Morgunblaðið - 23.11.2008, Blaðsíða 48
48 Bækur
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 23. NÓVEMBER 2008
1. Hvaða þjóðlegu gildi eru þér mik-
ilvægust?
Íslenski fáninn eftir að herinn fór
og náttúrlega svið, hákarl og hangi-
ket að ógleymdum súrum hrúts-
pungum.
2. Af hverju ert þú stoltastur á
starfsferlinum?
Að hafa ekki gerst viðhlæjandi yf-
irvalda hverju sinni og reynt að
beita upp í vindinn sem fréttamað-
ur.
3. Ef þú ættir kost á að gefa ráða-
mönnum þjóðarinnar eitt ráð, hvað
myndir þú ráðleggja þeim?
Að þeir geri sér grein fyrir að það
búa manneskjur í þessu landi með
vonir og þrár og að þotuliðið er ekki
sá klettur sem framtíð okkar veltur
á.
4. Hvaða manneskju lífs eða liðinni
dáist þú mest að – og hvers vegna?
Ég hef aldrei verið snokinn fyrir
persónudýrkun, en ég get ekki neit-
að því, að ég hef haft Steinólf bónda
í Ytri-Fagradal á Skarðsströnd til
nokkurrar fyrirmyndar í andlegum
og verklegum efnum.
5. Á Ríkisútvarpið að fara af aug-
lýsingamarkaði?
Já, ef tekjutapið verður bætt
stofnuninni, sem aldrei yrði gert og
því er svarið nei. Tilgangurinn með
öðrum ljósvakamiðlum hefur verið
að hrifsa út úr þeim fé, en ekki
menningarauki fyrir fólkið í landinu.
6. Nefndu tvo helstu galla þína og
tvo helstu kosti.
Mér er sagt á heimilinu að ég fari
frjálslega með neftóbakið. Svo er ég
skratti langrækinn.
Eðli sveitamannsins er kostur, að
trúa því að baslið skili sér í hverju
verki, hvort sem það eru bíla-
viðgerðir eða sjónvarpsvinna.
7. Hvenær komst þú mest í hann
krappan?
Þegar ég þurfti að standa frétta-
vaktina sólarhringum saman í snjó-
flóðunum á Vestfjörðum 1995. Þá
gránaði hár mitt, ég sé það á ljós-
myndum, fyrir og eftir eins og Jó-
hannes Birkiland fyrir og eftir
Kleppsvist sína.
8. Hver eru meinlegustu mistökin,
sem hafa hent þig í útvarpi eða
sjónvarpi?
Ósofinn eftir sveitarstjórnarkosn-
ingar, þegar ég talaði um spillingu í
Bolungarvík. Freud tók völdin og
undirsjálfið tók ekki tillit til þess, að
míkrófónn var á svæðinu.
9. Hver og hvar ertu í þínum villt-
ustu draumum?
Ég er náttúrlega bóndi í fögrum
dal með lagðprúðar ær og sællega
nautgripi.
10. Finnst þér fjölmiðlum hafa
láðst að spyrja lykilspurninga/r í
umfjöllun um fjármálakreppuna á
Íslandi?
Mér finnst það eiginlega ekki,
svarið liggur svo í augum uppi.
11. Eru Vestfirðingar að einhverju
leyti ólíkir löndum sínum annars
staðar á landinu?
Vestfirðingar eru lang-barðasti
þjóðflokkurinn á Íslandi ásamt þeim
á norðausturhorninu, en samt kyssa
þeir alltaf á vöndinn samanber af-
stöðu þeirra til kvótaflokkanna, sem
þeir kjósa alltaf yfir sig, hvað sem á
gengur og þótt flæði stöðugt undan
þeim.
12. Þú skrifar um afa þinn í nýju
bókinni þinni, Í húsi afa, er eitthvað
líkt í þínu húsi í Hnífsdal og hans
húsi?
Já, já, það er margt originalt í
báðum þessum húsum, en Hnífs-
dalshúsið er miklu betur viðað eins
og Tryggvi vinur minn Guðmunds-
son, lögfræðingur og fasteignasali,
orðaði það, þegar hann reyndi að
selja mér húsið fyrir 26 árum. Síðan
hef ég betrumbætt kofann á hverju
ári og verið eitt helsta skemmtiefnið
á þorrablótum Kvenfélagsins í
Hnífsdal. Á hvaða hringferð er still-
ansinn núna um húsið?
13. Hvað ertu að sýsla þessa dag-
ana?
