Morgunblaðið - 23.04.2008, Page 18
|miðvikudagur|23. 4. 2008| mbl.is
daglegtlíf
H
ár er höfuðprýði og væntanlega
átta fæstir sig á því hve mikil-
vægur heilbrigður haddur er
sjálfsímyndinni fyrr en á reynir.
Demir Ilter getur státað af þéttu
og miklu hári, en hann er sér engu að síður vel
meðvitandi um þá angist sem hármissi getur
fylgt. Enda var það óánægja eins kollega hans
með eigin hárígræðslu sem varð kveikjan að því
að hann skipti enn á ný um starfsvettvang.
„Það var árið 2000 að við Ásdís buðum einum
starfsfélaga mínum við Karólínska sjúkrahúsið í
Stokkhólmi í mat. Hann óskaði eftir að ræða við
mig einslega eftir matinn og í ljós kom að hann
hafði farið í hárígræðslu sem hann var ósáttur
við. Þar sem ég hafði starfað sem lýtalæknir
vonaðist hann til að ég gæti aðstoðað sig. Sjálfur
hafði ég ekki tekið eftir að hann hefði farið í
slíka aðgerð fyrr en hann sýndi mér árangurinn
og ég afði að auki enga þekkingu á hárígræðslu.
Er ég hafði skoðað hann og séð hve gisið hárið
var, sem stóð beint upp í loftið eins og dúkku-
hár,lofaði ég að kynna mér málin,“ segir Demir.
Sú rannsóknarvinna átti síðan eftir að skila
sér í framhaldsnámi hjá dr. Robert Jones í
Toronto í Kanada, nýjum starfsvettvangi og
stofnun stofu, Ilter Clinic sem þau hjónin reka
saman, þar sem Demir hefur nú framkvæmt
rúmlega 700 ígræðslur. Ásdís skipti nefnilega
einnig um stefnu, hætti við að gerast flugmaður
og snér sér að hárígræðslu sem hún virðist ekki
minna áhugasöm um en eiginmaðurinn.
Hársekk fyrir hársekk
„Ég sá fljótt að eitthvað þyrfti að gera því það
virtist lítið um sérþekkingu á þessu sviði.
Frammámenn í viðskiptalífinu sóttu samt í að fá
lækna með aðrar sérgreinar til að framkvæma
hárflutning. Lækna sem höfðu jafnvel lítinn
áhuga á aðgerðinni. Þessu fannst mér þurfa að
breyta og sýna fram á að þetta væri raunveru-
leg sérgrein,“ útskýrir Demir. „Ég byrjaði því á
því að komast að því hvaða þætti hárígræðsl-
unnar menn væru ósáttir við. Það sýndi sig að
þeir sem höfðu farið í aðgerð voru ekki alls kost-
ar ánægðir með tæknina því henni fylgdu ýmsar
áhættur, t.d. hætta á sýkingu, öramyndun og
blæðingu. Auk þess sem árangurinn var oft
ófullnægjandi og útlitið óeðlilegt.“
Hárflutningstækni sem fyrst leit dagsins ljós
í Japan á fjórða áratug síðustu aldar lofaði hins
vegar góðu að hans mati. Sú tækni er þekkt sem
FUE (e. Follicular Unit Extraction) í dag. FUE
tæknin er t.d. ólík Strip-tækninni að því leyti að
hún byggir á því að hárið er fært til á höfðinu
hársekk fyrir hársekk en ekki fjarlægð heil húð-
ræma úr hársverðinum. Hársekkirnir eru þann-
ig fluttir einn af öðrum frá gróskumiklu gjafa-
svæði aftan á hnakkanum yfir á ígræðslusvæð-
ið, t.d. kollvikin. Um mikla nákvæmnisvinnu er
að ræða sem framkvæmd er undir staðdeyf-
ingu. Byrjað er á að draga hársekkina út og
þegar búið er að draga út það magn sem á að
flytja er ákveðið í samvinnu við þann sem hár-
ígræðsluna fær hvar nýja hárinu er komið fyrir.
Algengt er að um 1.500 hársekkjaeiningar, sem
jafngilda um 3.000 hárstráum, séu flutt til í einni
aðgerð, þó að magnið fari raunar upp í 3.000
hársekkjaeiningar. Nýja svæðið er svo gatað á
hárréttum stað með réttu horni og hársekknum
komið fyrir. Miklu skiptir að gatið liggi rétt svo
hárið vaxi eðlilega á nýja staðnum. Í sumum til-
fellum þarf einungis eina aðgerð, en vilji fólk t.d.
ekki raka af sér allt hárið sem er nauðsynlegt
fyrir umfangsmikla aðgerð er hægt að taka fyr-
ir smærri svæði í einu og hafa aðgerðirnar fleiri.
