Vikan


Vikan - 20.07.1967, Blaðsíða 31

Vikan - 20.07.1967, Blaðsíða 31
Málinu var lokið. En það lá við, að allt byrjaði á nýjan leik, þegar lítil hnellin vera með græna húfu, þaut að Monsieur Baumier með lurk og hrópaði: ■— Þú ert ljótur .... þú ert ijótur! Ég skal drepa þig. Það var Honorine, sem allir höfðu gleymt, sem ákvað nú að skerast í leikinn. Hún sneri sér beint að þeim manni, sem hafði valdið öllum þessum brösum og gauragangi. Hann var hinn illi andi, það var hann, sem hafði hin illu áhrif á allan söfnuðinn. Það var hann, sem átti að hverfa. Það hafði tekið hana nokkurn tíma að ná lurki, sem hún réði við, úr eldiviðargeymslunni við arininn. Baumier heppnaðist að bera af sér og víkja sér undan höggunum, sem þessi herskáa, litla tveggja ára stúlka hugðist greiða honum. Monsieur de Bardagne þekkti, að þetta var litla dóttir Angelique, og hló. — Ah, þetta er fallegt barn. —■ Finnst yður það? urraði undirmaður hans. — Og ætlið þér að láta það viðgangast, að þessi villutrúarkrói sýni mér lítilsvirðingu? — Þér hafið rangt fyrir yður, kæri vinur. Þetta barn hefur verið réttilega skirt til kirkju vorrar heilögu móður. Hann brosti og benti íbygginn á hana. — Komið, Maitre Baumier, ég verð að segja yður frá ýmsu, sem farið hefur framhjá nærsýnum augum yðar........ Angelique flýtti sér að þrífa dóttur sína með annarri hendi og Laurier með hinni og flýja fram i eldhúsið. Honorine var bálreið og lét illa. Henni fannst hún hafa verið þolinmóð nógu lengi þennan dag, þegar hinir fullorðnu höfðu ekki sýnt henni meiri athygli en köttunum i húsinu. Hún hafði meira segja geta sullað upp úr heilli vatnsfötu, án þess að nokkur segði nokkuð; hún hafði heilt úr heilli skál af mjólk, þegai' hún var að reyna að gefa kettinum; og loks góflað í sig hálfa krús af sultu. Fullorðna fóikið hafði haldið áfram að horfa hvað á annað, án þess að brosa, og tala hátiðlega saman; svo var það að syngja við og við. Móðir hennar hvarf og Honorine fór að líða hálf- illa. Hún íór upp til að sjá fullorðna fólkið og vita hvað það var að gera. Baumier fór illilega i taugarnar á henni frá þeirri stundu, sem hann tók tóbaksdósirnar upp úr vasanum, fékk sér ærlega i nefið og hnerraði kröftuglega. Þvílík hegðun fannst henni það ijótasta, sem hún hafði séð, og það var þá, sem hún ákvað að ryðja þessum árásaraðila úr vegi. — Eg ætla að drepa hann, endurtók hún ofsafengin. Meðan Angelique reyndi að róa dóttur sina, veitti hún þvi athygli, að hún var smurð sultu eyrnanna á milli. 1 sama, bili tók Laurier að kasta upp af æsingnum. Hann hafði orðið dauðhræddur, án þess að gera sér fyllilega grein fyrir skelfingunni, sem ýfir vofði. Angelique hreinsaði bæði börnin, fyllti stóra ketilinn af fersku vatni og hengdi hann yfir eldinn. Svo kveikti hún upp. Það yrði senniiega ekki vanþörf á, að fólkið gæti þvegið sér. Séverino kom inn ásamt Madame Önnu. Hún sagði æst: — Og hvað þá, Anna frænka? Þeir hefðu dregið hann fram og aftur um borgina. — Já, stúlka min, lýðurinn hefði fengið að svívirða hann og skyrpa á hann og ata hann auri .... — Er til nokkurs að iýsa því, úr því að það kemur aldrei til með að eiga sér stað? spurði Angelique hörkulega. Allt i einu náfölnaði Séverine og rann út af stólnum. Angelique gat rétt gripið hana, áður en hún skall í gólfið og bar hana inn í her- bergið hennar. Hún tók af henni skóna og lagði hana niður. Hendur