Morgunblaðið - 23.08.2007, Blaðsíða 37
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 23. ÁGÚST 2007 37
hafði umbylt úr formföstu sam-
vinnuriti í ritvöll 68-kynslóðarinnar.
Það voru komnir nýir tímar og nú
sat Jón Ásgeir við fótskör Angelu
Davis og fleiri róttækra lærimeist-
ara. Það var því við hæfi að næst
hitti ég hann fyrir framan ameríska
sendiráðið, þar sem Jón Ásgeir
stjórnaði mótmælafundi með hróp-
um og köllum til þeirra amerísku.
Engan sá ég þó úti í glugga. Þegar
fjölskylda Jóns flutti svo síðar til
Bandaríkjanna, kom Jón Ásgeir með
alla SAM-vinnuna og taldi blöðin
best geymd hjá mér. Ég tók við
bunkanum með þökkum, enda ekki
haft rænu á að halda eftir einu ein-
asta blaði. Þegar ég fletti blöðunum,
kom í ljós að þau höfðu verið lesin
upp til agna með undirstrikunum og
athugasemdum.
Það var víða heitt í kolunum árið
1973. Allende skotinn í Chile og
Bandaríkjamenn að tapa í Víetnam.
Í Austur-Berlín var haldið heimsmót
æskunnar eins og það var kallað. Ég
var þar mættur í góðum hópi bar-
áttuglaðra Íslendinga, en Jón Ásgeir
þurfti aðeins að bregða sér yfir
landamærin frá Vestur-Berlínar,
þar sem hann var í námi. Þetta voru
magnaðir dagar, en í vestri gnæfði
múrinn – kaldur sem dauðs manns
gröf. Kannski var á þessum dögum
sáð einhverjum þeim frækornum,
sem leiddu til hruns múrsins 16 ár-
um síðar – innanfrá. Einn daginn
áttum við Jón Ásgeir að mæta á her-
sýningu hjá Varsjárbandalaginu sál-
uga. Við neituðum að fara við litla
hrifningu heimamanna.
Svo liðu 10 ár. Þá vorum við settir
í nefnd til að stofna húsnæðisfélagið
Búseta. Nú kom sér vel fjölmiðla-
reynsla Jóns Ásgeirs og það
streymdu frá honum blöðin, full af
baráttuanda og hugsjónaglóð. Okk-
ur tókst nánast það ómögulega – að
koma fótunum undir félagið og nú,
nærri aldarfjórðungi síðar, lifir fé-
lagið góðu lífi.
Þau 40 ár sem við Jón Ásgeir viss-
um hvor af öðrum og áttum samleið
á ólíklegustu stöðum, eru ótrúlegt
tímaskeið. Sá sem settist á þessum
tíma við menntabrunna austan hafs
og vestan og heillaðist síðan af heimi
fjölmiðlanna, hefur átt sér mörg
andartök, sem engri annarri kynslóð
hefur hlotnast. Jón Ásgeir var sá
gæfumaður að nema þessa strauma
og vera alla tíð liðsmaður góðra
markmiða og finna til með samferða-
fólki sínu. Árin hefðu svo sannarlega
mátt vera fleiri, en enginn ræður víst
sínum næturstað.
Takk fyrir margar góðar stundir.
Reynir Ingibjartsson.
Þegar fréttin um fráfall Jóns Ás-
geirs Sigurðssonar barst kom upp í
hugann staðurinn og stundin þegar
ég hitti hann fyrst. Það var haustið
2000 þegar MBA-námið í Háskóla
Íslands hóf göngu sína. Jón Ásgeir
var í fyrsta hópnum sem lagði stund
á námið. Hann var einn af frumherj-
unum sem vildu vinna með við-
skipta- og hagfræðideild Háskóla Ís-
lands að því að koma náminu af stað
og efla það til vegs og virðingar.
Hlutur Jóns Ásgeirs í störfum
fyrsta hópsins var stór. Auk þess að
stunda námið af miklu kappi og sam-
viskusemi var hann mjög virkur í öll-
um þeim þáttum sem MBA-nemar
komu að. Hann varð fljótlega tals-
maður hópsins bæði inn á við og út á
við. Þegar MBA-nemar fóru í fyr-
irtækjaheimsóknir fór Jón Ásgeir
ávallt fremstur þegar kom að því að
spyrja stjórnendur út í starfsemi
fyrirtækjanna. Í fari hans fór saman
gagnrýnin hugsun, hiklaust fas og
ljúfmannleg framkoma.
