Náttúrufræðingurinn - 1966, Blaðsíða 91
NÁTTÚRUFRÆÐINGURINN
85
hrauninu. Hér mun hafa verið um kísilgúr að ræða, en auðvelt er að
villast á þessu tvennu ef ekki er vel að gáð.
Samkvæmt niðurstöðum Þorgeirs verð ég að breyta tölum þeim,
sem ég á sínum tíma birti um flatarmál og lengd Laxárhrauna. Sé
skoðun Þorgeirs rétt, sem ég sé enga ástæðu til að efa, mælist mér
lengd Laxárhrauns yngra vera 63 km, ílatarmál þess um 220 km2 og
rúmmál má áætla 2 til 3 km3. Laxárhraun eldra er þá rösklega 70
km langt og flatarmál þess um 300 km2, en rúmmál líklega nálægt
4 km3. Eftir sem áður mun það mega teljast næst lengsta dyngju-
hraun hérlendis, en lengsta dyngjuhraun á íslandi og í veröldinni
allri er Bárðardalshraun, komið úr Trölladyngju, og a.m.k. 105 km
langt. Lengsta hraun á landinu er, svo sem flestum mun kunnugt,
Þjórsárhraunið stóra, sem samkv. rannsóknum Guðmundar Kjart-
anssonar er a. m. k. 130 km langt og um 770 km2 að flatarmáli. Aldur
þess er um 8000 ár og líklegt að Bárðardalshraunið geti verið svipaðs
aldurs. í ritgerð minni um Laxárhraun benti ég á, að það væri miklu
eldra en Hekluaskan H4 og gizkaði á aldurinn 6500 ár. Sumarið 1952
fann ég Heklulagið Hs ofan á hrauninu í sniði, sem ég gróf 10 km
sunnan við Fosshól, en öskulagið Hs er um 6600 ára, og þar eð mold-
arlag, 15 cm þykkt, var milli þess og hraunsins, er aldur hraunsins
vart minni en 8000 ár.
Ýmislegt í ritgerð Þorgeirs þarfnast nánari athugunar og eðlilega
orkar eitthvað tvímælis. Mér er og kunnugt um, að Þorgeir kann frá
fleiru forvitnilegu að segja um jarðfræði héraðs síns en rúm var fyrir
í ritgerð hans. En þessar línur mínar eru ritaðar fyrst og fremst í þeim
tilgangi að vekja athygli á þessari merku ritgerð og votta Þorgeiri
þakkir fyrir hana. Það er gott til þess að vita, að enn eru ekki úr sög-
unni þeir athugulu og glöggskyggnu bændur, sem löngum hafa lagt
drjúgan skerf til þekkingarauka í jarðfræði okkar lands. Enn geta
íslenzkir atvinnujarðfræðingar sitt hvað af slíkum mönnum lært.
Sigurður Þórarinsson.
Athugasemd. Fins og upphai' þessarar greinar ber með sér, hefur liún beðið
birtingar alllengi. Ritstj.