Sjómannablaðið Víkingur - 01.03.1981, Side 8
Ingólfur Stefánsson:
Telja verður að sá árangur, sem á
undanförnum árum hefur náðst í
hinum ýmsu þáttum slysavarna á
sjó sé með ágætum, og vil ég hér
sérstaklega geta þess, sem áunnist
hefur við að koma í veg fyrir þau
tíðu slys sem urðu á bátaflotanum
við netadrátt.
í skýrslu rannsóknarnefndar
sjóslysa frá 1971 kemur fram, að
slysatíðni er æði há, og þá ekki
hvað síst á netabátunum. Þessi slys
eru oftar en ekki af þeim flokki,
sem telja má til stórslysa, og eru
þeir margir sjómennirnir, sem
limlestust svo, að þeir hafa örkuml
til lífstíðar eftir að hafa dregist inn
á dráttarskífuna. Þess eru nokkur
dæmi, að þrjú stórslys af þessu
taginu urðu á sama skipinu á einni
vertíð, og var ævinlega um rúllu-
manninn að ræða.
Þeim mönnum verður seint
fullþakkað, sem gengu fram fyrir
skjöldu til að bægja hættuástand-
inu við dráttarskífuna frá. Þeir fé-
lagar Einar Ólafsson og Ágúst
Guðmundsson útgerðarmenn á
m/b Kap urðu fyrir því eins og
margir aðrir að stórslys urðu hjá
þeim um borð. Þeir vildu ekki
sætta sig við það, að slík slys gætu
hent aftur og leituðu til Sigmund í
Vestmannaeyjum, sem er upp-
finningamaður mikill, þótt hann
sé sennilega landslýð kunnari sem
skopmyndateiknari fyrir Morgun-
blaðið, og báðu hann um að gera
tillögu að öryggisútbúnaði við
dráttarskífuna. Myndin sem hér
fylgir á síðunni sýnir hvernig tæki
Sigmund lítur út, en telja verður
að þessar endurbætur komi í veg
fyrir slys eins og þau, sem algeng-
ust eru við netadrátt. Nokkurn
tíma tók að fá þennan útbúnað
samþykktan af Siglingamála-
stofnun og Samgönguráðuneytinu
og hefðu viðbrögð þessara aðila
við þessu bráðnauðsynlega vinnu-
verndartæki mátt vera skjótari.
Um síðastliðin áramót áttu allir
bátar, sem stunda netaveiðar að
vera komnir með þennan útbún-
að, og er það nú von okkar, að nú
verði úr sögunni öll þau miklu
slys, sem urðu við netadrátt á ver-
tíð.
Því nefni ég þetta hér, að víða er
enn pottur brotinn í slysavarna-
málum sjómanna, og mörg þau
atriði, sem færa mætti til betri
vegar. Það er þarft verk, sem
Vestmannaeyingar hafa þarna
unnið, og ætti að vera hvatning
öðrum sjósóknurum til að nýta
hugvit sitt og annarra til þess að
bægja frá hættum á vinnustað
sínum, svo fremi sem þess er
nokkur kostur.
Um slysavarnir á sjó
8
VÍKINGUR