Menntamál


Menntamál - 01.08.1972, Blaðsíða 41

Menntamál - 01.08.1972, Blaðsíða 41
þau segist horfa mikið á sjónvarp. Ég komst að þessari niðurstöðu í rannsókn, sem ég gerði meðal 10—14 ára barna fyrir þremur árum. Hún vekur óhjákvæmilega spurningu um hvort um sé að ræða beint orsakasam- hengi milli óhóflegrar sjónvarpsnotkunar og lélegra ein- kunna. Það má ugglaust finna dæmi um slíkt orsaka- samband, en ég tel að meginskýringarinnar sé að leita annars staðar og þá ekki sízt í félagslegu umhverfi barnsins. Erlendar rannsóknir hafa leitt í Ijós, að for- dæmi og umhyggja foreldranna, ásamt ýmsum öðrum atriðum, býr að baki bæði skólaframmistöðunni og sjón- varpsnotkuninni. Með öðrum orðum, börn, sem horfa mjög mikið á sjónvarp og standa sig illa í skóla, hefðu að öllum líkindum ekki staðið sig betur þótt þau hefði ekki haft sjónvarp. Sá tími, sem þau eyða í sjónvarpið, er ekki tekinn frá náminu, heldur frá bíóferðum, hasar- blaðalestri og iðjuleysi, svo dæmi séu tekin. Þar sem rannsóknir hafa spannað mjög marga aldurs- flokka barna, hefur tekizt að sýna fram á, að sjónvarps- notkun stendur í breytilegu sambandi við greind barn- anna. f yngri aldursflokkum eru það greindari börnin, sem horfa hlutfallslega meira en verr gefnir jafnaldrar þeirra, en þegar ofar dregur í aldursflokka, snýst þetta við, og þá eru það hin verr gefnu, sem horfa meira. Skýringin, sem er gefin á þessu, er sú, að greindari börnin nái fyrr en hin því þroskastigi, sem nauðsynlegt sé til að fylgjast að gagni með efni sjónvarpsins, en vaxi síðan upp úr því og leiti á önnur mið á sama tíma og hinir verr gefnu jafnaldrar þeirra eru komnir á sjónvarps- stigið. Þessari tilgátu er erfitt að gefa almennt gildi, meðal annars vegna þess, að hið síbreytilega efni sjón- varpsins gerir samanburð erfiðan. Til þess að gera sér grein fyrir uppeldisáhrifum sjón- varps er nauðsynlegt að vita, hvaða efni börnin sækjast helzt eftir að sjá í sjónvarpinu. Rannsókn mín leiddi í Ijós, að af einstökum þáttum voru tveir glæpaþættir og fréttatíminn vinsælasta efni. Ef við athugum fréttirnar nánar, þá er enginn vafi á því, að þær hafa mikil áhrif í þá átt að hækka almennt þekkingarstig barnanna. Sá samanburður, sem ég gat gert, benli til þess, að börn, sem höfðu aðgang að sjónvarpi, væru betur að sér um nýjustu viðburði, en börn, sem aðeins höfðu aðgang að Qömlu miðlunum. Þess er þó að geta, að spurningar mínar lutu að takmörkuðu sviði, og æskilegt væri að geta gert ítarlegri könnun á þessu efni. Glæpaþættirnir tveir, sem nutu svo mikilla vinsælda, voru Dýrlingurinn og Harðjaxlinn. Þessir þættir, og aðrir, sem hafa tekið við af þeim, eru mjög oft byggðir upp i kring um ofbeldisverk af einhverju tagi. Það sem ég tel sérstaklega mikilvægt í því sambandi er, að ofbeldis- verkin eru ekki einungis unnin af illmennum og glæpa- mönnum, heldur eru þau einnig sýnd sem nauðsynlegur °g sjálfsagður liður í aðgerðum hetjunnar til að full- r-ægja réttlætinu. Með því að sýna þetta efni ahhuga- semdalaust má með nokkrum rétti segja, að fjölmiðill- inn