Við leiðarlok í lífi Jóns Ásgeirs
verður mér hugsað til hans með
þakklæti. Þátttaka hans í MBA-
náminu gerði mér auðveldara um vik
að sinna störfum forstöðumanns
MBA-námsins. Frumherjastarfið
var að hluta til barátta um tilvist
námsins og á fyrstu árunum voru
kröfurnar til námsins, kennara og
samnemenda settar. Jón Ásgeir var
baráttumaður og hann lagði sitt af
mörkum í uppbyggingu MBA-náms-
ins. Bestu þakkir fyrir það. Blessuð
sé minning Jóns Ásgeirs Sigurðs-
sonar.
Runólfur Smári Steinþórsson.
Jón Ásgeir er horfinn úr þessum
heimi eftir stutta en erfiða sjúk-
dómslegu. Mér þótti það við hæfi að
þessi tignarlegi maður skyldi fara
meðan hann var enn með fullri reisn.
Það minnti mig á ferðalok pabba sem
fór á besta aldri, rétt eins og Jón Ás-
geir.
Kynni okkar Jóns Ásgeirs hófust
fyrir hálfu öðru ári, skömmu eftir að
ég tók við starfi framkvæmdastjóra
Samfylkingarinnar. Hann kom að
hitta mig dag einn, og vildi ræða við
mig um komandi sveitarstjórnar-
kosningar. Ég kannaðist auðvitað við
Jón Ásgeir sem virtan fréttamann
hjá Ríkisútvarpinu og hafði alltaf
borið virðingu fyrir honum, sem
miklum fagmanni með hljómmikla
rödd og yfirbragð sem miðlaði um-
fram allt trausti og trúverðugleika.
Jón Ásgeir hafði á undanförnum
misserum kynnt sér kosningarann-
sóknir og sótt námskeið í kosninga-
ráðgjöf m.a. í Bandaríkjunum. Hann
hafði mikinn og einlægan áhuga á
stjórnmálum og fann sig vel í því um-
hverfi nýsköpunar og frjórrar um-
ræðu sem einkennir nýjan stjórn-
málaflokk sem er að móta sitt
verklag og hefðir. Það varð úr að Jón
Ásgeir var ráðinn sem kosningaráð-
gjafi flokksins í sveitarstjórnarkosn-
ingunum 2006. Verkefni Jóns Ás-
geirs var ekki síst að aðstoða
framboð Samfylkingarinnar út um
allt land við að skipuleggja kosninga-
baráttuna, setja sér markmið, vinna
aðgerðaáætlun og miðla góðum hug-
myndum milli framboða í einstökum
sveitarfélögum. Það er skemmst frá
því að segja að Jón Ásgeir vann sitt
starf af mikilli samviskusemi og
ávann sér traust flokksfélaga sem
mátu mikils þekkingu hans og þótti
gott að leita ráða hjá honum þegar
baráttan tók að harðna. Jón Ásgeir
var ábúðarmikill og rökfastur en
hann var líka léttur í skapi og
strákslegur þegar svo bar undir. Ég
tók sérstaklega eftir því að hann um-
gekkst stjórnmálin af ástríðu, það
var honum hjartans mál að leggja
sitt af mörkum í þágu jafnaðarstefn-
unnar á Íslandi.
Jón Ásgeir lagði sérstaka rækt við
rannsóknir á skoðanakönnunum og
var óþreytandi að benda á brotalam-
ir við framkvæmd þeirra, sem hann
miðlaði til sinna félaga en jafnframt
til þeirra sem báru ábyrgð á verkinu,
því honum var í mun að vinnubrögð í
stjórnmálaumhverfinu væru fagleg
og ábyrg.
