Morgunblaðið - 26.01.2008, Page 41

Morgunblaðið - 26.01.2008, Page 41
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 26. JANÚAR 2008 41 Þessi litla minning- argrein um ömmu mína mun ekki fjalla um hversu góð amma hún Helga var og ekki ætla ég að segja frá erfiðleikum hennar sem hún stríddi oft við þó ég gæti auð- veldlega sagt frá hvorutveggja án vandræða. Nei, ég ætla að segja frá því sem amma mín var hvað þekktust fyrir, húmor. Frá því ég man eftir mér hefur amma verið helsti húmoristinn í fjölskyldunni þó að um auðugan gras væriað gresja á þeim bænum. Hún var ekki aðeins góð í að segja gam- ansögur, oft á dönsku, heldur kom hún einnig með mjög fyndin tilsvör í daglegu tali og ekki minnkaði það með aldrinum, þvert á móti. Ég minnist til dæmis þess er elsti bróðir minn, Styrmir Freyr kom til Íslands eftir árs dvöl í Rússlandi en þá var ég einmitt í heimsókn hjá ömmu í Mjóstrætinu. Styrmir kíkti í heimsókn og ég tek á móti honum með handabandi, rétt eins og við værum kunningjar en ekki bræður og þetta þótti ömmu ekki sniðugt og spyr Styrmi hvort hann vilji nú ekki kyssa bróður sinn. Styrmir segir þá í gríni að hann sé nú ekki hommi en þá heyrist í gömlu konunni „þú kyssir þó ömmu þína, ekki er ég lesbía!“ og uppskar mikinn hlátur og hlæjum við enn í dag að þessu svari. Þó svo að amma hafi verið komin á sjúkrahús í nóvember, nokkuð illa haldin af beinbroti og lungnabólgu, hélt hún ennþá í húmorinn. Ég og Svetlana mín kíktum ásamt pabba í heimsókn til hennar en það var aðeins einn stóll í herberginu hennar en hún bauð okkur að setj- ast. Pabbi og Svetlana afþökkuðu pent en ég þáði það með þökkum. Þegar ég hafði sest lítur amma til Svetlönu og hvíslar til hennar „nú, svona er hann þá eftir allt saman!“ og vildi meina að ég mætti vera meiri herramaður en ég var. Stuttu síðar stend ég svo upp til að draga fyrir gluggann því sólin skein í andlit ömmu og þá segir hún við Svetlönu „svona, gríptu tækifærið, taktu sætið!“. Ef það er eitthvað sem ég hef lært af ömmu þá er það að halda alltaf í húmorinn og góða skapið, sama hvað gengur á. Auðvitað er miklu meira að minnast af þeim 27 árum sem ég þekkti ömmu en hér er tíundað enda um stutta minn- ingargrein að ræða en ekki bók sem þó væri auðvelt að útfylla. Ég mun sakna ömmu minnar til dauðadags, ég mun sakna rúss- nesku pönnukökunnar hennar, kjötsúpunnar, dönskuslettnanna og frasanna. Einnig mun ég sakna lyktarinnar, góðmennskunnar og hressleikans sem einkenndi ömmu en nóg um það, sofðu vært amma mín. Ég enda greinina með ljóði, Siesta, eftir mann sem amma þekkti ágætlega og lýsti sem duló manni, Stein Steinarr. Í dagsins önnum dreymdi mig þinn djúpa frið, og svo varð nótt. Ég sagði í hljóði: Sofðu rótt, þeim svefni enginn rænir þig. En samt var nafn þitt nálægt mér og nóttin full af söngvaklið svo oft, og þetta auða svið bar ætíð svip af þér. Og þungur gnýr sem hrynji höf mitt hjarta lýstur enn eitt sinn: Mín hljóða sorg og hlátur þinn, sem hlutu sömu gröf. Björgvin Gunnarsson. Helga Gunnarsdóttir ✝ Helga Gunnars-dóttir fæddist í Reykjavík 28. des- ember 1920. Hún lést á líknardeild Landakotsspítala 15. janúar