Morgunblaðið - 11.10.2007, Side 18
18 FIMMTUDAGUR 11. OKTÓBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
Þ
að eru orðin 33 ár síðan að Sturla
Böðvarsson og kona hans Hall-
gerður Gunnarsdóttir fluttu til
Stykkishólms. Hann var þá að
taka við starfi sveitarstjóra ungur
að árum. Starfinu gegndi hann næstu 17 árin á
miklum uppgangstíma í Stykkishólmi. Árið
1991 var hann svo kjörinn þingmaður Vest-
urlandskjördæmis og er sá tími að verða jafn
langur starfstíma hans sem bæjarstjóri.
Hann og fjölskylda hans hafa búið í Stykk-
ishólmi þennan tíma, en vegna þingstarfa hef-
ur fjölskyldan átt sér annað heimili í Reykja-
vík, en eyða eins miklum tíma í Hólminum og
þau geta.
Sturla og Hallgerður eiga 5 börn og fjöl-
skyldan er alltaf að stækka með tilkomu
tengdabarna og barnabarna.
Þegar ný ríkisstjórn var skipuð eftir alþing-
iskosningarnar í vor var Sturla Böðvarsson
kjörinn forseti Alþingis. Það kom því í hans
hlut að stýra Alþingi Íslendinga mánudaginn
1. október.
Helgina á undan dvaldi hann með fjölskyldu
sinni heima í Stykkishólmi. Fréttaritari Morg-
unblaðsins heilsaði upp á húsbóndann. Sturla
gaf sér tíma til að spjalla um starf sitt sem for-
seti Alþingis og eins árin í samgöngu-
ráðuneytinu.
Skylda forseta að skapa sátt
– Þú ert farinn að kynnast nýja starfinu?
„Já, það má segja að ég komi vel undirbúinn
í þetta starf eftir fjögur kjörtímabili á þingi.
Ég var varaforseti Alþingis í 8 ár og þekki því
vel til á þessum vettvangi. Starfið leggst mjög
vel í mig. Staða forseta Alþingis er virðingar-
og áhrifastaða, vilji forseti beita sér. Það er
skylda forseta að tryggja sem best vinnubrögð
Alþingis, vera forseti jafnt stjórnarandstöðu
sem stjórnarliða og skapa sátt. Þingmenn hafa
auðvitað allir það markmið að setja lög í þágu
þjóðar og tryggja framfarir í landinu og hag
þeirra sem höllum fæti standa.“
– Hefur þú hugsað þér breytingar á störfum
Alþingis?
„Já, það er nú þegar breytinga að vænta á
stöfum Alþingis. Ég hef í sumar unnið að
skipulagsbreytingum á stöfum þingsins.
Markmiðið með þeim er að gera þau markviss-
ari og lagasetningu traustari, jafnframt því að
auðvelda störf þingmanna á vettvangi þing-
nefnda og á vettvangi kjördæmanna. Ég vinn
að þessu í góðu samstarfi við forsætisnefnd
þingsins og formenn þingflokkanna. Ég vænti
þess að niðurstaða fáist í haust svo að strax á
þessu kjörtímabili sjáist breytingar. Þú sást að
þingsetning var ekki á allan hátt hefðbundin.
Mökum þingmanna var boðið til þingsetningar
og íslensk tónlist var leikin. Ég vildi vísa til
þess að tónlistin snertir streng í hjörtum okk-
ar og sameinar okkur og setur hátíðlegan blæ
á allar samkomur.“
– Samkvæmt skoðanakönnunum sem gerðar
hafa verið hefur almenningur ekki mikla tiltrú
á störfum alþingismanna. Þar kemur fram að
aðeins þriðjungur fólks treystir Alþingi?
„Já, ég kannast við það og tek þessar ábend-
ingar alvarlega. Það er mikilvægt verkefni að
bæta ímynd Alþingis. Við verðum að færa
vinnubrögðin í þinginu að því sem gerist best
meðal þjóðþinga. En það er algjörlega á valdi
þingmanna hvernig ímynd Alþingis er í huga
þjóðarinnar. Þeir þurfa að vanda sín vinnu-
brögð og málflutning, en til þess þarf að skapa
þeim sem best vinnuskilyrði. Það er fylgst með
störfum okkar, sem veitir okkur aðhald og við
verðum að standa undir þeim kröfum sem
gerðar eru til okkar þingmanna.“
– Margir af þínum fyrirrennurum hafa end-
að sinn pólitíska feril sem forsetar alþingis.
Verður það eins með þig?
„Í stöðu forseta eru að jafnaði menn með
mikla þingreynslu. Starf forseta Alþingis er
ekki og á ekki að vera starf fyrir þá sem ætla
að setjast í helgan stein. Ég var kjörinn til
þingsetu og hef engin önnur áform en að sinna
því kalli minna fjölmörgu stuðningsmanna í
kjördæminu.“
Umskipti í samgöngum á átta árum
– Þú varst samgönguráðherra í 8 ár. Hvern-
ig var sá tími?
