Menntamál - 01.12.1948, Blaðsíða 4
110
MENNTAMÁL
Það ár útskrifuðust þar fimm fyrstu kennaraefnin að
loknu námsskeiði um vorið. Kennaranám í Flensborg var
eins vetrar nám í sambandi við gagnfræðanámið.
Það er fyrst með stofnun kennaraskólans 1908, að kenn-
aramenntun fer fram í sérstakri og sjálfstæðri stofnun,
sem henni er helguð að öllu leyti.
Saga þeirrar stofnunar verður ekki rakin hér nema að
örlitlu leyti. Ég slæ því á frest þangað til skólinn verður
fimmtugur og eftirlæt það þeim, sem þá lifa og fyrir
honum ráða. Og ég geri það í þeirri von og í þeirri trú,
að kennaraskólinn verði þess þá um kominn að bjóða til
sín góðum gestum svo sem eldri nemendum og kennurum
í ný og betri og fullkomnari húsakynni en þau, sem við
nú höfum.
En þó að öllu slíku sé sleppt að þessu sinni, get ég ekki
látið hjá líða að minnast nokkurra atriða úr sögu skólans
á þessum tímamótum.
Fjörutíu ár er ekki langur tími í sögu þeirrar stofnunar,
sem eðlilegt er að hugsa sér, að standa muni öldum saman.
En fjörutíu fyrstu árin eru merkilegur tími, tími mótunar
og þroskunar, og lengi býr að fyrstu gerð.
Fyrstu hýbýlum skólans þarf ég ekki að lýsa, þau höf-
um við enn hér fyrir augum, að vísu nokkuð breytt og bætt
og sjálfsögðum þægindum við aukið, sem sum hver voru
ekki til, þegar skólinn var reistur. En í öllum aðalatriðum
eru þau hin sömu, og enn vantar margt það, sem kvartað
var undan þegar í vígsluræðu skólans, svo sem æfinga-
skóla og fimleikahús. Og engin von er til, að úr því verði
bætt héðan af, fyrr en nýr kennaraskóli rís af grunni.
Því verður ekki neitað, sem oft hefur verið á minnzt, að
kennaraskólinn var í upphafi reistur af litlum efnum og
í flestu til sparað. Hins hefur sjaldnar getið verið, að eftir
fé því, sem úr var að spila, 80,000 kr., mun skólahúsið og
allur útbúnaður þess hafa verið svo vel úr garði gert, sem
frekast varð til ætlazt.