Ég er náttúrlega að fylgja eftir
þessari síðustu bók, Í húsi afa míns.
Þetta er eins og grásleppuvertíð, þú
fiskar lítið, ef þú leggur ekki trossur
í sjó. vjon@mbl.is
Maður eins og ég |
Finnbogi Hermannsson, rithöfundur
Trúi því að
baslið skili sér
í hverju verki
Morgunblaðið/RAX
Finnbogi Hermannsson rit-
höfundur fæddist 20. sept-
ember 1945.
Hann ólst upp hjá foreldrum
sínum, Guðrúnu Valborgu Finn-
bogadóttur húsmóður, sem enn
lifir, og Hermanni Guðlaugs-
syni, húsgagnasmið í Reykjavík.
Hann og kona hans, Hansína
Guðrún Garðarsdóttir hús-
móðir, búa í Hnífsdal. Þau eiga
samtals fjögur börn og sjö
barnabörn. Finnbogi á eina
dóttur af fyrra hjónabandi og
Hansína son úr fyrri sambúð.
Finnbogi er MA-stúdent, en
brautskráðist frá KHÍ árið 1980.
Hafði löngum framfæri sitt af
því að undirvísa börn í krist-
indómi og ögn í reikningi eins
og Ólafur Kárason.
Dagskrárgerðarmaður við út-
varp 1980 og fastráðinn frétta-
og dagskrárgerðarmaður 1986.
Forstöðumaður Svæðisútvarps
Vestfjarða 1986-2007. Hann var
jafnframt fréttamaður Útvarps
og Sjónvarps.
Finnbogi hefur samtals skrif-
að þrjár bækur, Huldu og Ein-
ræður Steinólfs bónda í Ytri-
Fagradal. Bókin Í húsi afa míns
er nýkomin út og fjallar um líf
reykvískrar fjölskyldu á eft-
irstríðsárunum.
LÍFSHLAUP
FINNBOGA
Opinn fundur!!
Opinn fundur um efnahags- og
heilbrigðismál verður með Guðlaugi
Þór Þórðarsyni heilbrigðisráðherra í
Menningarmiðstöðinni
Gerðubergi við Austurberg mánudaginn
24. nóvember kl. 20:00. Allir velkomnir!
Sjálfstæðisfélögin í Árbæ, Grafarholti, Grafarvogi og Hóla- og Fellahverfi
Eftir Orra Pál Ormarsson
orri@mbl.is
Hvenær er maður dauður og hvenær
er maður ekki dauður? Er hægt að
vera hvorttveggja?“ spyr Helgi Guð-
mundsson rithöfundur í nýjustu bók
sinni Til baka sem hann skilgreinir
sem sannsögulega skáldsögu.
Þetta eru ekki heimspekilegar
pælingar út í bláinn heldur lá höf-
undurinn um tíma bókstaflega milli
heims og helju eftir misheppnaða
aðgerð á sjúkrahúsi.
„Eins og ástatt er fyrir mér hef ég
enga hugmynd um hvort ég er dauð-
ur eða lifandi,“ heldur Helgi áfram í
bókinni. „Ég skynja ekkert og líf-
færin starfa ekki að eigin frum-
kvæði. Ef líffærin starfa ekki upp á
eigin spýtur og ég hef enga skynjun
af nokkru tagi, er þá fráleitt að álíta
mig dauðan?“
Bókin byggist á reynslu sem
Helgi varð fyrir árið 2001. Erindi
hans á spítalann var að láta gera við
vélindabakflæði. Aðgerðin er ekki
talin neitt þrekvirki lengur og sjúk-
lingurinn á að vera kominn til vinnu
eftir viku. Það gerðist ekki í tilviki
Helga, vitundin skilaði sér ekki aft-
ur, vegna mistaka læknis.
Algjör hryllingur
„Frásögnina byggi ég á minni
reynslu, auk þess sem ég hafði skjöl
spítalans í höndunum. Þetta var al-
gjör hryllingur fyrir mig og fjöl-
skylduna,“ segir Helgi í samtali við
Morgunblaðið en hann var 55 daga á
spítalanum, þar af mjög lengi milli
heims og helju í öndunarvél.
„Mér fannst ástæða til að koma
þessari sögu til skila enda gríðarleg
reynsla að dansa á hárfínni línu milli
lífs og dauða. Margir spurðu mig í
kjölfarið hvort ég hefði í raun og
veru dáið og séð yfir um.“
Og hverju svaraðir þú?
