Morgunblaðið - 18.04.2008, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - 18.04.2008, Blaðsíða 17
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 18. APRÍL 2008 17 MENNING Eftir Birnu Önnu Björnsdóttur í New York bab@mbl.is Ó lafur Elíasson verður óneitanlega í burðarhlutverki í myndlistarlífi New York-borgar í vor og sumar, og er óhætt að spá því að á næstu vikum og mánuðum muni flestir þeir sem búa í borginni eða heimsækja hana verða varir við verk hans á einhvern hátt. Fossaverk Ólafs, sem samanstendur af fjórum stórum fossum sem verið er að setja upp í East River (ánni sem liggur milli Manhattan annars vegar og Brooklyn og Queens hins vegar), er af slíkri stærðargráðu að borgin eins og hún legg- ur sig mun vita af þessari „brjálæðislegu hug- mynd“, eins og leigubílstjórinn sem keyrði mig nýverið niður að ánni til að skoða framkvæmd- irnar við verkið orðaði það. Það var svipað hljóð í byggingarverkamönnunum sem hlógu þegar þeir lýstu því sem í vændum er og sögðu að framkvæmdin væri algjörlega „galin“ og það meira að segja á New York-mælikvarða. Fossarnir munu ekki fara framhjá þeim hundr- uðum þúsunda ef ekki milljónum manna sem ferðast jafnan daglega meðfram austurhluta Manhattan og yfir Brooklyn- og Williamsburg- brýrnar, og auk þess má búast við því að marg- ir þeirra sem ekki eiga leið um þessar slóðir venjulega geri sér ferð niður að East River til að berja fossana augum. „Það eiga allir New York-búar eftir að vita af þessu,“ sagði einn byggingarmannanna og ítrekaði orð sín, „hver einn og einasti. Þetta er ekki bara fyrir þá sem spá í list, þetta verður miklu meira en bara list.“ Vatni verður hleypt á fossana um miðjan júlí og verkinu er ætlað að standa fram í október. En nú um helgina verður opnuð yfirlitssýning með verkum Ólafs í MoMA (Museum of Mod- ern Art) undir titlinum Take Your Time. Sýn- ingin er tvískipt og er annars vegar í aðalbygg- ingu MoMA við 53. stræti á Manhattan og hins vegar í nýlistamiðstöð safnsins sem nefnist P.S.1. og stendur við Jackson Avenue í Queens. Sýning MoMA er byggð á sýningu með verkum Ólafs sem sett var upp í SFMOMA, nútíma- listasafni San Francisco, undir sýningarstjórn Madeleine Grynsztejn, og eru 14 verkanna á sýningunni í New York verk af þeirri sýningu. 24 verkum hefur verið bætt við hér, þar af sex verkum sem gerð voru sérstaklega fyrir þessa sýningu, en sýningarstjórn fyrir MoMA var í höndum Klaus Biesenbach og Roxönu Marcoci. Tilveran í svarthvítu ásamt náttúrufyrirbrigðum Sá hluti sýningarinnar sem er í aðalbygg- ingu MoMA var forsýndur meðlimum safnsins í vikunni og þegar undirrituð kom þangað á miðvikudag hélt fjöldi fólks til á svæði fyrir framan ganginn inn að aðalsýningarplássinu. Þetta svæði, rétt eins og gangurinn sjálfur, er lýst upp með sterkum gulum lit þannig að allir aðrir litir verða líkt og svarthvítir, og fólk stóð þarna og pældi í litunum á fötunum sínum, húð- inni, hárinu og tók myndir af félögum sínum. Frá þessu svæði liggur rúllustigi niður á næstu hæð og guli liturinn nær til efri hluta rúllustig- ans en ekki neðri hlutans og það er merkilegt að horfa á hendurnar á sér breytast úr svart- hvítu í lit í miðjum rúllustiga, ekki síst ef maður er með rautt naglalakk (ég fór tvær ferðir). Guli gangurinn leiðir gesti síðan inn í að- alsýningarplássið þar sem hver salurinn á fæt- ur öðrum geymir stór verk þar sem ýmist ljós eða vatn, loft eða mosi búa til umhverfi þar sem gestir virða fyrir sér sjálf verkin, sig sjálfa og aðra gesti, og velta um leið fyrir sér eigin skynjun. „Mig svimar, ég ætla fram,“ sagði eldri kona við manninn sinn inni í hringlaga rými með björtu ljósi sem breytist hægt úr ein- um lit í annan (verkið heitir 360° room for all colors). Konan steig út úr hringnum en staldr- aði við í mynni hans og bað manninn sinn að koma og sjá. „Snúðu þér við,“ sagði hún svo við mig – ég stóð ennþá inni í miðju hringsins, mig svimaði ekki baun – og ég gerði eins og mér var sagt. „Sjáðu litina á peysunni hennar,“ sagði hún við manninn sinn og ég hlustaði á þau flissa af undrun yfir einhverju sem átti sér stað á bakinu á munstruðu gollunni minni. Annar sal- ur er merktur með aðvörunarskilti þar sem þeim sem þola ekki sterk blikkandi ljós er ráð- lagt að halda sig fjarri. Ég kíkti inn og þar voru nokkrir strákar klæddir eins og hljómsveit- arrótarar að skrúfa saman ljósabúnað á bak við vatnsstraum, hálfgerðan innifoss, og það stirndi á dropana sem fönguðu blikkandi ljósið. Við þessa sjón mundi ég eftir því að bygging- armennirnir við East River höfðu talað um að fossarnir þar yrðu upplýstir eftir myrkur, og kannski má búast við því að það verði í ein- hverju svipuðu formi og þarna. Ólafur á sér greinilega aðdáendur í hópi ung- lingsstúlkna því þær stilltu sér margar upp og létu mynda sig undir titli sýningarinnar sem stendur á vegg í rýminu með gula ljósinu. Með- al þeirra voru tvær stelpur frá Pennsylvaníu sem létu mömmu annarrar mynda sig. Þær tóku eftir því að ég smellti mynd af mömmunni þar sem hún var að taka mynd af þeim og báðu mig æstar um að senda sér þá mynd á email því sú mynd yrði „ennþá svalari“. Gler, ljós og speglar í P.S.1. Ég fór frá MoMA yfir til P.S.1. í Queens til að skoða hinn hluta sýningarinnar og vil leggja áherslu á það við lesendur að gera sér endilega þá ferð, komi þeir á annað borð til borgarinnar og sjái sýninguna. (Þó að Queens kunni að hljóma framandi þá er ekki nema sirka 10 mín- útna ferð með neðanjarðarlest frá aðalbyggg- ingu MoMA að P.S.1.) P.S.1., nýlistamiðstöð MoMA, er til húsa í skólabyggingu frá 19. öld sem mun vera ein helsta skólabygging New York-borgar. Húsið sjálft er tilkomumikið og flestum verkum sýningarinnar hefur verið komið fyrir í sölum á efri hæð þess þar sem hátt er til lofts og vítt til veggja. Miðpunktur sýningarinnar er jafnframt titilverk hennar, Take Your Time. Þetta er gríðarstór hringlaga spegill (eða, réttara sagt, skífa klædd speg- ilþynnu) sem hangir samsíða loftinu í tómum sal með viðargólfi. Spegillinn snýst löturhægt í hringi og hreyfingin ásamt rákum á fletinum fleytir skynjun manns í alls konar áttir. „Ég lagðist á gólfið í gær,“ sagði starfskona safns- ins sem leiddi mig gegnum sýninguna, „hérna, undir spegilinn, og ég varð gjörsamlega dá- leidd. En skífan er þúsund pund, pældu í því!“ Sýningin í P.S.1. er töluvert stærri en sú í að- albyggingu MoMA og í sölunum sem hýsa hana má sjá verk þar sem gler, ljós og speglar í ótrú- legustu útfærslum koma við sögu. Einnig má sjá ljósmyndaseríur úr íslenskri náttúru og herbergi þakið hellum sem minna á stuðlaberg. Tvö vatnsverk er svo að finna í kjallaranum; foss sem fellur upp á við, og annan foss sem ég vil ekki misþyrma með því að reyna að koma orðum að honum, verkið heitir einfaldlega Beauty. Á sýningunni eru einnig smærri verk og lík- ön af verkum og margt fleira sem hægt er að eyða dágóðum tíma í að velta fyrir sér. Safnið hefur einmitt í hyggju að svara kalli þeirra sem vilja gera meira en að skoða verkin upp á eigin spýtur, og fram eftir vori stendur til boða tals- vert ítarlegt prógramm fyrirlestra og nám- skeiða um sýninguna og verkin á henni, bæði fyrir fullorðna og fyrir börn. Miklu meira en bara list Titilverk sýningarinnar, Take Your Time Spegillinn snýst löturhægt, gestir verða að „gefa sér tíma“ til að skoða heiminn frá þessu sjónarhorni. Verkið Negative Quasi Brickwall Guli veggurinn og „einskonar úthverfur tígulsteinaveggur,“ á sýningu á verkum Ólafs í MoMA. Sýning Ólafs Elíassonar í MoMA og P.S.1. í New York verður opnuð almenningi á sunnudag » „… hver salurinn á fæt-ur öðrum geymir stór verk þar sem ýmist ljós eða vatn, loft eða mosi búa til umhverfi þar sem gestir virða fyrir sér sjálf verkin, sig sjálfa og aðra gesti, og velta um leið fyrir sér eigin skynjun.“ http://www.moma.org/

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.