Vikan


Vikan - 24.03.1966, Blaðsíða 17

Vikan - 24.03.1966, Blaðsíða 17
— Nei, sagöi Vivonne rólega. — Konan mín og ég búum ekki sam- an. Og við sjáumst jafnvel ekki lengur, ekki síðan þessi naðra reyndi að eitra fyrir mig í fyrra til Þess að taka elskhuga sinn sér fyrir eigin- mann i minn stað. — Alveg rétt. Nú man ég það. Ég heyrði um það við hirðina. Hún hló glettnislega: — Vesalingurinn, var það ekki alveg hræðilegt! Eitraði hún raunverulega fyrir þig? — Eg varð veikur eins og hundur. — Það er allt gleymt núna, sagði hún hlýlega og klappaði honum á kinnina. — Þá hljóta ástkonur þínar, sem eru sagðar eins fjölbreyti- legar og Þær eru margar, að eiga Það sem I skápnum er. En ég er ekki að kvarta. Ég skal finna það sem ég þarf. Hún hló aftur. Ástarleikurinn hafði kryddað ilminn af líkama henn- ar og þegar hún fór framhjá honum rétti hann ósjálfrátt út handlegg- ina til að gripa hana í fangið og þrýsta henni að sér. En hún vék sér undan og hló. — Nei, herra minn. — Við erum að flýta okkur. Við munum hittast síðar. — Úff! sagði hann og gretti sig. — Eg veit ekki hvort Þú hefur gert þér grein fyrir því, hve óþægileg galeiðan er. — Uss! Við fáum áreiðanlega tækifæri til að faðmast hér og Þar. Komið þið ekki einhverntíma i höfn á Miðjarðarhafinu? Er ekki eyja þar með tærum, bláum ám, og strendur með mjúkum sandi? Hann andvarpaði djúpt: — Þú getur gert mann vitstola. Svo fór hann að blístra og fór i silkisokkana og bláu satínbuxurnar og kom svo í baðherbergisdyrnar. Hún hafði ausið vatni úr koparvatns- geyminum upp í marmarabaðkerið og var nú að hella Þvi yfir sjálfa sig. — Leyfðu mér að minnsta kosti að horfa á þig, bað hann. Hún leit á hann yfir aðra vota öxl sina. — Skelfing ertu ungur! — Ég held að ég sé ekki yngri en þú. Eg myndi jafnvel vilja halda þvi fram, að ég sé fjórum eða fimm árum eldri. Ef ég man rétt, sá ég þig fyrst, þegar þú varst tvitug. Ég man enn, hve Þú varst ótamin og fersk. Þá var ég tuttugu og fjögurra ára og hélt, að ég væri fullorðinn maður, með alla þá reynslu, sem hægt væri að fá. Nú er mér hins- vegar að verða Ijóst, að ég veit ekkert. — En ég varð fyrr gömul, sagði Angelique glaðlega. — Ég er hund- gömul. Ég er hundrað ára. Tyrki með andlit, sem líktist mest ávaxtaköku undir grænum vefjar- hettinum, kom inn með koparbakka með litlum bollum, sem i var svart brugg og rauk af þvi. Angelique sá, að þetta var samskonar brugg og hún hafði drukkið með persneska ambassadornum Baktiari Bey og fann að þetta var sama lykt og var rikjandi í Levantihverfinu. Hún gat varla borið bollann að vörum sér, þvi henni fannst lyktin svo ógeðfelld. Vivonne hvolfdi hinsvegar í sig hverjum bollanum á fætur öðrum og spurði hana svo. hvort hún væri tilbúin. Angelique fann örvæntinguna gripa sig á ný. Hvað nú ef lögreglan væri ennþá að snuðra eftir henni í sofandi borginni? En sem betur fór var hús aðmirálsins alveg niðri á hafnarbakkanum, svo þau komust á réttan stað með því að fara yfir einn húsagarð. Galeiðurnar voru komnar út á skipalægið. Hvítur og gylltur skips- bátur var á leiðinni að bryggjunni. Angelique hélt, að það myndi líða yfir hana af áhyggjum og kvíða, meðan hún beið eftir komu bátsins. Fjalir Marseilles voru heitar undir fótum hennar. Hvenær, sem var, gat Desgrez komið I ljós og eyðilagt allar hennar fyrirætlanir og gert vonir hennar að engu. Hún lét augun hvarfla í sifellu yfir hafnargarð- inn, bátaiægið, dráttarbrautirnar og borgina þar upp af, hjúpaða brún- leitu mistri. Vivonne talaði við undirmenn