdóttir) Brynhildur Hallgrímsdóttir. Okkur systkinunum bárust þau sorglegu tíðindi síðastliðinn föstu- dag þess efnis að amma okkar væri látin. Það er okkur þó huggun harmi gegn að vita til þess að fyrir þig, kæra amma, hefur þetta verið ákveðinn léttir. Þú varst alltaf svo lífsglöð og hress en undanfarin ár hafði hræðilegur sjúkdómur gert þig að fanga í eigin líkama. Slíkt áttirðu ekki skilið og allir vöðvar hjartans herptust saman í hvert sinn sem við sáum þig í þessu ástandi. Við munum ennþá þegar þú bjóst á Klapparstígnum og varst ávallt tilbúin til að taka á móti okkur systkinunum. Það var líka hægt að gabba þig til að gera hvað sem er með okkur. Þú varst margoft dreg- in í bíó eða út í búð að kaupa nammi. Þú varst alltaf svo hress og gerðir allt fyrir okkur. Síðar meir fækkaði heimsóknunum og þú tókst upp á því að ferðast um heiminn. Fórst meðal annars til Perú og komst til baka með forláta húfu að hætti heimamanna og gafst föður okkar hana. Þessi húfa hefur ávallt vakið mikla lukku hjá okkur systk- inunum enda lítur faðir okkar alveg fáránlega út með hana. Við munum líka eftir því þegar þú komst og passaðir okkur á meðan foreldrar okkar voru í útlöndum. Þú ákvaðst að taka okkur í bíltúr út í sveit til að heimsækja systur þína en þú bölv- aðir heimilisbílnum á leiðinni sem lét eitthvað illa undir þinni stjórn. Þegar á áfangastað var komið komstu síðan að því hvað var að bílnum með þinni alkunnu útsjón- arsemi. Hann var í handbremsu. Það var síðan fyrir nokkrum ár- um að þú byrjaðir að verða veik. Smám saman varðstu nánast alveg lömuð og misstir máttinn til að tjá þig. Það verður seint sagt að lífið sé sanngjarnt og í örlögum þínum kristallast sú staðreynd. Við vonum bara innilega að sá staður sem þú ert komin á núna sé þér hvíld eftir áralanga baráttu við ólæknandi sjúkdóm. Við systkinin þökkum þér allan þann tíma sem þú eyddir með okkur. Við skulum gera okkar besta til að sannfæra pabba um að vera með húfuna frægu í jarðarför- inni svo þú hafir eitthvað til að hlæja að þarna hinum megin. Sjáumst síðar … Pétur og Ellen. Amma er fallin frá. Upp í hugann koma ótal yndis- legar minningar. Hún var ævin- týramanneskja og hafði gaman af því að ferðast. Ég man hvað mér fannst amma spennandi og skemmtileg þegar ég kom á Klapp- arstíginn til hennar og sá myndir af henni í strákofum í Afríku og við pýramídana á Egyptalandi. Íbúðin á Klapparstígnum var líka lítið æv- intýri. Baðherbergið var undir súð og inni á því var minnsta bað sem ég hafði séð og ekki nóg með það, heldur var sæti í því. Okkur systr- unum fannst ekkert skemmtilegra en að fara í bað hjá ömmu. Amman nostraði líka mikið við íbúðina sína og gerði hana stórfína. Þó að íbúðin væri lítil var alltaf pláss fyrir mig og vinkonur mínar þegar við kom- um í bæinn til að kaupa föt fyrir veturinn. En amma hafði líka augun opin fyrir góðum kaupum og það voru ófáar helgarnar sem farið var í Kolaportið og keypt eitt og annað. Við gerðum oft grín að því að amma keypti bara hluti af því að þeir væru ódýrir og að hún myndi örugglega kaupa óléttubuxur bara af því að þær væru á svo góðu verði. Ég á margar kærar minningar um ömmu. Sú minning sem er mér hvað kærust eru viðbrögð ömmu við því þegar hún frétti að ég væri ólétt aðeins 17 ára gömul. Eftir að hafa fengið þær fregnir stóð amma mín upp, labbaði út í búð og keypti sér blóm, því að hún var að fara að eignast sitt fyrsta langömmu-barn. Amma var ekki bara amma, hún var vinur sem ég gat leitað til og eftir að hún veiktist fannst mér svo erfitt að geta ekki rætt öll heimsins mál við hana.En ég man líka alltaf hvað hún hlakkaði mikið til að hætta að vinna og geta farið að ferðast en ekkert varð úr þeim draumi vegna veikinda hennar. En ég held að amma mín sé farin í sína langþráðu ferð og sitt mesta ævintýri og því óskum við henni góðrar ferðar og þökkum fyrir allar minningarnar. Katrín Eva, Kristófer Fann- ar og Jónína Margrét. Elsku amma. Amma Ebba í Reykjavíkinni. Ég trúði því varla þegar mamma hringdi í mig og sagði mér að þú værir dáin. Mér fannst það gerast svo hratt, ég varð