„Ég svaraði því til að maður í
þessu ástandi hljóti tæknilega séð að
vera dauður. Ég sá allskonar sýnir
en gerði mér ekki grein fyrir því
hvort það var vitund af einhverju
tagi. Ég sá meðal annars fjöldann
allan af erlendu fólki, m.a. Víetnama
og indíána, og starfsfólk spítalans
gekk í gegnum þetta fólk. Þegar ég
var kominn með sæmilega vitund
spurði ég hvort þetta fólk starfaði á
spítalanum en það reyndist ekki
vera. Vísindin segja að ég hafi verið
hérna megin þegar ég sá þessar sýn-
ir en einhverjir myndu halda því
fram að ég hafi séð yfir línuna.“
Hvað heldur þú sjálfur?
„Ég hef ekki trú á því að það
sé neitt fyrir handan og þessi
upplifun hefur engu breytt um
það. Ég hef ekki ennþá beðið
Guð að hjálpa mér og hafði í
raun miklu meiri trú á þessu
ótrúlega duglega starfsfólki
spítalans sem vakti yfir mér
dag og nótt. Þar á ég sér-
staklega við hjúkrunarkon-
urnar. Það er undur hvernig
þær geta unnið við þessi
skilyrði.“
Skáldaður fylgdarsveinn
Fylgdarsveinn fer með Helga
gegnum bókina og höfundurinn
staðfestir að hann sé skálduð per-
sóna. Sitthvað fleira eigi sér heldur
ekki stoð í veruleikanum. „Það
breytir þó ekki því að ég kom út úr
þessu með þennan fylgdarsvein í
huganum og gat því strax farið að
skrifa. Ég byrjaði á sögunni haustið
2001 en réð ekkert við þetta þá. At-
burðirnir stóðu mér of nærri, ég var
alltof reiður og sorgmæddur. Ég tók
upp þráðinn fyrir tæpu ári og þá
gekk þetta miklu betur.“
Erfitt er fyrir þá sem ekki hafa
reynt að setja sig í spor Helga. Hann
segir það hafa verið gríðarlega erfitt
að geta hvorki tjáð sig né hrært og
hlýða á fólk í kringum sig velta því
fyrir sér hvort hann myndi lifa þetta
af.
Eftir að hann komst til vitundar
segir hann þrautirnar á löngum köfl-
um hafa verið óbærilegar. „Þar sem
ég lá í rúminu sá ég á klukkuna …“
Moggaklukkuna.
„Já, helvítis Moggaklukkuna,“
segir Helgi hlæjandi. „Mér
varð starsýnt á sekúnduvís-
inn og tilhugsunin um að
hann ætti eftir að snúast
heilan hring var óbærileg.
Svo voru hinir vísarnir eft-
ir. Þetta gekk svo langt að
ég bað um að tækin yrðu
tekin úr sambandi. Ég tal-
aði um það við konuna mína
en sem betur fer fór hún ekki
lengra með þá beiðni. Menn
missa alla eðlilega dómgreind þeg-
ar þeir eru svona kvaldir.“
Engin beiskja
Helgi kveðst ekki
vera beiskur eftir
þessa nöt-
urlegu
reynslu. „Ég kenni engum um þetta.
Þetta var ekki viljaverk, langt því
frá. Þegar málið var gert upp lækn-
isfræðilega kom fram hjá landlækni
að ákveðinn maður hefði brugðist
rangt við en ég hugsa ekki um það í
dag. Þvert á móti geri ég gys að mér
í bókinni og spauga við lækna og
hjúkrunarfólk í sögunni. Það er eng-
in uppgerð, um leið og ég komst til
vitundar byrjaði ég að spauga. En
svo missti ég málið og allan mátt úr
líkamanum um tíma. Sem betur fer
lagaðist það enda fór mátturinn
vegna hreyfingarleysis en ekki
vegna skemmda í vöðvum.“
Helgi hefur náð sæmilegri heilsu
en er eigi að síður öryrki. Hann var
það raunar af öðrum ástæðum fyrir
en svo bættist þetta við. Í dag leggur
hann stund á sagnfræðinám, auk
þess að fást við skriftir. „Ég hef ver-
ið dreginn í hlé, eins og ég segi.“
Hvenær er
maður dauður?
Helgi Guðmundsson segir átakanlega
sjúkrasögu sína í sannsögulegri skáldsögu
Til baka - Helgi Guðmundsson
Helgi Guðmundsson