Menntamál - 01.06.1940, Blaðsíða 5
MENNTAMÁL
3
falli hans. í raun og veru hefur hún ekkert misst. Hitt má
frekar segja með miklum sanni, að nú hafi þjóðin eignast
Einar Benediktsson. Hann var fyrir löngu hættur að yrkja,
en við fráfall hans vaknar þjóðin, sem af draumi við þá
hamingjusömu hugsun, mitt í hverfulleika mannlífsins, að
hún er auðug af þeim verðmætum, sem aldrei verða frá
henni tekin, að hún er hamingjusöm þjóð fyrir að hafa
átt Einar Benediktsson, og borin til mikils og veglegs arfs.
Þess verður vart á síðustu tímum, að það fer að þykja
vöntun í menningu íslendingsins, ef hann þekkir ekki brot
af Einari Benediktssyni. Ég hef veitt því athygli, að á þess-
um vetri, sem nú er að líða, hafa óvenjulega margir ræðu-
menn og fyrirlesarar sótt tilvitnanir í Einar Benediktsson.
Ekki er rétt að reikna slíkt sem fordild, þó að það geti
stundum orðið tizka að vitna til stórra manna, án mikils
skilnings. Hitt mun sannara, að fleiri og fleiri hugsandi
menn dragist að Einari Benediktssyni og finni þar, ef til
vill í fyrsta sinn, voldugt vængjablak í andans heimi. Það
hlaut að fara svo, að hann drægi þjóðina til sín. Hann
fór eigin ferða út af alfaraleiðum og hirti ekki um sam-
fylgd annarra. Hann kaus að vera í einrúmi; einveran var
honum fyrsta skilyrði til þess að móta hið dýra gull andans.
Og þessa einveru skapaði hann sér á hinum ólíklegustu
stöðum, stundum ef til vill í glymjandi þysi stórborgar úti
í heimi. Og á þessum stóru stundum varð Einar Benedikts-
son segull, sem dró að sér voldugar, víðfeðmnar hugsanir,
kjarna andlegra hreyfinga í nútíð og fortíð og yndisleika
og vísdóm hinnar eilífu gróandi.
Og margt af þessu tjáði hann í ljóðum sínum á svo
óvenjulega fullkominn hátt, að manni verður á að láta sér
detta í hug, að hann hafi legið undir húðfeldi, og hugsað
þar hverja ljóðlínu í dægur þrjú, áður en hann felldi hana
í kvæðið.
Tökum þessu til dæmis kvæðið „Hafís". Þar lýsir hann
1»