Menntamál - 01.08.1942, Blaðsíða 49
MENNTAMAL
39
en að kunna allar sínar bækur utan að, þótt það sé engan
veginn lítilsvert.
í öllum skólum og bekkjum eru börn, sem erfitt er við
að eiga, vegna allskonar óreglusemi, og eiga heimilin þar
venjulega sökina, en ég ætla, að 99 af hverjum 100 börnum
megi venja til reglusemi og skyldurækni í skólanum, ef nógu
snemma er byrjað og skólanum og kennaranum er alvara
með að boðum hans og reglum sé hlýtt. Það getur verið,
að einu barni af hverju hundraði sé ekki hægt að hjálpa,
en það er þá venjulega frá einhverju vandræðaheimili.
En nú munu einhverjir spyrja: Hvað á að gera við börn,
sem ekki gera skyldu sína? Hvernig á að venja börn af
óreglusemi? Þótt ég geri þetta að umtalsefni hér til íhug-
unar fyrir okkur öll, þá fer því fjarri, að ég telji mig geta
kennt öðrum í því efni, enda held ég, að þarna verði tæp-
ast gefin nokkur óyggjandi ráðlegging. En ég vil í þessu
sambandi aðeins láta í ljósi þá skoðun, að það á aldrei
að láta nokkra vanrækslu eða nokkurt brot á lögum skól-
ans eða bekkjarins fara þegjandi framhjá sér. Kennarinn
þarf ætíð að láta barnið, sem brotið fremur, vita, að hann
hefur tekið eftir því, hin þegjandi undanlátssemi og af-
skiptaleysi er fyrsta skrefið niður þá brekku, sem ef til
vill verður ekki numið staðar í. En við hinu er þó jafn
framt skylt að vara: Að þreyta börn þessi ekki með stöð-
ugum áminningum og nöldri, og enn síður skyldi beita
hörku og refsingum nema um alvarlegri brot sé að ræða.
Langoftast duga þarna vingjarnlegar bendingar, samtal
við foreldrana eða fáeinar línur til þeirra. En þegar svo
líður heill vetur eða jafnvel mörg skólaár, án þess að úr
þessu rætist, þá er annað tveggja: Barnið, og heimili þess,
er óvenjulega slæmt, eða skólinn hefur ekki gert skyldu
sína í þessu efni.
Það virðist í fljótu bragði ákaflega réttmæt refsing, að
láta barn, sem vanrækir að læra, sitja eftir, sem kallað er
og læra fræði sín í skólanum eftir að hin börnin eru farin