Eftir góða reynslu af starfi Jóns
Ásgeirs í sveitarstjórnarkosningun-
um var einboðið að ráða hann til
starfa fyrir alþingiskosningarnar
síðastliðið vor. Jón Ásgeir sinnti því
starfi af kostgæfni en þegar dró
nærri kosningum fór hann að kenna
þess meins sem að lokum dró hann til
dauða. Mér fannst það dæmigert að
hann bar sína byrði hljóðlega, vildi
ekki íþyngja félögum sínum með
einkamálum í miðri kosningabaráttu
og bar höfuðið hátt allan tímann.
Jón Ásgeir var afbragðs félagi sem
skildi eftir sig mikið og gott starf og
umfram allt tilfinningu hjá okkur fé-
lögum hans um að þar var fágætur
sómamaður á ferð. Ég vil nota tæki-
færið og færa Margréti eiginkonu
hans og öðrum aðstandendum inni-
legustu samúðarkveðjur frá Sam-
fylkingunni með þökk fyrir ógleym-
anleg kynni.
Skúli Helgason,
framkvæmdastjóri
Samfylkingarinnar.
Það er ekki nema hálft ár síðan
Jón og Magga sátu heima hjá okkur í
gleðskap eins og oft áður. Andagift,
sögur og skoðanaskipti, allt eins og
við mörg álíka tækifæri á liðnum ár-
um, bæði úti í Bandaríkjunum á sín-
um tíma og svo heima á Íslandi. Jón
Ásgeir í fínu formi, nýkominn úr
smávægilegri aðgerð og með hugann
við aðra stærri, komandi kosningar
og ráðagerðir þeirra vegna. Svo hin
glaðlegu kveðjuorð til okkar sem
vorum á leið í langferð til Afríku.
Ólíkur var fundur okkar nafna um
daginn. Þá lá í loftinu að önnur og
lengri ferð kynni að vera í aðsigi fyrir
Jón Ásgeir. Okkur brá illilega í brún
við heimkomu í sumar að heyra um
skæð veikindi hans og að horfur
væru dökkar. Þó að þessi skuggi
vofði yfir og af Jóni væri dregið lét-
um við það ekki á okkur fá þegar við
hittumst nafnarnir: Ræddum sam-
eiginleg hugðarefni eins og svo oft
áður, stefnur og strauma í heims-
málum, samfélaginu og fjölmiðlum,
og mátti glöggt heyra að Jón Ásgeir
var enn vakinn og sofinn í hvers
kyns umbótum. Þannig var Jón Ás-
geir alla þá tíð sem ég þekkti hann.
Persónuleg kynni tókust fyrst þegar
við vorum samtíða í Bandaríkjunum,
báðir fréttaritarar og áhugamenn
um allt sem þar hrærðist. Ég hygg
að margir kunni frá að segja hve Jón
Ásgeir var leitandi og krefjandi um
þau verkefni sem hann fékkst við.
Hann kynnti hugmyndir um betri
vinnubrögð í blaðamennsku, var öt-
ull talsmaður gilda um almannaút-
varp og lagði gott til þeirra sem
stóðu í fremstu víglínu í samfélaginu
með heiðarlegum ráðleggingum.
Sjálfur var hann vandaður útvarps-
maður, kunni skil á faglegum vinnu-
brögðum eins og heyra mátti af þátt-
um hans á RÚV hin síðari ár, bæði
þegar hann færði okkur andblæ
heimsmálanna með því að kynna
leiðara stórblaða á Morgunvaktinni
eða í ítarlegum umræðuþáttum. En
mest um verð var vinátta hans.
Gleðifundir okkar hjóna urðu marg-
ir, heimsóknir og samneyti sem okk-
ur þótti mikilvægt að endurnýja
reglulega frá árunum í Bandaríkj-
unum. Sjálfur naut ég þess að eiga
hauk í horni þar sem Jón Ásgeir var,
hann var góður ráðgjafi og hjálpfús
hvenær sem á þurfti að halda. Maður
gat treyst á hann. Við Guðrún send-
um Möggu og fjölskyldunni allri
innilegar samúðarkveðjur.
Á síðasta fundi okkar Jóns Ás-
geirs ræddum við lítt það sem kynni
að vera framundan og nú hefur kom-
ið á daginn. Ég geymi þó í hjarta
mér síðasta heilræðið frá Jóni Ás-
geiri þegar ég minntist á hve skjót
væru veðrabrigðin í henni veröld:
Lifðu lífinu lifandi – hverja einustu
sekúndu. Og með það kvöddumst
við.
