Náttúrufræðingurinn - 1976, Blaðsíða 85
NÁTTÚRUFRÆÐIN GURINN
187
hraun (Ólafur ]ónsson, 1945) og Ferðir, blað Ferðafélags Akureyrar
(Ólafur Jónsson, 1960); hann skrifar einkum um landslag þar og
hina unaðslegu töfra staðarins, fagurt útsýni, hillingar, öræfakyrrð-
ina og silfurtærar lindir, en minna um gróðurinn þó hann hafi
greinilega hrifist mjög af stórvöxnu hvannstóði, fagurlituðum græn-
gróðri og ilmi af gróandi grasi.
Greinarbestu lýsingar á gróðurfari Grafarlanda og Herðubreiðar-
linda, þótt stuttar séu, er að finna í síðara bindi bókarinnar Landið
þitt eftir Steindór Steindórsson (1968 a og b), en eins og eðlilegt er
um greinar í slíku uppflettiriti þá eru þær mjög samanþjappaðar.
Sjálfur lief ég komið mörgum sinnum í Herðubreiðarlindir og
farið um allt svæðið til gróðurrannsókna; einnig hef ég farið nm
mestan hluta Grafarlanda og meðfram Grafarlandaá nærri frá upp-
tökum til ósa. Síðastliðið sumar gekk ég svo á Herðubreið að norð-
vestan og athugaði gróður þar og í vesturhlíðum hennar.
í þessari grein verður, eins og nafnið bendir til, fjallað nærri
eingöngu um flóru og gróður þessara gróðurvinja, þar sem landslagi
og ýmsum fleiri þáttum í náttúrufari þeirra hafa verið gerð skil í
ofannefndum greinum. Hér er fyrst og fremst byggt á eigin rann-
sóknum, eins og gefur að skilja, jafn fáorðar og framanskráðar heim-
ildir eru um plönturíki þessara fögru og nrerku staða.
Lega og staðhættir
Herðubreiðarlindir eru við austurjaðar Ódáðahrauns, 5—6 km
aust-norðaustur af Herðubreið; þangað eru 60 km af þjóðveginum
rétt austan Hrossaborgar á Mývatnsöræfum. Þar korna allmargar
smálindir undan hraunröndinni á nokkrum kafla og renna lækirnir
frá þeim saman í töluverða á sem heitir Lindaá, og rennur norður
í Jökulsá við Ferjufjall, sums staðar nærri fast með hraunröndinni,
annars staðar á sléttum eyrum. Umhverfis uppspretturnar og utan í
hraunhallinu og einnig meðfram blátærri Lindaánni er mikill og
gróskulegur gróður, fögur hvannstóð, gulvíðirunnar og eyrarósa-
breiður, og þó er staðurinn í 480 m liæð yfir sjávarmáli. Suðvestur
í hraunið gengur grunn lægð og í henni eru þrjár tjarnir með gxæn-
um og grónum bökkum og rennur lækur úr syðstu tjörninni gegn-
um hinar norður í Lindaá. Ólafur Jónsson (1945) getur þess að
tjarnirnar muni myndaðar á síðari árum og þær séu ekki stöðugar.