Heima er bezt - 01.08.1974, Blaðsíða 22
allmikið eftir stórhríðarnar undanfarið, stórir skaflar,
en rifið af á milli. Þegar við komum nokkuð vestur
fyrir túngarð í Höfn, um það bil er síðar var byggt
grasbýlið Lindarbrekka, lagði Valdimar af sér byrðina,
°g opnaði poka sinn, sem reyndist hafa að geyma þrjár
vínflöskur í strámottuhulstrum. Hann tók tappann úr
einni þeirra, og fékk sér góðan teig. Hann bauð mér
að smakka á, og ég drap í það tungu. Hann spurði
hversu mér líkaði bragðið, og lét ég vel yfir að það væri
bara gott. Hann sagði það ekki vera eins með sig. Sér
þætti vínbragðið alltaf vont, fyrst í stað, og þó langaði
sig alltaf í þetta, því áhrifin væri svo dásamleg, og þess-
vegna hálf neyddi hann þessu ofan í sig, til að byrja
með. Hann vissi vel og skildi, að áfengisneyslan væri
sinn mikli löstur og óhamingja, og hann vildi ráðleggja
mér og öðrum ungum mönnum, að forðast víndrykkju,
því þar væri hægara í að komast en úr að sleppa. Jón
gamli í Höfn vissi hvað hann söng, þegar hann sagði
mér, að einhver mundi fljótlega koma frá Bakka. Það
mun hafa verið venja, eftir komu strandferðaskipsins.
Brennivín var þá enn algeng söluvara í verslunum.
Valdimar hreppstjóri var vel gefinn maður og mikið
góðmenni, en nokkuð vínhneigður. Hann varð ekki
gamall maður. Um kvöldið, nokkru eftir að við Valdi-
mar höfðum náð húsum á Bakka, kom þar annar gestur,
sem þá var lítið þekktur utan sinnar heimasveitar, en
varð síðar á ævinni þjóðkunnur, og meira metinn en
hann sjálfur taldi sér hæfa. Þetta var unglingspiltur frá
Miðfjarðarnes-Seli þá, og hét Magnús Stefánsson, en
tók sér síðar skáld-heitið Örn Arnarson, og er þekktast-
ur hjá þjóð sinni undir því nafni. Hann var í vinfengi
við unga fólkið á Bakka, börn Valdimars og Þorbjargar,
og var nú að koma í heimsókn eftir nokkurra mánaða
burtveru úr sveitinni, en hann var við nám í unglinga-
skóla Magnúsar á Grund í Eyjafirði um veturinn. Hann
hafði náð heim í góðu tíðinni fyrir sumarmálin, rétt
áður en áfellið hófst, sem áður er lýst. Það var góður
gleðskapur þarna á Bakka, meðal unga fólksins, og við
Magnús sátum þarna í góðu yfirlæti tvær nætur og dag-
inn á milli þeirra og leiddist ekki. Eftir hádegið næsta
dag, lögðum við Magnús af stað frá Bakka, norður
Ströndina, og lagði Magnús á bak sér fatapoka minn.
Magnús réði ferðinni, sem mér eldri og reyndari mað-
ur, og þræddum við sem mest sjávarbakkana, því þar
var meira blásið af en annarsstaðar, og því léttari færð.
Þó urðu á vegi okkar margir svo stórir skaflar, að við
botnuðum þá ekki og urðum að slcríða á fjórum yfir
þá. Við vorum, að mig minnir, um 7 klukkustundir á
leiðinni norður að Seli, og komum þó hvergi við til að
hvíla okkur, og mun þetta þó vart vera mikið yfir 15
km vegalengd. £g gisti í Seli um nóttina og daginn eftir,
annan miðvikudag í sumri, fylgdi Þórarinn Árnason
bóndi í Seli mér inn í Kverkártungu. Var ég þá heilu
og höldnu kominn og vel móttekinn í foreldrahús, eftir
12 daga ferð frá Ljótsstöðum í Vopnafirði og eftir minn
fyrsta fjarvistarvetur þaðan.
Þegar Loðmfirðingar . . .
Framhald af bls. 281 ------------------------------
maðurinn mun hafa fengið hausinn, að öðru leyti en
því, að Árni fékk tennurnar. Þess má geta, að Árni átti
tennurnar nokkur ár, en mun svo hafa selt þær til Seyðis-
fjarðar fyrir 15 krónur! En tennurnar eru taldar eitt af
því verðmætasta af rostungnum. Eru margir listmunir
og skrautmunir gerðir úr rostungstönnum, engu síður
en úr fílstönnum.
Eins og að líkum lætur, þar sem um Svo afar fágæta
skepnu var að ræða, vissu menn ekki almennilega,
hvernig bezt væri að hagnýta sér hana. Var því upp-
lýsinga um það leitað til Seyðisfjarðar. Varð árangur
þeirra upplýsinga, sem þar fengust til þess, að sumt af
kjötinu var saltað, sumt reykt, en hreifarnir voru settir
í sýru og þóttu mjög góður matur, þegar þeir, vel súrir
voru bornir á borð, aðeins feitari en selshreifar, sem
enn í dag eru víða verkaðir á sama hátt.
Húðin af rostungnum var að mestu notuð í skó. En
þar sem hún var svona þykk, varð að kljúfa hana með
því að sltera holdrosuna burtu, og var henni víst fleygt
að mestu. Skórnir þóttu sérstaklega endingargóðir.
VI.
Það munu nú vera nokkrir tugir ára síðan rostungur
hefur veiðst hér á landi.
Fyrr á öldum mun hafa verið talsvert af honum hér.
En á síðari árum hefur verið svo stórkostlega herjað á
þennan sérstæða risa norðursins, að fágætt er, að hann
sjáist nálægt landinu.
Það voru aðallega vígtennturnar tvær, sem lokkaði
menn til að veiða hann, þar sem þær hafa alltaf verið
metnar háu verði.
Á þessari öld hafa aðeins örfáir rostungar verið lagðir
að velli hér við land. Það þarf því engan að undra, þó
að ekki þekktu allir slíka skepnu þegar í stað. Auk þess
var fræðsla í almennum skólum ekki komin í fastar
skorður fyrr en nokkru eftir aldamót. Dýrafræðinni
var ekki ætlað mikið rúm í kennsluskránni.
Atburður, sem gerðist fyrir meir en hálfri öld virðist
orðinn harla fjarlægur. Það hefur fyrnt yfir fjöldann
allan af merkum atburðum á styttri tíma en þeim.
Með því að rita niður framanskráða frásögn, hef ég
meðal annars viljað geyma frá glötun minninguna um
risann norðan úr Dumbshafi, sem lagður var að velli
fyrir rúmlega hálfri öld sólbjartan sumardag á klöpp-
unum hjá Neshjáleigu í Loðmundarfirði.
Heimildir: Handrit Halldórs Pálssonar frá Nesi (þ. á. m. frá-
sögn Stefáns Þorsteinssonar); „Heima er bezt“, marz 1960;
„Ævikjör og aldarfar", eftir Óscar Clausen 1949. Ennfremur
kirkjubækur og munnlegar upplýsingar.
286 Herma er bezt