Stefán Jón.
Hjartfólginn vinur hefur kvatt
alltof fljótt. Það eru brátt liðin 40 ár
síðan leiðir okkar frændanna lágu
saman. Hann var þá nýkominn frá
námi á vesturströnd Bandaríkjanna
og það leyndi sér ekki. Þaðan komu
nýju straumarnir og Jón Ásgeir bar
þá með sér. Það er stundum talað
um ’68 kynslóðina, en hér á landi
væri nær að tala um ’69 eða ’70 kyn-
slóðina. Ef NATO-herrum hefði ekki
hugkvæmst að hertaka Háskóla Ís-
lands vorið ’68 og ef lögreglustjórar
NATO-landanna ekki sammælst um
að taka hart á mótmælum, þar á
meðal að berja á fólki fyrir að ætla
sér þá ósvinnu að mótmæla Víet-
namstríðinu við bandaríska sendi-
ráðið, þá hefði ekki verið mikils að
minnast frá því árinu.
Jón flutti með sér ferskan blæ
þegar hann sneri heim í byrjun átt-
unda áratugarins. Hann tókst meðal
annars á hendur formennsku í
SÍNE, sambandi íslenskra náms-
manna erlendis, fljótlega eftir heim-
komuna, en í þeim samtökum höfðu
róttækir gjarnan sterka stöðu og
þaðan kom frumkvæði og samvinna
við okkur sem vorum heima fyrir.
Stóru málin á þessum árum voru,
auk lýðræðis- og hagsmunabaráttu
stúdenta, samstaða gegn Víetnam-
stríði Bandaríkjahers og þar með
fylgdi gjarnan andstaða við veru
sama hers hér á landi.
Jón Ásgeir lagði hönd á plóg við að
endurvekja samtök hernámsand-
stæðinga undir nýju nafni og með
nýjum áherslum sem fengu heitið
Samtök herstöðvaandstæðinga.
Þetta var vorið 1972 og um haustið
unnum við saman í að stofna Víet-
namnefndina á Íslandi. Næsta verk-
efni hjá okkur var að skipuleggja
samvinnu á vettvangi Æskulýðssam-
bands Íslands, meirhlutasamstarf
sem markaði sambandinu það höf-
uðverkefni íslenskrar æsku að snú-
ast gegn erlendri hersetu, aðild að
hernaðarbandalagi og styðja þjóð-
frelsisbaráttuna í Víetnam og and-
heimsvaldasinnaða baráttu um heim
allan, ef því var að skipta. Þetta fór
ekki jafnvel í alla, en þarna náðu
saman jafnt Stúdentaráð og SÍNE
sem og Ungmennafélag Íslands und-
ir forystu Sigurðar heitins Geirdal
og nokkurn veginn allt pólitíska lit-
rófið, ef sá heiðblái er undanskilinn.
Það var frábært á þessum árum
að eiga slíkan félaga sem Jón Ásgeir
var. Í honum sameinaðist síkvikur
andi og þvílík ró að mér fannst
stundum hann vart setjast niður án
þess að honum rynni í brjóst. Hann
var á sama tíma síhlæjandi og djúp-
hugsandi um rök tilverunnar. Fáir
voru jafn skipulegir í hugsun og
vinnubrögðum og ég nýt enn góðs af
röð og reglu í skjalaskúffunum mín-
um sem merktar eru hans hendi, en
Jón minn átti það til að koma og
bjarga mér upp úr pappírshaugun-
um.
Það er mikil eftirsjá þegar þvílík-
ur drengur hverfur af vettvangi fyrir
aldur fram. Hann skilaði ótrúlega
miklu ævistarfi í sínu fagi og fé-
lagsmálum, en samt er hans mest
saknað fyrir hlýju hans, tryggð og
traust.
Við Björk sendum Margréti,
börnum hans og öðrum vandamönn-
um innilegar samúðarkveðjur frá
Nuuk.
Sveinn Rúnar.