„Ég var mjög sáttur þegar mér var falið
ráðuneyti samgöngumála. Ég naut þess mjög
að sinna því starfi og geta haft áhrif á svo
mörgum sviðum í því ráðuneyti. Fram-
kvæmdir á sviði samgöngumála eru bæði að-
kallandi og taldar sjálfsagðar. Okkur hefur allt
til þessa skort fjármuni til þess að hrinda í
framkvæmd mörgum mikilvægum verkefnum.
Á þessu átta ára tímabili hafa orðið mikil um-
skipti í samgöngumálum og ör þróun sem nær
auðvitað lengra aftur til þess tíma er Halldór
Blöndal og Steingrímur J. Sigfússon voru sam-
gönguráðherrar og mörkuðu sín spor.“
– Hver eru helstu málin sem þú beittir þér
fyrir í ráðuneytinu?
„Ég lagði áherslu á að gera áætlanir til
langs tíma á öllum sviðum samgöngumála. Ég
nefni fyrst öryggismálin í umferðinni á landi
og á sjó og í lofti. Á þessum þremur sviðum
lagði ég sérstaka rækt við að breyta löggjöf-
inni og tryggja með því að framkvæmdir sam-
kvæmt samgönguáætlun tækju sérstaklega til-
lit til öryggismála. Þarna hefur náðst
mikilvægur árangur þó betur megi gera.
Einhver ánægjulegasta viðurkenning sem
ég hlaut á ferlinum sem samgönguráðherra
var í sumar þegar áhugahópur um tvöföldun
Reykjanesbrautar heiðraði mig sérstaklega
fyrir aðgerðir í umferðaröryggismálum.
Með nýrri fjarskiptalöggjöf og gerð fjar-
skiptaáætlunar var lagður grunnur að því sem
við höfum nefnt „Altengt Ísland“. Með þeirri
stefnumörkun og með fjármunum frá sölu
Símans var lagður grunnur að uppbyggingu
GSM-símakerfisins á þjóðvegum landsins,
uppbyggingu háhraðatengdra fjarskipta í
dreifbýli og sjónvarpssendinga til sjófarenda
um gervihnött. Lagning nýs sæstrengs, Far-
ice, var einnig mikilvægt verkefni, sem tryggir
sambönd okkar við umheiminn.
Þá vil ég nefna ferðamálaáætlunina og sér-
stakar landkynningar- og markaðsaðgerðir í
þágu ferðaþjónustunnar. Árangur af þessu
starfi hefur skilað sér ríkulega. Síðast en ekki
síst fékk ég samþykkta nýja löggjöf um sam-
gönguáætlun sem byggist á því að tengja sam-
an framkvæmdir í vega-, hafna og flugvalla-
málum. Í þeirri áætlun er lögð áhersla á að
samþætta allt samgöngukerfið. Að því er unn-
ið nú.
Af einstökum verkefnum á þessu sviði er af
mörgu að taka. Það má segja að samgöngu-
bætur hafi mikil áhrif í hverju einasta kjör-
dæmi. Þar má nefna tvöföldun Reykjanes-
brautar, mislæg gatnamót í höfuðborginni, brú
á Þjórsá, jarðgöngin í Almannaskarði, Fá-
skrúðsfjarðargöng, Héðinsfjarðargöng, veg
um Þverárfjall, Djúp og Arnkötludal, end-
urbyggingu Reykjavíkurflugvallar og Þing-
eyrarflugvallar, stofnun Flugstoða ohf., ferju-
höfn á Seyðisfirði og ákvörðun um
Bakkafjöruhöfn.
Trúlega hefur hins vegar óvíða orðið eins af-
gerandi breyting vegna bættra samgangna og
á Snæfellsnesi með Vatnaleiðinni og tengingu
þéttbýlisstaðanna á norðanverðu nesinu. Það
mun koma enn betur í ljós er fram líða stundir.
Bættar samgöngur voru forsenda fyrir stofn-
un Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði.
Þá vil ég líka nefna tvöföldun Reykjanes-
brautar, jarðgöngin í Almannaskarði, Fá-
skrúðsfjarðargöng, Héðinsfjarðargöng, end-
urbyggingu Reykjavíkurflugvallar, stofnun
Flugstoða ohf. og ákvörðun um Bakkafjöru-
höfn.
Ég læt hér staðar numið í upptalningu
minni, en af nógu er að taka. Ég bendi á bækl-
inginn „Samgöngur í þágu þjóðar“ sem kom út
í vor. Þar er samantekt á því sem unnið hefur
verið að síðustu árin í samgönguráðuneytinu,
undir minni stjórn,“ segir Sturla og bætir við:
„Eftir mitt góða samstarfsfólk liggur mikið
starf í ráðuneytinu, sem gagnast mun eft-
irmanni mínum og ég vona að hann nýti sér þá
umfangsmiklu stefnumörkum er ég stóð fyr-
ir.“
Andstæðingar flugvallarins
beittu sér af ótrúlegri hörku
– Hver voru erfiðustu málin sem þú fékkst
við?
