Morgunblaðið - 29.03.2007, Blaðsíða 41
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 29. MARS 2007 41
„EKKI hlæja!“ Þannig segir ein
þjóðsagan að Moliére hafi komist
að orði þegar hann hneig niður á
sviðinu í hlutverki hins ímynd-
unarveika Argans, og urðu hans
lokaorð á leiksviði (ekki í lífinu, því
hann dó ekki samstundis, þó sagan
væri vissulega betri þannig). Auð-
vitað var skáldinu og leikaranum
ekki hlátur í hug á þessari stundu,
en af orðum hans má líka draga þá
ályktun að hann gerði ráð fyrir
hlátri. Sem vonlegt er, því jafnvel
enn í dag er Ímyndunarveikin stór-
hlægilegt verk um hroka, blindu,
þráhyggju og möguleika óprúttinna
manna til að hagnýta sér þessa
veikleika. Kannski er það ekki síst
fyrsta grínleikritið sem gerir mark-
aðssetningu að aðhlátursefni, og
ekki vanþörf á enn þann dag í dag.
En hr. Nauzyciel sér þetta ekki
svona. Ég er ekki einu sinni viss
um að hann líti á verkið sem gam-
anleikrit. Allavega var sá hluti sýn-
ingarinnar sem er byggður á
Ímyndunarveikinni nánast alveg
gersneyddur þeim léttleika og
skopfærslu sem best þjónar stíl
höfundar. Reyndar er hann að
mestu leyti laus við flest það sem
talið er leiksýningum til tekna:
áhugaverðri og snjallri sýn á við-
fangsefnið, skýrri og lifandi per-
sónusköpun, útgeislun og leikgleði
flytjenda. Nú er hr. Nauzyciel víst
dáður leikstjóri sem allskyns nafn-
togað fólk vill vinna með, þar á
meðal forráðamenn Þjóðleikhússins
sem hafa tryggt sér starfskrafta
hans á næsta leikári. En ef þetta
væri ekki allt skjalfest myndi mér
þykja einna nærtækast að lýsa stíl
sýningarinnar sem kunnáttu- og
hæfileikaleysi sem breitt hefði verið
yfir með tilgerð og þokukenndri
hugsun sem ef heppnin er með get-
ur virkað djúp í krafti torræðni
sinnar. Kannski ekki ósvipað að-
ferðum þeim sem læknamafían í
verkinu beitir til að tryggja völd sín
og afkomu. Var það kannski kons-
eptið?
Til viðbótar við tvo stóra búta úr
verki Moliéres er í sýningunni
langt eintal sem lagt er í munn
dóttur skáldsins. Það flutti Bryn-
hildur Guðjónsdóttir, og voru
fingraför leikstjórans líka greinileg
þar. Textinn var stirður og bók-
málslegur, hvort sem þar er að sak-
ast við höfundinn eða þýðandann og
var skilað með svipaðri flatneskju
og hinir litríku karakterar Moliéres
voru ofurseldir. Textaflutningur
frekar en lifandi leiklist.
Nánast eina atriðið sem hafði
einhvern þokka í sýningunni var
síðan samleikur Brynhildar og Jean
Philippe Vidal í litlu atriði úr
Ímyndunarveikinni, þar sem blæ-
brigðaskorturinn og einfaldleikinn
var í eðlilegu samhengi við inni-
haldið.
Að öðru leyti er lítið merkilegt
um leikarana að segja, annað en
það hlýtur að útheimta talsverðan
myndugleika að fá þroskaða leikara
með virðingu fyrir list sinni til að
gefa jafn lítið af sér, fyrir utan ein-
staka stökk inn í groddalegan og
bernskan skopstíl sem var fyrst og
fremst vandræðalegur.
Leikmyndin var flott og buðu
tjöldin á brautum í loftinu upp á
margvíslega möguleika sem vit-
anlega voru illa og stefnulaust nýtt-
ir.
Að mínu viti er alveg leyfilegt að
nota klassísk verk til að koma sinni
eigin hugsun á framfæri. Það má
snúa upp á þau á alla enda og
kanta mín vegna, skopast að þeim
og snúa merkingu þeirra á haus.
Það er hinsvegar alveg allt að því
bannað að vera leiðinlegur. Ég tala
nú ekki um þegar efniviðurinn
sjálfur er jafn skemmtilegur og
Ímyndunarveikin. Moliére var
nefnilega ekki að biðja okkur að
hlæja ekki að verkinu.
Ekki hlæja!
Vonbrigði „Leikmyndin var flott og buðu tjöldin á brautum í loftinu upp á
margvíslega möguleika sem vitanlega voru illa og stefnulaust nýttir.“
LEIKLIST
Þjóðleikhúsið
Gestaleikur CDDB – Théatre de
Lorient, Centre Dramatique Nat-
ional de Savoie, Compagnie
41751/Arthur Nauzyciel.
Byggt á Ímyndunarveikinni eftir Moliére
og Þögn Moliéres eftir Giovanni
Macchia. Leikstjórn og leikgerð: Arthur
Nauzyciel, þýðing: Kristján Þórður
Hrafnsson, leikmynd: Claude Chestier,
búningar: Claude Chestier og Pascale
Robin, lýsing: Marie-Christine Soma,
hljóð: Xavier Jacquot, tónlist: Jean Chrir-
stophe Marti, skjátextar: Lárus Sig-
urbjörnsson og Tómas Guðmundsson.
Leikendur: Arthur Nauczyciel, Brynhildur
Guðjónsdóttir, Emile Nauczyciel, Gilles
Blanchard, Isabelle Hurtin, Jean Pilippe
Vidal, Mickaël Duglue, Nanou Garcia,
Pierre Gerard og Stephanie Schwartz-
brod.