Með Jóni Ásgeiri Sigurðssyni er
fallinn, langt fyrir aldur fram, einn
af okkar bestu blaðamönnum. Það
orð nota ég hér í sömu merkingu og
orðið journalist er haft á mörgum
öðrum tungumálum og látið ná yfir
störf skrifandi og talandi blaða-
manna, óháð tegund miðils.
Jón Ásgeir var hafsjór af fróðleik,
meðal annars í alþjóðamálum, enda
sinnti hann um ævina mikið fréttum
af erlendum stjórnmálum og var
jafnvígur á ensku og þýsku enda
dvaldi hann við nám og störf beggja
vegna Atlantsála. En aldrei var hann
áberandi, ætíð hógvær og ljúfur í
framgöngu, röddin rólyndisleg og
yfirveguð en stutt í gutlandi kímni
og skemmtilegheit. Ég þekkti hann
lítið þar til ég var gerður að for-
manni menntanefndar Blaðamanna-
félags Íslands um 1980, líklega
vegna þess að þá var ég nýkominn úr
námi við Blaðamannaskólann í Ósló
og brennandi í andanum. Jón var
einnig skipaður í þá nefnd og nú er
mér óskiljanlegt hvers vegna ég var
formaður því það var hann sem
skrifað í rauða vasakompu allar
ákvarðanir sem voru teknar á nefnd-
arfundum og hringdi síðan í for-
manninn til þess að minna hann á og
mig minnir að viðbrögð hans hafi æði
oft verið eitthvað á þessa leið: „Æ,
já, alveg rétt.“ Ég man að við stóðum
fyrir fáeinum námskeiðum, tengdum
blaðamennsku og íslensku máli, og
ræddum fjálglega um að koma á al-
mennu námi í fjölmiðlun í tengslum
við Iðnskólann, sem komst jafnvel á
umræðustig við skólastjórann þar.
Því miður varð ekki af því en Jón
hélt sjálfur mörg námskeið í blaða-
mennsku þar sem rauði þráðurinn
var skýr hugsun og klár framsetn-
ing, í anda bandarískrar blaða-
mennsku þriðja og fjórða áratugar-
ins. Það var og alla tíð einkenni Jóns
Ásgeir sem blaðamanns.
Fáeinum árum síðar varð hann
fréttaritari Ríkisútvarpsins í Banda-
ríkjunum þegar Margrét Oddsdótt-
ir, eiginkona hans, hóf þar fram-
haldsnám í læknisfræði. Um sömu
mundir hóf ég störf á Fréttastofu
Ríkisútvarpsins og fékk árið 1988
þriggja mánaða endurmenntunaror-
lof. Ég dvaldist um mánaðartíma
vestanhafs þar sem ég kynnti mér
útvarpsmennsku, og naut gestrisni
þeirra hjóna í New Haven í vikutíma
eða svo. Fyrir það er ég þeim eilíf-
lega þakklátur.
Því miður tognaði á kunnings-
skapnum hin seinni ár enda höfðu
þau Jón og Magga nóg um að hugsa
eftir að þau settust að í Fossvogin-
um. Samt gerðu þau ekki endasleppt
við mig skömmu eftir að þau fluttu
heim og buðu mér í mat. Ég var þá
einn heima ásamt 13 ára dóttur
minni, Sigrúnu Völu, og hafði hana
með mér í matarboðið. Hún Vala mín
hafði þá hafið söngnám og það er
ekki að orðlengja að þegar það vitn-
aðist við matarborðið sté sú stutta út
á gólf og söng acapella uppáhalds-
ljóð sitt, Þú vorgyðjan svífur, við
góðar undirtektir matargesta. Ég
nefni þetta vegna þess að þetta atvik
og matarboðið er einkar kær minn-
ing okkar feðgina og líður okkur víst
aldrei úr minni.
Ég er þakklátur fyrir að hafa
þekkt Jón Ásgeir og Margréti, og
sendi henni og börnunum mínar inni-
legustu samúðarkveðjur.
Þorgrímur Gestsson.