síðastlið- inn og var jarð- sungin frá Dóm- kirkjunni í Reykja- vík 22. janúar. Elsku amma. Núna ertu farin. Ég hefði viljað hafa þig miklu lengur hérna hjá okkur. Þetta hljómar nú kannski eins og eig- ingirni en mér finnst svo ótrúlegt að þú skulir vera farin. Þú, svona góð, besta amma í heimi. En svona er nú lífið bara, og það hefur sinn vanagang. Menn koma og fara. Mig langar að rifja nokkrar góðar og skemmtilegar minningar hér upp, elsku amma mín, en aðrar geymi ég í hjarta mínu alla mína ævi. Betri og umhyggjusamari ömmu var ekki hægt að hugsa sér. Þú varst alltaf svo góð við alla þá sem stóðu þér næst, og ekki bara þá, heldur alla í kringum þig. Það var alltaf svo gott og hlýlegt að koma til þín í Mjóstrætið, maður labbaði alltaf rúllandi út frá þér þar sem það var alltaf nóg á boðstólum og ef maður fékk sér ekki nóg að borða þá sást þú svo sannarlega um að maður færi ekki svangur út. Ég man að ég hlakkaði alltaf svo til að koma í heimsókn til þín með pabba og strákunum í sumarfríum. Þú varst ávallt komin í dyragætt- ina til að taka á móti okkur með tilheyrandi brosi og hlýju. Svo að ég tali nú ekki um það besta sem þú gerðir handa okkur þegar við komum, „Russian“. Ég man eitt skiptið þegar við vorum rétt komin inn í forstofuna til þín og þú sagð- ir: „Hvað viljið þið margar hæðir af Russian?“ og ég sagði „níu!“. Þú varst ekki lengi að hafa það til. Það hefði verið gaman að fá upp- skriftina hjá þér en ég sem kannski við þig að koma við hjá mér í draumi og segja mér hana. Við Árni vorum að rifja upp um daginn að alltaf þegar við höfðum kíkt í heimsókn, í kaffi og kökur, og vorum á leið út úr dyrunum, þá stóðstu í dyragættinni þar til við hurfum úr sýn. Það þótti okkur svo vænt um. Eftir að þú fluttir á Fell, reynd- um við Árni að kíkja eins oft og við gátum í heimsókn til þín. Þau skipti hefðu auðvitað orðið fleiri ef við hefðum ekki búið á Akureyri. Þegar við komum til þín með app- elsín og namm var heldur betur glatt á hjalla, en appelsín var það besta sem þú fékkst. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið að þekkja þig í heil 25 ár, því hefði ég ekki viljað missa af. En núna ertu komin til Finns afa, sem ég fékk því miður ekki að kynnast, og allra systkina þinna. Elsku amma, sofðu rótt. Ég kveð þig á þann hátt sem þú kvaddir alltaf, með fingurkossi. Kolbrún. Elsku amma mín. Mikið er ég búin að kvíða því að þurfa að kveðja þig. Ótal minn- ingar koma upp í huga mér á þess- ari stundu; þú að raula lagstúf við uppvaskið, með þinni gullfallegu söngrödd, sem aldrei mátti hæla sökum hógværðar þinnar. Skemmtilegi húmorinn þinn og all- ar sletturnar sem urðu þess valdandi að ókunnugir héldu gjarn- an að þú hefðir lengi verið búsett erlendis. Hvað þú varst ljóðelsk og kenndir mér mörg kvæði sem ég mun svo sannarlega kenna mínum afkomendum. Allir bíltúrarnir okk- ar undanfarin sumur, að Álafossi og víðar, sem þú naust svo vel. Hve vænt þér þótti um afa heitinn – og hafðir alltaf blóm í vasanum hjá myndinni af honum. Ég man að stundum tíndi ég blóm handa þér í Grjótaþorpinu, sem fóru gjarnan í vasann hans afa. Mér eru sérlega dýrmætar allar helgarnar sem við