„Það er nú það. Ætli það sé ekki sala Símans
og deilurnar um Reykjavíkurflugvöll. Það var
eitt af allra erfiðustu pólitísku viðfangsefnum
mínum að þurfa að standa í deilum við for-
svarsmenn Reykjavíkurborgar um end-
urbætur flugvallarins og byggingu samgöngu-
miðstöðvar. Andstæðingar flugvallarins beittu
sér af ótrúlegri hörku gegn mér persónulega.
Þeir komu víða við og sú andstaða var ótrúlega
óvægin og var augljóslega stýrt úr mjög sér-
stökum herbúðum.“
– Þú varst bæjarstjóri í Stykkishólmi í 17 ár.
Eru ekki bjartar minningar frá þeim tíma?
„Jú, það var góður og gjöfull tími að vera
bæjarstjóri og bæjarfulltrúi í Hólminum í 20
ár. Mér leið afskaplega vel sem bæjarstjóri á
þessum uppbyggingarárum. Á þessu tímabili
náði hópur pólitískra samherja að vinna vel
saman og sameina bæjarbúa til góðra verka.
Það kom aldrei brestur í samstarf meirihluta
bæjarstjórnar öll þessi ár og það auðveldaði
starf bæjarstjóra að hafa svona öflugt lið til að
vinna með.“
– Hvað varð til þess að þú fórst í þing-
mennsku?
„Það hafði sinn aðdraganda. Það var ýtt á
mig að fara í prófkjör 1983 að ég held til þess
að yngja upp listann og nýta það pólitíska afl
sem ég tengdist á Snæfellsnesi og kannski líka
vegna starfa minna sem bæjarstjóri.“
– Eitt af einkennum þínum er að þú tekur
störf þín alvarlega og vilt sjá árangur?
„Já, það kann að vera rétt. Ég hef alltaf haft
mikinn áhuga á þeim störfum, sem ég sinni á
hverjum tíma, og vil sjá árangur eins og þú
segir. Þeir, sem eru í stjórnmálum, verða að
vera vinnusamir og gefa sér þann tíma, sem
þarf, og þess vegna hafa áhugamálin oft orðið
að gjalda þess.“
– Hvernig verðu þeim frístundum sem þér
gefast?
„Í Stykkishólmi að sjálfsögðu. Þangað för-
um við fjölskyldan eins oft og við höfum tæki-
færi til. Þar er oft lesið og legið í leti. Þangað
er gott að koma til að hvíla sig og safna þreki
fyrir krefjandi störf. Það tekur hinsvegar tíma
að búa á tveimur stöðum.
Hestamennska og útreiðar er það sem ég
hef mest gaman af. Útivera sem tengist hesta-
mennskunni er ómetanleg. Þá höfum við hjón-
in í ríkari mæli stundað gönguferðir saman og
ég nýt þess. Í því er mikil hvíld og lífsfylling.“
– Þá er komið að lokaorðunum í þessu
spjalli.
„Er ég lít til baka þá er ég þakklátur fyrir
þau tækifæri sem ég hef fengið til að koma
mörgum mínum áhugamálum áfram. Þar hef-
ur skipt máli að fjölskylda mín hefur tekið þátt
í störfum mínum og hefur staðið með mér sem
klettur í öllu atinu sem fylgir starfi stjórn-
málamanns. Þá hef ég átt því láni að fagna að
eiga öfluga sveit stuðningsmanna sem hefur
staðið á bak við mig alla tíð. Með hjálp þeirra
hef ég alltaf náð markmiðum mínum í próf-
kjörum og Sjálfstæðisflokkurinn í kjördæminu
hefur náð mjög góðum árangri þann tíma sem
ég hef leitt listann. Ég er þakklátur fyrir að
hafa notið svona öflugs stuðnings.“
Sturla Böðvarsson situr nú í stóli forseta Alþingis og kveðst koma vel undirbúinn í starfið eftir fjögur kjörtímabil á þingi. Hann
segist hafa notið þess að sinna starfi samgönguráðherra. Gunnlaugur Árnason ræddi við hann í Stykkishólmi.
Ímynd Alþingis er á valdi þingmanna
Morgunblaðið/Gunnlaugur Árnason
Gömul hús Sturla hefur mikinn áhuga á húsafriðun. Í Stykkishólmi mótaði hann stefnu um upp-
byggingu og friðun gamalla húsa, sem vekur nú aðdáun ferðamanna sem til bæjarins koma.
Í faðmi fjölskyldunnar Sturla Böðvarsson og Hallgerður Gunnarsdóttir eiga stóra og sam-
henta fjölskyldu. Myndin af fjölskyldunni var tekin þegar Sturla hélt upp á 60 ára afmæli sitt.
ȃg hef alltaf haft mikinn
áhuga á þeim störfum, sem
ég sinni á hverjum tíma, og vil
sjá árangur eins og þú segir.
Þeir, sem eru í stjórnmálum,
verða að vera vinnusamir og
gefa sér þann tíma, sem þarf,
og þess vegna hafa áhugamálin
oft orðið að gjalda þess.
garnason@simnet.is