Kveðja frá
ritstjórn Vikunnar
Ritstjórn Vikunnar árin 1980 til
1985 var einstaklega samheldinn og
samtaka hópur. Jón Ásgeir átti sinn
drjúga þátt í því, með sitt góðlátlega
og prakkaralega bros, snögga, kank-
vísa hlátur og góðu ráð nánast hvað
sem var til umræðu. Hann var alltaf
að læra og miðla um leið, setti sér og
okkur það mark að gera örlítið betur
í dag en í gær.
Á Vikuárunum gat Jón skrifað um
það sem hann vildi, enda var Vikan
þá ásamt Nýju lífi eitt fárra blaða á
markaðnum fyrir utan dagblöðin.
Kannski var Vikan þá allt í senn:
Mannlíf, Ísafold, helgarútgáfa dag-
blaða og gamla góða Vikan. Jón
skrifaði snemma (1983) um tölvu-
væðingu, sem þá var varla orðin al-
menn. Hann reyndist forspár í apr-
ílgabbi um gervihnattadiska á
svölum venjulegra íbúðarhúsa. Þeg-
ar hann skrifaði um golf og skíða-
íþróttina þóttumst við greina áhrif
Margrétar, sem þá var ungur lækna-
nemi frá Ísafirði og nýja ástin í lífi
Jóns. Hann var á heimavelli hvort
sem um var að ræða léttmeti eða
þyngri þjóðfélagsumræðu.
Árið 1985 urðu þáttaskil á Vikunni.
Flestir þeirra sem höfðu skipað
þennan góða hóp hurfu til annarra
verka, samt hélt gamla ritstjórnin
áfram að hittast, spjalla og hlæja
saman. Fljótlega hurfu Jón og
Magga vestur um haf þar sem hún
fór í framhaldsnám í læknisfræði en
Jón varð fréttamaður RÚV. Á þeim
árum fylgdumst við með honum á
öldum ljósvakans. Sum okkar áttu
þess kost að heimsækja Jón og fjöl-
skyldu hans vestra og njóta afbragðs
gestrisni þeirra, en við hin urðum að
láta okkur nægja heimsóknir Jóns til
Íslands – og þá var haldið Vikupartý.
Þar sem við nú sitjum saman og
reynum að skrifa minningarorð um
Jón Ásgeir vantar okkur hann sár-
lega, með húmorinn og góðu ráðin
sem yfirleitt dugðu til að leysa málin
þegar eitthvert okkar þjáðist af rit-
stíflu. Við erum að rifja upp liðna
daga og þrátt fyrir dapurlegt tilefni
er létt yfir hópnum og mikið hlegið,
rétt eins og Jón sitji hér á stólbrík-
inni hjá okkur og segi: Svona, krakk-
ar, viljið þið ekki að einhver nenni að
lesa þetta? Þetta verður að vera
stutt, létt – og ekki nota of löng orð.
Jón Ásgeir hafði ríka réttlætis-
kennd, skarpa félagslega hugsun og
vildi endalaust bæta samfélagið.
Hann átti mörg líf en samt var hann
alltaf ungur. Einu okkar verður það
að orði þegar þetta er rifjað upp að
hann hafi verið kapítalískasti kommi
sem um getur. Hann var einn þeirra
fáu manna sem gátu sameinað það að
vera þægilegur í viðmóti og samt
aldrei að reyna að þóknast öðrum.
Það hefði alls ekki verið í anda þess
fjölþætta persónuleika sem Jón hafði
að geyma.
Efst í huga okkar er samúð með
Margréti og börnum Jóns og þakk-
læti fyrir að hafa fengið að vera sam-
ferða mætum manni.
Anna Björnsson,
Borghildur Anna,
Guðrún Birgis,
Ragnar Th.,
Sigurður Hreiðar,
Þorbergur og Þórey.
Kveðja frá
vinnufélögum á Rás 1
Vinnufélagi okkar Jón Ásgeir er
fallinn. Við söknum hans sárt því
hann var meira en góður samstarfs-
maður, hann var sannur vinnufélagi
og vinur. Jón Ásgeir hóf störf við
dagskrárgerð á Rás 1 fyrir meira en
áratug og áttaði sig fljótt á því að á
þessum vinnustað væri þörf á sterk-
um félagsanda. Hann vissi að gott er
SJÁ SÍÐU 38