áttum saman í Mjóstrætinu þegar ég var barn. Á meðan jafnöldrur mínar gistu hjá vinkonum sínum um helgar var aðalsportið hjá mér að gista hjá þér. Það var svo notalegt, þú varst alltaf svo hlý og góð og hugsaðir vel um mig. Mér fannst afar hlý- legt að sofa með þér í risastóra rúminu þínu, í náttkjólnum sem þú gafst mér og ég notaði alltaf hjá þér. Á morgnana fékk ég svo æv- inlega ristað brauð með Búra osti og Nesquik meðan ég horfði á barnaefnið. Síðan fórum við gjarn- an langmæðgurnar – eins og þú kallaðir okkur, í Kolaportið eða í göngutúr um Vesturbæinn að skoða gömlu fallegu húsin. Svo komum við heim og þú bakaðir kannski „Russian“. Þetta voru ómetanlegar stundir, elsku amma mín. Það er skrítið að hugsa til þess að fyrir aðeins örfáum dögum varst þú horfandi á gömlu Holly- wood-kvikmyndirnar þínar og maulandi frostpinnana sem þér fundust svo góðir – „prímavara“, eins og þú sagðir. Ég man hvað lifnaði yfir þér og þú brostir sætt þegar ég sýndi þér myndir af Clark Gable á netinu í setustofunni á Landakoti. Þú varst alveg einstök, amma mín, svo blíð, góð og skemmtileg. Öllum sem kynntust þér líkaði samstundis vel við þig. Vinkonur mínar dáðu þig og fannst ég öf- undsverð að eiga þig fyrir ömmu. Elsku gullið mitt, söknuðurinn eftir þig er sannarlega sár. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið að eyða jólunum, afmælinu okkar og síðustu jarðvistardögum þínum með þér. Eins er ég þakklát fyrir að þú skyldir ná að sjá mig útskrif- ast í vor – og ég veit líka að það var stór dagur í þínu lífi, þar sem þú varst alltaf svo stolt af mér, sama hversu stór eða lítil afrek mín voru. Skilaðu kveðju til afa og allra sem ég þekki þarna uppi, ástin mín. Teddi biður fyrir ástar- og saknaðarkveðjur til þín. Ég skal kyssa hann á nebbann frá þér. Svo hittumst við aftur seinna, amma mín – og þú tekur á móti mér brosandi með hlýja faðminn þinn útbreiddan. Þá fáum við okk- ur nýbakað „Russian“ og rifjum upp gömlu góðu dagana. Ég ætla að enda þetta á ynd- islegri vísu sem þú hélst mikið upp á og kenndir mér „i den tid“; Þó að kali heitur hver, hylji dali jökull ber, steinar tali og allt hvað er, aldrei skal ég gleyma þér. (Vatnsenda-Rósa) Takk fyrir allt, elsku amma mín. Góða nótt og Guð veri hjá þér. Þín Helga. Helga frænka, föðursystir okkar, var einn af vitum barnæskunnar í líflegri stórfjölskyldu okkar í hjarta miðbæjarins. Fjölskyldan átti nokkur hús á svæðinu sem af- markast af Hverfisgötu, Lauga- vegi, Smiðjustíg og Klapparstíg og við kölluðum í þá daga Vaðnes- hringinn. Þá voru engar hættur, maður mátti príla uppi á þökum og eig- inlega engir bílar á Hverfisgöt- unni, en þó nokkuð af reiðhjólum. Þá var ansi mikið sport að fá að sitja á stönginni hjá pabba og Helga frænka krossaði sig. Hún gerði það reyndar oft yfir þessari makalausu fjölskyldu, eins og til dæmis þegar kviknaði í jólatrénu hennar ömmu í þriðja skiptið og bræðurnir skvettu bara smávatni á, og svona rétt litu upp úr brids- inum á meðan. Bræðrunum þótti oft vesen í henni út af smáatriðum, og kölluðu hana stundum heilögu systur Helgu. Eftir á að hyggja var þar um að ræða skynsemi Helgu frænku. Í