sína, meðan Þjónarnir köstuðu far- angri ofan í skipsbátinn. — Hver er þar? Angelique kipptist við. Tveir skuggar komu í ljós útundan vöruköss- um og færðust i áttina til þeirra. Hún dró ekki andann aftur fyrr, en henni varð ljóst, að þetta var Flipot og Savary. — Þetta er fylgdarlið mitt, sagði hún og kynnti þá. — Læknirinn minn og þjónninn minn. — Segið þeim að stíga ofan í bátinn. Þér líka, Madame. Þau stigu ofan i bátinn, sem skoppaði á öldunum og skall léttilega utan í bryggjustöplana. En svo urðu þau að bíða. Kortin höfðu gleymzt, og það varð að sækja þau. Höfnin var að vakna til nýs dags. Fiskimennirnir drógu netin á eftir sér niður þrepin, ofar, í skekturnar. Aðrir stigu upp úr bátum sínum til að ylja morgunverðinn á glóðarkerjunum hjá hettumunkunum. Grisk eða ef til vill tyrknesk skækja, tók að dansa, sveiflaði um sig slæðum og hélt höndunum hátt yfir höfði sér og sló hljóðfallið með kastaníettum úr kopar. Þetta var hvorki réttur staður né tími til að auglýsa það, sem hún hafði að selja. Ef til vill var hún að dansa sól- inni til dýrðar, eftir lastafulla nótt í skuggahverfinu. Framandi skell- irnir í kastaníettum áttu ekki heima hér á næstum mannauðum hafnar- bakkanum. Árar skipsbátsins stungust I yfirborð sjávarins, komu upp og hurfu á ný. Á örskömmum tíma voru Þau komin út á lægið, og Angelique sá fyrstu geisla sólarinnar ljóma á Tour Saint-Jean. Svo stigu Þau um borð og galeiðurnar létu úr höfn. öldurnar risu hærra, og Angelique gekk aftur á skutpall og leit í síðasta sinn til landsins. Marseilles var að hverfa I fjarska, en henni fannst hún sjá mann koma hlaupandi fram á hafnarbakkann. Hann var of langt i burtu til þess að hún sæi framan í hann, en hún vissi, að þetta var Desgrez. Of seint! — Ég vann, Monsieur Desgrez! hugsaði hún með sigurgleði. Annar hluti K R 1 T 6. KAFLI Angelique starði annars hugar á gullna skúfana á tjaldskálanum aftur á. Galeiðurnar sex sigldu fyrir góðum byr, og löngu bugspjótin risu og hnigu með þokkafullum hreyfingum og íburðarmiklir skips- skrokkarnir liðu áfram á bláum bylgjum. Gylltar stafnmyndirnar klufu öldurnar, en á útskornum skutnum ljómaði á litla sjávarguði, sem blésu í kuðunga, og rósakrýndir guðirnir og brjóstamiklar sífenurnar vörpuðu ljóma í augu hennar, þegar þau á víxl risu úr sæ og hurfu í hann á ný. Frá siglutrénu blöktu oddaveifurnar og gunnfánarnir með gleðilegum skellum. Tjalddyrnar aftur á höfðu verið bundnar opnar og sjávarloftið blandað ilmi af myrtu og mimósu frá ströndinni, sem ekki var langt undan, lék um vit hennar. De Vivonne hertogi hafði búið tjaldskálann samkvæmt austurlenzkum stil með mottum, lágum dívönum og hægindum og gert það að setu- sal fyrir liðsforingjana. Angelique fannst þetta þægileg híbýli og kaus heldur að eyða tíman- um þar en í þröngum klefanum sinum milli þilfaranna, sem henni fannst saggafullur og fráhrindandi. Hér slógu öldurnar skutinn, og slátturinn í þykkum striganum í tjaldinu yfirgnæfði óaflátanlegan bumbuslátt verkstjóranna og ruddalegar formælingar varðmannanna. Nokkur fet frá henni stóð Monsieur de Millerand undirforingi og grandskoðaöi ströndina í gegnum sjónauka. Hann var næstum skegg- laus fyrir æsku sakir en hár og vel vaxinn. Afi hans, sem verið hafði aðmíráll, hafði þjálfað hann eftir siðareglum hins konunglega flota, og þar sem hann var nýkominn úr skóla og reglurnar honum enn i fersku minni, var hann á móti því að hafa konur um borð. Hann. hafði aldrei sézt brosa, og hann var stoltur i fasi, þegar hann gekk um