Menntamál - 01.09.1945, Blaðsíða 7
MENNTAMÁL
117
ræna snertingu við alþjóðlegar uppeldisstefnur, og þegar
heim kom, fannst honum, að flest þyrfti að færast úr
skorðum í skólamálum hér, endurnýjast og breytast í betra
horf. Fyrst og fremst fannst honum þurfa átak til þess
að leysa skólana úr gömlum viðjum, leiða nemendur og
kennara út af hinum gömlu troðningum, sem hver og einn
gat þrætt blindandi, — og leggja síðan á brattann, þar
sem víðari útsýn fékkst yfir umhverfið. En til þess þurfti
frelsi. Og hamingja frelsisins innan skólans fólst í því,
að nemandi og kennari væru í samvinnu að uppgötva eitt-
hvað nýtt og óvænt og dásamlegt í sambandi við verkefni
hvers einstaklings á hverjum degi. Sverð valdboðsins mátti
slíðra, því að nemandinn hlýddi orðlausri rödd sinnar eigin
lífsstefnu, sem markaðist af vali á fjölbreyttum og fagn-
aðarríkum viðfangsefnum. Þessar hugsjónir hóf Sigurður
að innleiða við komu sína í íslenzkt skólalíf. En vegna
þessarar stefnu risu gegn honum og skóla hans óvildar-
öldur og léku þá um hann kaldir straumar, bæði utan
skólans og innan. Og kynlegt má það kallast, að þeir menn,
sem kröfðust athafnafrelsis og olnbogarúms í atvinnumál-
um eða á verzlunar- og viðskiptasviðinu og í hinu svokall-
aða stjórnmálalífi, skyldu snúast grimmilegast gegn at-
hafnafrelsi í skólunum. Steðjuðu þá margir örð.ugleikar
að Sigurði og heimili hans. Hann var þá eigi heilsuhraust-
ur og skólinn í umsátri árum saman.
Reyndar stóð Sigurður aldrei einn, fjarri fór því.
Margir starfsfélagar hans unnu í anda hinnar nýrri stefnu
og fengu nokkru áorkað, hverju sem fram fór um gagn-
rýni þeirra, er andhverfir snerust. Smám saman fór svo,
að andstaðan bældist og viðurkenning kom úr ýmsum átt-
um. Nemendur Kennaraskólans voru þá ár eftir ár leiddir
inn í kennslustofur Austurbæjarskólans til þess að kynn-
ast vinnubrögðum þar. Þeir báru svo með sér áhrifin út á
landsbyggðina, er þeir tóku sjálfir til starfa við skólana.
Þeir höfðu séð börn við persónulegar rannsóknir, þar sem