stórfjölskyldunni voru flestar konurnar að vinna á daginn, meira að segja amma Sigríður sem vann á skrifstofunni hjá Koli og salti. Helga var stundum heima á daginn og alltaf gott að heimsækja hana, alltaf gott að spjalla. Þiggja gjarn- an mjólkurglas og svanakex eða skreppa í mjólkurbúðina á horninu og fá gefins vínarbrauðsenda að hafa með sér til frænku. Lostæti. Helga frænka var glaðlynd og elskuleg en gat líka verið mjög stríðin jafnvel svo að maður fattaði ekki neitt. Sendi okkur til dæmis út í bakarí að kaupa drjúg vín- arbrauð. Helga var glæsileg heimsdama, var um tíma söngkona með hljóm- sveit – hefur örugglega sómt sér vel og verið flottust af öllum, alltaf vel til höfð. Fór aldrei óvaralituð út úr húsi. Oftast sein í boð, því það var svo tímafrekt að hafa sig til, fjölskyldan þurfti að beita alls konar klækjum til að ná henni frá speglinum með varalitinn. Kannski var þetta bara stríðni í henni, ekki gott að vita núna og orðið of seint að spyrja. Hlátur, söngur og gleði voru að- alsmerki fjölskyldunnar, alltaf var sungið margraddað og endalaust kunni fólkið af textum og lögum. Þessi lífsgleði er ein af dýrmæt- ustu gjöfunum sem fjölskyldan gaf okkur. Helga frænka var sú síð- asta af fimm börnum ömmu Sigríð- ar og afa Gunnars og með henni brestur hluti af keðjunni, og von- andi tekst okkur, næstu kynslóð, að bera neista þessarar einstöku fjölskyldu áfram. Við sendum frændsystkinum okkar, Gunnari og Björgu og börn- um þeirra samúðarkveðjur. Sigríður Sigurðardóttir og Ólafur Sigurðsson. „Ég er alveg að koma, ég er í baði,“ kallaði Helga vinkona mömmu eitt sinn þegar mamma beið hennar í leigubíl fyrir utan heimili Helgu. Þær hafa líklega verið að fara út á lífið saman og Helga ekki alveg tilbúin á réttum tíma. Oft hlógu þær að þessu vin- konurnar. Einnig því að þegar þær fóru saman í bíó var alltaf búið að slökkva ljósin og myndin hafin þegar þær loksins mættu. Helga og mamma kynntust þeg- ar þær voru ungar konur, báðar frá Rangárvöllum og voru vinkon- ur meðan báðar lifðu. Helga var tengd fjölskyldu minni sterkum tryggðaböndum. Nú þegar komið er að kveðju- stund leitar hugurinn til baka. Helga í heimsókn með nammi í poka handa okkur systrum. Sú yngsta sem Helga gaf nafnið Þór- laug var svo heppin að vera lengi „lilla baddið“ og fékk því nammi af því hún var alltaf svo lítil. Helga svo falleg með hatt og ný- lakkaðar neglur. Við systur röðum okkur við borðið, tilbúnar að taka þátt í sam- ræðunum og Helga full af áhuga um það sem við höfðum til mál- anna að leggja. Helga var frá Selalæk á Rang- árvöllum en fluttist ung með fjöl- skyldu sinni í miðbæ Reykjavíkur þar sem hún bjó allan sinn búskap. Gott var að heimsækja Helgu þeg- ar farnar voru ferðir í „bæinn“ og alltaf svo umvefjandi að hitta hana. Mér er minnisstætt þegar þær vinkonurnar úr sveitinni, Bagga, mamma og Helga, komu eitt sinn í heimsókn til mín til Vestmanna- eyja. Þær stöllur stoppuðu í nokkra daga. Eyjarnar skörtuðu sínu fegursta og menningarhátíð í gangi. Það var svo gaman að sýna Helgu og þeim hinum allt sem í boði var. Ég sé þær fyrir mér ljóslifandi, allar þrjár í appelsínugulum sjó- stökkum með