Á ekki að vera sýnilegt
„Svona hárígræðsla á að endast alla ævi,“
segir Demir. „Því þó að hársekkirnir sem fyrir
eru á ígræðslusvæðinu séu viðkvæmari fyrir
hárlosi eru hársekkirnir af gjafarsvæðinu eftir
sem áður sterkari. Þeir eru af erfðafræðilegum
ástæðum ekki viðkvæmir fyrir þeim áhrifum
sem valda hárlosi og halda sínum eiginleikum
þrátt fyrir flutninginn.“ Gjafarsvæðið er yfir-
leitt um fjóra daga að jafna sig eftir aðgerð en
ígræðslusvæðið grær á um 7-10 dögum. Hárið
vex síðan á nýja staðnum í 2-3 vikur áður en það
dettur af og hársekkurinn fer í hvíldarfasa sem
varir í 4-6 mánuði. Eftir það fer hárið að taka við
sér á nýjan leik og ætti þá að vaxa eðlilega. „Í
99% tilfella er ekki hægt að sjá að viðkomandi
hafi farið í hárígræðslu,“ segir Demir sem hefur
þróað enn nákvæmari útgáfu FUE-tækninnar,
sem hann nefnir eftir sjálfum sér FUE Ilter.
„Er ég var að vinna með dr. Jones sáum við í
fyrstu aðgerðunum að þó að þessi tækni gæfist
mun betur en Strip-aðferðin mátti enn gera bet-
ur. Þéttleikinn var ekki nægjanlegur og ör á
gjafasvæðinu í stundum áberandi. Ég stakk því
upp á að við notuðum minni tæki og færðum til
minni einingar svo ígræðslan yrði ennþá minna
áberandi. Flestir nota tæki sem eru með 1 mm
vinnslufleti, en ég hef verið að nota tæki með
0,5-0,75 mm vinnsluflöt. Það er ef til vill ekki
mikill munur á 0,5 og 0,75 mm fletinum, en ég sé
töluverðan mun á hárígræðslusvæði sem hefur
verið unnið með 0,75 mm tæki og stærri.“ Hann
bætir við að græða megi hár í bæði augabrúnir
og skeggstæði og fylla þannig upp í ör sem
myndast hafa eftir slys, bruna eða lýtaaðgerð.
Viðkvæmur vandi
Karlar eru um 90% þeirra sem hafa samband
við Ilter Clinic vegna hárígræðslu, en þangað
leitar þó líka fjöldi kvenna. „Það var erfiðara að
hjálpa konum með Strip-tækninni, líklega var
ekki hægt að aðstoða nema um 25% þeirra. Með
FUE-tækninni má hjálpa um 60-70% þeirra
kvenna sem hárlos hrjáir. Fjölmargar konur
vita hins vegar ekki að þær geta fengið hjálp,
nokkuð sem karlar virðast öllu meðvitaðri um.“
Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvort
lýtalæknar vísi mikið á hann, en Demir segir
flesta finna sig á eigin spýtur. „Hárleysi er
nokkuð sem fólk er viðkvæmt fyrir. Það ræðir
vandann jafnvel ekki við sína nánustu, enda
finnst því það sjaldnast fá stuðning frá fólkinu í
kringum sig. Venjulega er það því þannig að
fólk sest við tölvuna að vinnudegi loknum og
leitar sér upplýsinga á netinu. Og það er á net-
inu sem flestir finna okkur. Þess vegna opnuð-
um við m.a. upplýsingasíðu á íslensku.“
Fyrirspurnirnar berast líka víðsvegar að.
„Um 50% viðskiptavina okkar koma utan Sví-
þjóðar,“ segir Demir og nefnir Asíu, Evrópu og
Bandaríkin sem dæmi. Þónokkrir Íslendingar
eru í þessum hópi og kjósa þá oft að Ásdís sé
þeirra tengiliður.
