Vikan


Vikan - 22.08.1963, Síða 12

Vikan - 22.08.1963, Síða 12
„í alvöru talað, Katya, þá líturðu ákaflega lotlega út. Ég er því fegnastur, að ég skuli hafa komið þessu í kring. Þú þarfnast þess sannarlega að áhyggjum sé af þér létt. Þú ert alltof samvizkusöm. Gleymdu þessum unglingum. Við skulum þess í stað reyna að vekja aftur roða í vöngum þínum, hvað segirðu um það, ha?“ Hann teygði út höndina og kleip hana glettnislega í kinnina. ,,En unglingarnir?" spurði hún. „Hvað verður um þá?“ „Strákarnir, já. Ég hef falið Gradinkov að leysa það vandamál. Að sjálfsögðu undir minni stjórn, en ég mun þó gefa honum mjög frjálsar hendur. Það er farið að færast líf í tuskurnar. Ég er hræddur um að þeir í Moskvu kæri sig ekki um að það dragist lengi úr þessu að gert verði upp við þessa ungl- inga í eitt skipti fyrir öll.“ Katya fann að hið óumflýjanlega bjóst til atlögu. Hún varð gripin ákafri þreytu. Það var með naumindum að hún gat haldið sér uppréttri í sætinu og allt tók að hringsnúast fyrir augum hennar. Hún fann að hann lagði hönd á öxl henni. „Hvað amar að, Katya? Þú ert áreiðanlega eitthvað veik,“ heyrði hún hann segja. „Nei, nei. Ég er bara þreytt. Ákaflega þreytt.“ „Farðu heim í gistihúsið aftur. Hvíldu þig vel. Þú þarft ekki að vinna í kvöld, ef þér finnst þú ekki fær um það. Þú hefur mitt leyfi til þess.“ Eftir á rak hana ekki minni til hvernig hún hafði komizt heim í gistihúsið og í rekkju. Um leið og hún var lögzt út af, var hún fallin í fastasvefn. Nokkru síðar vaknaði hún við að barið var að dyrum. Það var umsjónarkonan. „Ég var beðin um að spyrja hvort þú værir vænt- anleg til vinnu niðri í veitingastofunni?" kallaði hún. „Já,“ svaraði Katya. „Segðu þeim, að ég komi að vörmu spori.“ Svefninn hafði hresst hana og endurnært. Að minnsta kosti líkamlega. Hún var jafndofin andlega og áður. Hún hafði varla opnað augun morguninn eftir en hún minntist þess, að hún hafði sagt Grant að koma klukkan þrjú. Hún hugleiddi daginn, sem hún átti framundan. Það var þýðingarlaust fyrir hana að fara niður að höfninni til að hafa tal af unglingunum, úr því sem komið var. Þeir komu henni ekki lengur við. Héðan í frá átti hún ekki skyldustörfum að gegna nema í veitingastofunni, og ef hún færi sem túlkur um borð í skip endrum og eins. Og hún var staðráðin í að helga Grant hverja stund, sem hún ætti aflögu, þangað til hann færi. Ég ætla að lauma undan einhverju af vodka, og hafa það til taks þegar hann kemur, hugsaði hún. Þó að það væri ólöglegt, og þó að það þefði verið með öllu óhugsandi að hún fremdi slíkt lagabrot fyrir nokkr- um dögum, vakti slíkt ekki minnsta samvizkubit með henni nú. Rétt fyrir þrjú sendi hún lyklakonuna af ganginum í hinum ótrúlegustu er- indagerðum, og lét sér hvergi bylt við verða. Sér til mikillar undrunar fann hún ekki votta fyrir því uppnámi og ótta, sem jafnan hafði gripið hana að undan- förnu, þegar svona stóð á. Það var því líkast sem hin skarpa og miskunnarlausa rökhyggja Dmitri hefði brotið af henni viðjar; eins og örlög þau, sem þess- um unglingum mundu búin, ykju henni sjálfri hugrekki til að horfast í augu við sín eigin örlög. Hún setti litlu vodkaflöskuna á borðið, hjá tréskurðarmyndunum, eins og offur fram fyrir skurðgoð. Brauðið og styrjuhrognin á bakka. „Einmitt það,“ varð honum að orði, þegar hann kom. „Bara veizla ...“ ÞAU lyftu glösum og hún reyndi að tæma sitt glas í einum teyg. Það setti að henni ákafan hósta. Hann barði laust i bak henni og hló. Hún varð gagntekin hugrekki og fögnuði, öldungis eins og þegar þau gengu hlið við hlið á brattann daginn áður, til fundar við Dmitri, eins konar upp- hafningu, rétt eins og ekkert væri ómögulegt. Hún reyndi að gera Grant grein fyrir þessu hugarástandi á milli þess sem hún mataði hann á brauði og styrju- hrognum. En þegar hún hafði tæmt glas sitt aftur, varð hún þess vör að henni veittist örðugt að tala skilmerkilega. „Getur átt sér stað að ég sé orðin drukkin?“ spurði hún. „Ekki enn. En ef þú heldur áfram að drekka þetta rússneska eldvatn, verður þess varla langt að bíða.“ „Já, eldvatn er sannnefni, þegar maður blandar því ekki í te.“ Hún hallaði höfði. „En hve skegg þitt er skrýtið, þegar maður horfir þannig á það.“ „Það er skrýtið, hvernig sem á það er horft. Ég raka það sennilega af mér, þegar ég kemst þangað sem maður getur fengið rakvélarblöð." Og orðin lögðust eins og garður á milli þeirra. „Ég vil ekki að þú minnist á að hverfa á brott,“ sagði hún. Og í þetta skiptið hafði hún fullt vald á máli sínu. . ' « ■ ■ ' ' ;■;■■'■:. ;■' i y j Á 1 ; ■ ' m. "' i ■ FRAMHALDSSAGAN 7. HLUTI eftir ROBERT F. MIRVISH teikning BALTASAR

x

Vikan

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.