leggi blessun sína yfir atferli, sem barninu mun aldrei haldast uppi að taka til fyrirmyndar í raunveru- leikanum. Þannig má leiða líkur að því, að sumt sjónvarpsefni geti haft skaðvænleg áhrif á börn. En það hefur ekki reynzt auðvelt að finna sannanir fyrir þessu. Ein merk- asta rannsókn, sem hefur verið gerð á skiptum barna við sjónvarp, sú sem Himmelweit framkvæmdi í Eng- landi, leiddi til eftirfarandi niðurstöðu: Sjónvarpsþættir með ofbeldiskenndu efni hafa ef til vill ekki áhrif á börn með trausta skapgerð, en þeir kunna að hafa áhrif á þau 5—10 prósent barna, sem eru tilfinningalega veik fyrir. Ég vildi geta látið í Ijós ákveðnar skoðanir á því, hvaða efni börnum skuli leyft að sjá og hvað ekki. En eins og ég hef þegar bent á, velta áhrifin svo mjög á barninu sjálfu, en einnig á kringumstæðunum, t. d. með hverjum það horfir á sjónvarpið, að ég tel ómögulegt að stinga upp á ákveðnum reglum. Óhugnanlegt efni sést reyndar víðar en i glæpaþátt- um. Naumast líður sá dagur, að ekki sé skýrt í fréttum frá náttúruhamförum eða styrjaldaraðgerðum, sem kosta fjölda manns lífið. Þegar um er að ræða glæpaþætti geta foreldrarnir mildað mjög áhrifin með því að út- skýra fyrir börnunum, að þetta sé aðeins leikur og ein- staklingarnir, sem eru skotnir eða slegnir, meiði sig ekkert í raun og veru. Slíkar aðferðir duga hins vegar skammt gagnvart fréttunum. Ekki dettur mér samt í hug að leggja til, að börnum verði meinað að horfa á fréttir. Ég vil aðeins benda á, að þær geta gefið tilefni til út- skýringa ekki síður en annað sjónvarpsefni. Ég hef nú rætt talsvert um ofbeldi í sjónvarpi. Þetta geri ég ekki vegna þess, að ég telji íslenzka sjónvarpið sérstaklega illa á vegi statt í þessu efni, heldur aðeins vegna þess, að slíkt efni, þótt það sé ekki stór þáttur að magni til af dagskránni, er mjög vinsælt, en jafnframt það sem einna mest skýtur skökku við þau viðhorf, sem börnunum eru innrætt á heimilum þeirra. Ef við lltum í staðinn á efni sjónvarps almennt, ekki aðeins á íslandi, heldur einnig I öðrum löndum, þá er það augljóslega stéttbundið að vissu marki. Þ. e. a. s. það efni, sem þar birtist, er yfirleitt samið af millistéttar- fólki og fjallar um millistéttarfólk. Þessi staðreynd skipt- ir töluverðu máli fyrir uppeldisáhrif tækisins. Efni, sem er harla eðlilegt og venjulegt fyrir eitt barn, getur verið mjög framandi fyrir annað barn. Sjónvarpið getur þvi opnað nýja heima fyrir börnunum, ekki aðeins land- fræðilega, heldur einnig félagslega. Afleiðingin af þessu kom fram í rannsókn minni á þann veg, að drengir, sem bjuggu á sjónvarpssvæði, reyndust hafa metnaðarfyllri drauma um framtíðarstarf sitt en drengir, sem voru án sjónvarps. Þegar þeir voru spurðir, hvaðan þeir hefðu fengið hugmyndina að starfinu, nefndu þeir sjónvarpið það oft, að mjög sterkar llkur benda til, að það hafi haft bein áhrif á starfsóskirnar. MENNTAMÁL 179

x

Menntamál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Menntamál
https://timarit.is/publication/376

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.