svo sorgmædd, en samt svo ánægð fyrir þína hönd. Þú ert komin á betri stað núna og ef ég þekki þig rétt þá ertu strax farin að ferðast og skoða hvern krók og kima þarna hinum megin. Ég vil bara að þú vitir að ég á aldrei eftir að gleyma þeim skiptum sem ég kom til þín í heimsókn á Klapparstíginn og í hvert skipti sem ég keyri þar framhjá þá rifjast upp frábærar minningar sem ég geymi núna í hjarta mínu. Ég á líka aldrei eftir að gleyma því þegar ég kvaddi þig áður en ég fór til Ítalíu. Við hlógum mikið saman þá, þó svo að það heyrðist lítið í þér. Ég sá að þú varst ánægð fyrir mína hönd og það þótti mér vænt um. Það var alltaf stutt í grínið hjá okkur þegar að við vorum saman og þess vegna á ég bara frábærar minningar um frábæra ömmu. Þín Stefanía Fanney. Jólanótt – og ég kveikti á kerti rétt eins og forðum litlu kerti. Það logar á borði mínu unir þar sínu lífi slær ljóma á þögnina. Og bíð þess að ég finni sem forðum að glaðir hljómar séu lagðir af stað út úr lágum turnunum að ég heyri þá svífa yfir hvítt landið og stefna hærra, hærra! Eins og hyggist þeir setjast á sjálfar stjörnurnar svo ljós og hljómar geti hafið í einingu saman af himnum gegnum loftin sína heilögu ferð. (Hannes Pétursson) Hinsta kveðja, Ingi Heiðmar Jónsson. ✝ Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, SVEINN GUÐLAUGSSON fyrrverandi kaupmaður, Skálagerði 9, Reykjavík, lést á elli- og hjúkrunarheimilinu Grund fimmtu- daginn 14. desember. Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna. Sérstakar þakkir til starfsfólks á V-2 fyrir góða umönnun. Katrín Eiríksdóttir, Kristín Sveinsdóttir, Pétur Á. Carlsson, Elín Á. Sveinsdóttir, Sólveig K. Sveinsdóttir, Már G. Pálsson, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, FRÚ RAGNA BJÖRNSSON, Ásvallagötu 24, Reykjavík, lést á annan í jólum á hjúkrunarheimilinu Sóltúni. Jón Ásgeir Sigurðsson, Margrét Oddsdóttir, Margrét Sigurðardóttir, Þórir Haraldsson, Björn Sigurðsson, Hekla Smith, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Ástkær eiginmaður minn, faðir, tengdafaðir og afi, SIGURÐUR GUÐMUNDSSON, andaðist þriðjudaginn 26. desember. Jarðarförin verður auglýst síðar. Geirlaug Jónsdóttir, Birgir Sigurðsson, Sólveig Bjarnþórsdóttir, Nanna Lára Sigurjónsdóttir. ✝ Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og lang- amma, KRISTÍN GUÐMUNDSDÓTTIR, Hjallavegi 3, Flateyri, andaðist á Heilbrigðisstofnun Ísafjarðar mánudaginn 25. desember. Útför hennar verður gerð frá Flateyrarkirkju laugardaginn 30. desember kl. 11.00. Þeim sem vilja minnast hennar er bent á að láta Heilbrigðisstofnun Ísafjarðar njóta þess. Páll Önundarson, Úlfar Önundarson, Barði Önundarson, Elva Jóhannsdóttir, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Ástkær eiginkona mín, móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, HREFNA PÉTURSDÓTTIR, Kópavogsbraut 1B, Kópavogi, áður til heimilis í Lyngbrekku 4, Kópavogi, lést á hjartadeild Landspítalans við Hringbraut aðfaranótt aðfangadags, sunnudagsins 24. des- ember. Jarðsungið verður frá Digraneskirkju fimm- tudaginn 4. janúar kl. 13.00. Þráinn Þorleifsson, Pétur Berg Þráinsson, Ingibjörg Skúladóttir, Guðlaug Þráinsdóttir, Rúnar Þráinsson, Þórir Þráinsson, Þráinn Pétursson, Sigríður Ásdís Erlingsdóttir, Aron Þór, Hrefna Berg, Ragnar Ingi, Helga Bríet, Ylfa Karitas og aðrir aðstandendur. ✝ Elskuleg móðir mín, amma, systir okkar, mágkona og frænka, KOLBRÚN AGNARSDÓTTIR, Vatnsholti 9b, Keflavík, andaðist á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja föstu- daginn 22. desember. Útförin fer fram frá Keflavíkurkirkju föstudaginn 29. desember kl. 10.30. Blóm og kransar eru vinsamlega afþakkaðir en þeim sem vilja minnast hennar er bent á Krabbameinsfélag Íslands. Anna Kristjana Egilsdóttir, Kolbrún Júlía Guðfinnsdóttir Newmann, Svanhildur Kjær, Stefán Haraldsson, Lilja Agnarsdóttir Lysaght, Jerry Lysaght, Helga Agnarsdóttir Kitzmiller, Agnes Agnarsdóttir, Gunnlaugur Karl Guðmundsson, Guðrún Ólöf Agnarsdóttir, Baldur Konráðsson og frændsystkini.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.