Ímyndunarveikin eða þögn Moliéres
Þorgeir Tryggvason
AUSA STEINBERG
LEIKHÚSPÁSKAR
Á AKUREYRI!Fjölbreytt dagskráalla páskana
Skoðaðu sýningartímana í leikhúsdálki eða á netinu og tryggðu þér miða strax!
Miðasala LA opin alla virka daga frá kl. 13-17 og fram að sýningu á sýningardögum.
Miðsala á netinu allan sólarhringinn, www.leikfelag.is
Miðasala í síma 4 600 200
www.leikfelag.is
Best í heimi Lífið – notkunarreglur Ausa Steinberg
Rómuð gestasýning
„fólk ætlaði hreint vitlaust að verða
úr hlátri.” S.A. TMM
„Meinfyndið sprell í frábærri
sýningu” K.H.H. Fréttablaðið
„Menn verða ekki sviknir af því að
fara á þessa sýningu, hlæja að
sjálfum sér og hugsa kannski
svolítið um leið” M.K. Morgunblaðið
Allt að seljast upp!
Nýtt leikverk eftir
Þorvald Þorsteinsson
Tónlist eftir Megas
Leikstjórn: Kjartan Ragnarsson
Tónlistarstjórn: Magga Stína
Einstök og mannbætandi sýning
,,afar falleg og fáguð leikhúsperla”
A.B. Fréttablaðið
,,gullmoli og perla þar sem hvert
andartak er unun og hreif áhorf-
endur á öllum aldri”
E.B. DV
D.H. LAWRENCE skrifaði víst
þrjár útgáfur af sögunni um lafði
Chatterley. Sú þriðja og síðasta er
þekktust. Ég las hana fyrir margt
löngu og fannst ekki mikið koma til
hugmynda höfundar um kynlíf og
konur. Franska myndin Lady Chat-
terley er byggð á útgáfu tvö sem ég
hef ekki lesið. Ég veit því ekki hvort
áherslubreytingarnar í myndinni eru
runnar undan rifjum D.H. Lawrence
eða kvenleikstjórans Pascale Ferran
og handritshöfundanna sem skrifuðu
með henni, Roger Bohbot og Pierre
Trividic.
Í grunninn er sagan eins, ást-
arþríhyrningurinn sá sami. Eig-
inmaður lafði Chatterley, Clifford
(Hippolyte Girardot), er lemstraður
eftir hermennsku í fyrri heimsstyrj-
öld. Í hjónabandinu ríkir mikil yf-
irstéttar fjarlægð og kuldi, og lafði
Chatterley, Constance (Marina
Hand), að koðna niður undan þrúg-
andi andrúmslofti. Þá takast kynni
með henni og skógarverðinum (Jean-
Lois Coulloc’h) á landareign þeirra
hjóna. Hin forboðna ást með jarð-
bundna alþýðumanninum blæs nýju
lífi í lafðina, en stéttarmunur þeirra
skötuhjúa var önnur helsta ástæðan
fyrir því að sagan var illræmd um
miðbik síðustu aldar.
Það sem þessi nýjasta kvikmynda-
útgáfa hefur í plús er hægur stígandi.
Ástarsambandið þróast hægt og ró-
lega. Aðrir þræðir í sögunni koma
eiginlega eins og hnökrar inn í fram-
vinduna og verða hálfendaslepp inn-
skot. Eins og t.d. samræður hjónanna
um nauðsyn þess að stjórna alþýð-
unni, og andstæðurnar sem á að
draga upp af rykugum námuverka-
mönnunum og fegurð náttúrunnar.
Reyndar birtast langflestar af
þeim hugmyndum sem D.H. Law-
rence stillti upp sem hallærislegar
klisjur í myndsmíð Pascale Ferran,
þó að ég haldi að það hafi nú ekki ver-
ið meiningin. Lífslöngun og losti Con-
stance brjótast auðvitað fram með
hækkandi sól og vorkomu. Hún og
ástmaðurinn hlaupa berrössuð um í
rigningunni í miklum hippafíling.
Sem er í raun framför frá lýsingunni í
þriðju útgáfunni þar sem henni var
lýst sem nakinni bráð veiðimannsins,
ef ég man rétt.
Marina Hand túlkar ágætlega lafði
Chatterley sem konu sem er að upp-
götva sjálfa sig. Það er ekki við hana
að sakast þó að myndin tjái þróun
persónunnar á þunglamalegan hátt.
Eins og þegar þrá Constance eftir
barni er komið til skila með því að
planta konu með barn á brjósti fyrir
framan hana.
Jean-Lois Coulloc’h er drumbs-
legur í hlutverki skógarvarðarins.
Hvers vegna Constance dregst að
honum og fellur fyrir honum er mér
alveg hulið. Meira að segja hinn
hundleiðinlegi Clifford vekur upp
meiri samúð.
Myndin hlaut fimm Cesar-
verðlaun í Frakklandi í ár. Hún er
líka framsett með ýmsum slaufum
sem höfða til listræna kvikmynda-
markaðarins, en vandinn er að þetta
eru bara slaufur sem hafa í sjálfu sér
ekkert með söguna um lafði Chatter-
ley að gera.
Hallærisleg náttúrubörn
KVIKMYNDIR
Háskólabíó – Frönsk kvik-
myndahátíð
Leikstjóri: Pascale Ferran. Aðalleikarar:
Marina Hand, Jean-Lois Coulloc’h, Hippo-
lyte Girardot. 158 mín. Frakkland. 2006
Lafði Chatterley – Lady Chatterley
Anna Sveinbjarnardóttir
Lafði „Ástarsambandið þróast hægt og rólega.“