skip sitt og gætti þess að forðast félagsskap hinna ungu foringjanna, sem hópuðust um Angelique, þegar þeir áttu lausa stund. Þeir voru ekki líkt því eins formfastir og hann, og nutu Þess greinilega að vera í félagsskap hennar, og vera hennar um borð gerði starf Þeirra bæri- legra. Þetta var klettaströnd með rauðleitum blæ og lengra I burtu risu fjöll með dökkgrænum gróðri, aðallega lágum runnum og ilmandi jurtum. Þrátt fyrir litafegurðina var einhver eyðisvipur yfir staðnum. Hvergi var tíglaþak að sjá, né heldur seglbát í bláum víddum, sem skárust inn í rauðleita klettana. Aðeins hér og Þar mátti sjá einmana, lítið þorp, umgirt skíðgarði. De Vivonne hertogi kom í ljós, kátur og ljómondi, ásamt litla, svarta sveininum hans, sem bar öskju með sætindum. — Hvernig líður þér, kæra Madame? spurði hann, þegar hann kyssti á hönd Angelique og settist við hlið hennar. — Má bjóða þér sætindi? Sjáið þér nokkuð, Millerand? — Nei, herra minn, nema að ströndin er auð. Fiskimennirnir hafa yfirgefið þessi einangruðu þorp og flúið barbarana, sem hér gera strand- högg og hneppa íbúana I þrælsfjötra. Þeir hafa sennilega leitað skjóls i borgunum. — Við erum komin framhjá Antibes? Með ofurlítilli heppni gætum við níðst á gestrisni míns góða vinar prinsins af Marokkó i nótt. — Já herra minn, ef annar af okkar góðu vinum — ég á við Res- cator — slettir sér ekki fram í fyrirætlanir okkar. — Hafið þér séð nokkuð? endurtók Vivonne um leið og hann reis á fætur og tók sjónaukann af liðsforingjanum. — Nei, ekkert. En einmitt það kemur mér nokkuð á óvart. Aðstoðarmaður Vivonne, Monsieur de la Bossardiére kom inn ásamt tveimur öðrum yfirmönnum, de Saint-Ronan greifa og de Legeneste greifa og á hæla þeirra kom Savary. Tyrkneski þjónninn kom, og byrj- aði með aðstoð ungs þræls að búa til kaffi, en yfirmennirnir komu sér þægilega fyrir á hægindunum. — Má bjóða yður kaffi, Madame? spurði Monsieur de la Brassardi- ére. — Ég veit það ekki. Líklega ætti ég að venja mig á Það. — Þegar þér eruð orðin vön þvi, getið þér ekki verið án þess. — Kaffið er nauðsynlegt til að halda maganum á sínum stað, sagði Savary. — Múhameðstrúarmenn elska Það, ekki svo mjög vegna lækningamáttar þess, heldur vegna hins, að Gabríel erkiengill fann það upp til þess að auka mátt hins mikla Múhameðs, eftir Því sem arfsögnin segir. Spámaðurinn sagði sjálfur, að þegar hann hefði fengið kaffið sitt, væri honum ekkert að vanbúnaði að afvopna fjörutíu menn og fullnægja fjörutíu konum. — Þá skulum við fá okkur kaffi! hrópaði Vivonne glaðlega og leit ástheitu augnaráði á Angelique. Þessir hraustu ungu menn störðu á hana án þess að reyna að dylja aðdáun sína. Og hún var dáfögur í fölbláa kjólnum, sem undirstrikaði gullinn hörundslit hennar, sem hafði tekið á sig enn ferskari blæ af sjávarloftinu, og ljóst hárið. Með þokkafullu brosi þakkaði hún þá aðdáun, sem mennirnir sýndu henni með augnatillitum sínum. — Ég man að ég fékk svona kaffi hjá Baktiari Bey, persneska am- bassadornum, sagði hún. Ungi þrællinn dreifði damaskservíettum, brydduðum með gulli. Tyrk- inn hellti kaffi í bolla úr fínu postulíni og litli svertinginn kom á eftir honum með tvo silfurdiska. Á öðrum þeirra voru klumpar af hvitum sykri, og á hinum ómalaðar kardimommur. —• Fáið yður sykur, stakk la Brossardiére upp á. — Malið ofboðlítið af kardimommum saman við, sagði Saint-Ronan. — Drekkið það mjög hægt, en látið það ekki verða kalt. Framhald á bls. 44. VIKAN 12. tbl.

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.