Séverine voru eins og ís. Angelique fór atfur fram í eldhúsið og tók hitaflösku, sem hún fyllti af vatninu, sem nú var farið að sjóða. Hún hitaði líka hitapönnu. Anna frænka sagðist vera undrandi yfir Séverine, hún hafði alltaf verið heilsuhraust og frísk, en ekki seint og snemma í heimskulegum yfirliðum. — Og ég er undrandi á undrun þinni, svaraði Angelique. -— Þú ert kona, þegar allt kemur t.il alls, og ættir að gera þér ljóst, að Séverine er tólf ára, og þá er ekki óeðlilegt að eitthvað geti hent þessu líkt. Madame Anna var stórhneyksluð. Það var enginn vafi á því, að þess- ar pápistakonur kunnu ekki snefil af siðsemi. Angelique setti fleiri kodda undir höfuð Séverine og gekk frá hita- flöskunni undir sænginni hjá henni. Svo sneri hún aftur til að sækja hitapönnuna og loks litla flösku af ilmvatni og nokkra hvita flauels- borða, sem hún hafði keypt. Hún settist á rúmstokkinn og skipti hári stúlkunnar í miðju með fimum fingrum, fléttaði það í tvær fléttur og batt borðana um end- ana. — Svona, nú geturðu hvílt þig betur. Hún hristi nokkra dropa af ilmvatni í vatnsfat og néri enni Séverine og gagnaugun með lófunum. Séverine reyndi ekki að hindra hana; í huga hennar skiptist á gremja yfir því að hafa verið svona veikluð, og vellíðan nú þegar óþægindin voru að hverfa aftur. — Anna frænka verður óánægð, hvislaði hún. — Hversvegna? — Hún verður aldrei veik. Hún segir, að við verðum að krossfesta holdið. — Þarna er ykkur rétt lýst. Holdið gætir þess örugglega, að kross- festa okkur, án þess að við þurfum að hvetja það til þess, svaraði Angelique og hló. Allt i einu breyttist andlit Séverine, þar sem hún lá á koddunum. Bláleit augnalokin endurspegluðu ómeðvitaða þrá, og í gegnum ófríða, barnslega andlitsdrættina mátti greina andlit konu. Augu hennar urðu dökk eins og nóttin, og það var hægt að sjá fyrir um það, að munnur hennar, sem i rauninni var of stór, myndi með tímanum verða afar nautnalegur. Séverine var hörð og miskunnarlaus, miklu harðari en bræður henn- ar, en hún myndi ekki komast undan lilutskipti sins kyns. Hún myndi einnig, eins og aðrar, þegar hennar tími kæmi, hvíla í fangi karlmanns, með þennan sama velsældarsvip á andlitinu. Hún, eins og aðrar, myndi beygja sig undir ástina. Angelique iijalaði biiðlega og örvandi við hana, eins og móðir henn- ar hafði einu sinni gert. En litur var aftur tekinn að færast í kinnar Séverine og augun að skjóta gneistum. Hún hafði alltaf haft andstyggð á því að vera stúlka, milli bræðranna tveggja, Martials, sem hún dáð- ist að, og Lauriers, sem hún öfundaði af því að hann var strákur. — Ég vil ekki verða kona, tilkynnti hún hörkulega. — Það er hræði- legt og auðmýkjandi. — En sú hugmynd! Ég er kona lika, og sýnist þér ég búa við hræði- leg kjör? — Nei, það er annað með þig, sagði Séverine. — Til að byrja með ertu alltaf hlæjandi .... og svo ertu falleg líka. — En þú verður líka mjög falleg. — Ónei, það vil ég ekki. Anna frænka segir, að fagrar konur leiði karlmennina i freistni og komi þeim til að drýgja syndir, sem eru and- styggð í augum guðs. Einu sinni enn gat Angelique ekki varizt hlátri. —• Trúðu mér, karlmennirnir drýgja þær syndir, sem þeir vilja. Hversvegna ætti kvenleg fegurð að vera gildra fremur en lofsöngur til skaparans? — Þú talar hættulega, sagði Séverine og endurómaði rödd og orða- vel Madame Önnu. En hún var að geispa og augun að lokast. Angelique breiddi ofan á hana og fór. Hún gladdist af að sjá stúlk- una brosa eins og hamingjusamt barn, eins og Laurier var nú einnig farinn að gera upp á siðkastið. 