sólgleraugu, sitjandi í bátnum sem sigldi með okkur umhverfis Eyjar. Smá pus og öldu- gangur og þær svo glaðar í sól- skininu. Nokkrar ferðir fór ég austur á Hellu með Helgu og mömmu í heimsókn til Böggu í Varmadal. Það voru skemmtilegar ferðir. Þar voru rætur þessara þriggja vin- kvenna og þegar við keyrðum um sveitina sögðu þær sögur og urðu ungar aftur. Síðasta ferð okkar Helgu var í haust en þá keyrðum við um miðbæinn og hún rifjaði upp lífið þar og hafði gaman af. Aldrei gleymi ég því hvað hún Helga var góð henni mömmu minni þegar hún var orðin veik og þurfti mest á vináttu að halda. Helga var vakin og sofin yfir vel- ferð hennar. Hún var sannur vinur og kveð ég hana með þakklæti og virðingu. Ástvinum öllum votta ég samúð. Megi minning hennar lifa. Guðmunda Steingrímsdóttir. Látin er sómakonan Helga Gunnarsdóttir frá Selalæk á Rang- árvöllum. Mig langar að minnast hennar í örfáum orðum. Elsku Helga mín, ég hugsa til bernsku minnar í Varmadal, þú og þín systkinin öll frá Selalæk voruð æskuvinir foreldra minna og því- líkur kærleikur sem var á milli ykkar alla tíð, hann var sérstakur. Ég tengdist fjölskyldunni kannski meira af því að ég var skírð í höf- uðið á systur þinni og þar sem ég þurfti á mikilli læknishjálp að halda þegar ég var mjög ung þá vorum við mamma oft í bænum og að sjálfsögðu á Laugavegi 19 hjá nöfnu minni, þér og fjölskyldu. Þessu gleymi ég aldrei, ilmurinn í eldhúsinu hjá þér var ómótstæði- legur og þó að þú þyrftir að mæta í vinnu daglega varstu alltaf búin að elda yndislega góðan mat handa öllum og það voru margir munnar þá. Ég man aldrei eftir þér annars staðar en í miðbænum, Helga mín, enda settir þú alltaf svip á bæinn. Steini í Vaðnesi sagði við mig þeg- ar ég var 16 ára og var að vinna hjá honum; „sérðu þessa, þetta er sú flottasta“. Nú læt ég hugann reika til bernsku minnar, það var mikil til- hlökkun þegar von var á þér með rútunni, það var svo spennandi þegar þú varst að koma í heim- sókn, alltaf svo sæt og fín og ynd- isleg. Það var oft gaman að hlusta á ykkur vinkonurnar í borðkrókn- um í Varmadal, mömmu, Öddu og þig, það voru létt skot sem flugu á milli ykkar en alltaf í góðu. Ég man eftir einu góðu frá Öddu til þín; „af hverju litar þú ekki á þér hárið, Helga?“ og þú varst fljót að svara, „ég ætla bara að vera með mitt silfraða hár“ enda fór þér það vel. Elsku Helga mín, mér þykir sárt að þú skulir vera sú síðasta sem ferð af þessum góðu systk- inum, en svona er lífið. Ég kveð þig góða kona með virðingu og þökk fyrir allt og allt, við Sigþór, systkini mín og fjölskyldan öll vottum börnum þínum og fjöl- skyldu innilega samúð. Guð blessi þig og varðveiti. Gerður Óskarsdóttir. ✝ Innilegar þakkir fyrir auðsýnda samúð og vinarhug við andlát elskulegrar móður okkar, tengdamóður, ömmu og langömmu, HALLDÓRU KR. BJÖRNSDÓTTUR, Nónvörðu 2, Keflavík, Sérstakar þakkir til starfsfólks Garðvangs. Loftur Hlöðver Jónsson, Kristján Már Jónsson, Ragnhildur Jónsdótttir, Kristmundur Árnason, Ásta Margrét Jónsdóttir, Sigurður H. Jónsson, Dóra Birna Jónsdóttir, Hermann Waldorff, barnabörn, barnabarnabörn.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.