Árangur þessara einstaklinga ári eftir aðgerð
er svo, að mati þeirra Demirs og Ásdísar, það
sem gefur starfinu gildi. „Þá hafa margir sem
áður leið illa umbreyst yfir í einstaklinga sem
eru fullir sjálfstrausts og sáttir við sjálfa sig,“
segir hún og Demir bætir við: „Þegar ég var í
hjartaskurðlækningunum snerist starf mitt að
miklu leyti um að lina þjáningar fólks sem var
komið vel á aldur. Nú bæti ég hins vegar lífs-
gæði fullfrískra einstaklinga sem fyrir vikið
geta beint atorku sinni að því að lifa lífinu til
fulls og það er virkilega gefandi.“
Hjón og samstarfsmenn Til þeirra Demir Ilters og Ásdísar Arnbjörns-
dóttur leitar fólk víðsvegar að úr heiminum.
Fyrir aðgerð Gisin kollvik geta vald-
ið angist hjá konum sem körlum.
Nákvæmnisvinna Hárið er flutt
hársekk fyrir hársekk.
Gefandi að bæta lífsgæði fólks
Hann er úr stórri læknafjölskyldu og hóf fyrst störf sem lýtalæknir. Síðar sérhæfði hann sig í hjartaskurðlækningum og fyrir einum sex
árum söðlaði hann enn um og sneri sér nú að hárígræðslu. Anna Sigríður Einarsdóttir ræddi við Demir Ilter, einn helsta starfandi hár-
ígræðslusérfræðinginn, og konu hans, Ásdísi Arnbjörnsdóttur, sem rekur með honum stofuna Ilter Clinic í Stokkhólmi.
Hárið vaxið á ný Þéttari kollvik um
ári eftir aðgerð.
Það þýddi eiginlega ekkert að fara í fel-ur með þetta þar sem að ég gerði þettafyrir framan sjónvarpsvélarnar,“ seg-
ir Þór Jónsson, fyrrverandi sjónvarps-
fréttamaður, en hann hefur í tvígang farið í
hárígræðslu hjá Ilter Clinic. Fyrst haustið
2004 er kollvikin voru löguð og síðan árið
2006 er hár var grætt í hvirfilinn. „Í fyrra
skiptið ætluðum við á Stöð 2 að gera frétt um
hárflutning en sá sem við ætluðum að fylgjast
með hætti á síðustu stundu við og kunni ekki
við að sýna sig. Þess vegna fór ég fréttamað-
urinn í stólinn og þá var fært sem nemur 500
hársekkjum í kollvikin.“
Þór segir að upp úr tvítugu hafi kollvikin á
honum hækkað nokkuð. „Mér leiddist það
óskaplega og nýtt lyf, Regaine, sem var á
markaðnum þá hafði engin áhrif. Svo vandist
maður þessu og til allrar hamingju dró úr
hármissinum.“ Nokkru eftir að Þór fórnaði
sér fyrir fréttina tók hann hins vegar að
missa hárið uppi á hvirflinum. „Ég verð að
viðurkenna að það leiddist mér og hugsaði
með mér að ef ég hefði misst tönn hefði ég
fengið mér falska,“ segir Þór sem ákvað í
framhaldi að setja sig aftur í samband við þau
Demir Ilter og Ásdísis Arnbjörnsdóttur. „Það
hár sem vex á höfðinu á mér núna er auðvitað
allt saman mitt hár, ég hef bara raðað því upp
öðru vísi en almættið ætlaði.“
Þór segir sér hafa komið á óvart hversu
sársaukalaus ígræðslan var og árangurinn
segir hann svo góðan að hárskerar og læknar
sjá varla að aðgerð hafi verið framkvæmd.
Þeir eru líka ófáir íslensku mennirnir sem til
hans hafa leitað til að fræðast um hárflutn-
inginn. „Ég veit að mörgum líður verr en mér
leið og þar sem ég gerði þetta í sjónvarpinu
hefur mér fundist eðlilegt og sjálfsagt að
skýra frá minni reynslu.“
En er þetta ekki hégómi?
„Kannski má saka mig um það að einhverju
leyti, en ekki ýmsa þá sem ég hef hitt og
spjallað við eftir að þeir sáu mig í aðgerðinni
í sjónvarpinu og raunverulega þjást út af hár-
losi.“
Morgunblaðið/RAX
Hárprúður Þór Jónsson segir hárskera og lækna varla nema að hann hafi farið í aðgerð.
Fyrir Hárið hafði þynnst á hvirflinum. Eftir Hvirfillinn er gróskumeiri ásýndar.
Hefði fengið sér falska
tönn ef tönnin hefði farið