35. KAFLI Nokkrum dögum seinna lagði Marital af stað um nótt á hollenzku skipi, en konunglegi flotinn stöðvaði skipið og rannsakaði það við eyj- una Ré. Ungi farþeginn var handtekinn og fluttur aftur til sama lands, þar sem hann var síðan lokaður inn í íangelsinu Fort Louis. Fréttin barst með eldingarhraða. — Sonur Maitre Berne í fangelsi. Af einni fremstu fjölskyldunni i La Rochelle! Merkilegt, að hún skyldi verða fyrij þessari auðmýkingu. Maitre Berne lagði þegar í stað af stað til að fá að vita um Monsieur Bardagne, en heppnaðist ekki að ná fundi hans þann morgun. Hinsvegar lánaðist honum að finna hinn flissandi og meinfýsna Baumier, en að því loknu gekk hann til fundar við Manigault. Afgangurinn af degin- um fór í það að hitta einn eftir annan, alltaf í von um að næsta við- tal kynni að hafa eitthvað jákvætt í för með sér. Þegar Gabriel Berne kom heim um kvöldið, var hann örmagna og föiur. Angelique vogaði sér ekki að segja honum, að það hefði farið langur timi í það hjá henni, síðari hluta dagsins, að deila við skattheimtumennina frá Charentes, sem voru komnir til að sækja afborgun númer tvö af skattinum, sem Berne bar að greiða, sem mótmælendakaupmanni. Sjaldan er ein bár- an stök. Maitre Berne skýrði frá þvi, að hann hefði hitt Nicholas de Bardagne, en honum til undrunar hefði Bardagne verið ákaflega vantrúaður á, að nokkuð væri hægt að gera. De Bardagne hafði fullvissað hann um, að sá glæpur að fiýja konungdæmið, varðaði við herlög, og væri hægt að fara með málið samkvæmt því, og minnti á mótmælaendann, sem hengdur var á staðnum, þegar hann var staðinn að verki, er hann var að reyna að komast til Genfar. Að fara til Hollands var næstum jafn slæmt. Monsieur de Bardagne þurfti að velta málinu fyrir sér með tiliiti til hárrar, þjóðfélagslegrar stöðu drengsins. Hann sagði að málið væri afar erfitt og viðkvæmt. Þetta var hræðilegt kvöld hjá mótmælendum. Óttinn kom í stað hneykslunar og smánar. Monsieur Carrére minnti á það, dapur í bragði, að mótmælendabörn, sem tekin hefðu verið höndum undir svipuðum kringumstæðum, hefðu jafnvel verið send til óþekkt ákvörðunarstaðar og almannarómur sagði, að þau hefðu verið notuð fyrir galeiðuþræla á skipum konungsins, jafnvel hin sterkbyggð- ustu entust ekki iengur en árið .... 1 tvo heila daga vanrækti Maitre Gabriel að öllu verzlun sína, og var á eilífum hlaupum út og suður til að frelsa son sinn, eða að minnsta kosti fá að hitta hann. Á þriðja degi þar frá, fór Séverine í sinn venjulega lútutíma til gamallar piparmeyjar, sem átti heima í nágrenninu. Hún var ekki komin aftur um hádegisbil. Skömmu síðar kom sendiboði til Monsieur Berne og tilkynnti, að hún hefði verið tekin höndum vegna „meintra helgispjalla" og flutt til Ursuline klaustursins. Andrúmsloftið á heim- ilinu varð líkast martröð. Angelique kom ekki blundur á brá þessa nótt. Næsta morgun fól hún Laurier og Honorine litlu i umsjá Rebeccu gömlu og fór til dómhúss- ins, þar sem hún bað með ákveðinni röddu um að fá að hitta liðsfor- ingja konungsins, de Bardagne greifa. öll réttindi áskilin, Opera Mundi, París. Framhald í næsta blaði. 29. tbi. VIKAN 31

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.