Heima er bezt - 01.08.1974, Blaðsíða 26
DAGURLAGA^tðSsttÓf*
Steingrímur Thorsteinsson hlaut óvanalegar vinsældir
fyrir kvæði sín meðal samferðamanna. Oftar en hitt
hafa skáld ekki fengið almenna viðurkenningu fyrr en
þau eru öll. Skjótar vinsældir Steingríms má að nokkru
rekja til þess að fjöldi ljóða hans barst út um byggðir
landsins undir fallegum lögum, sem sungin voru þar sem
einhver sönggleði ríkti. Ég er ekki í minnsta vafa að
mörg skáldin óskuðu þess að kvæði þeirra flygju út á
vængjum söngsins. A. m. k. harmaði Jónas Hallgríms-
son það á sínum tíma að Dalvísur og Sláttuvísur skyldu
ekki eiga sér „lög til að kveða þess konar vísur undir,
svona komast þær aldrei inn hjá alþýðu,“ skrifar hann
við handrit sitt af kvæðunum. Nú er búið að bæta úr
þessu og Jónas án efa glaður og eftirlifendur enn ánægð-
ari að geta sungið þessar ljóðaperlur. Ég hef heyrt þá
kenningu að ljóðið glati nokkru af inntaki sínu við
söng. Hugboð hef ég um hvað við sé átt; Ijóð sé lesmál
hins kyrra og íhugula hugar og inntak þess hverfi að
nokkru þegar kyrjað sé fullum hálsi undir lagi. Eitthvað
kann að vera til í þessari skoðun, með þeim varnagla þó
að ekki sé sama hvernig sungið er. Samt sem áður vildi
ég óska þess að fleiri lög væru til við urmul fallegra
kvæða, ekki eingöngu góðskáldanna heldur hins stóra
hóps sem snert hefur streng í sálu, kannske með einu
Ijóði af mörgum tilraunum. En ég byrjaði þetta rabb
með því að tala um Steingrím Thorsteinsson og því
ætla ég að uppfylla ósk með kvæði eftir hann við fallegt
lag vesturíslendingsins Steingríms K. Hall. Ljóð þetta
heyrum við stundum sungið sem dúett í útvarpinu af
þeim ágætu söngvurum Jóhanni Konráðssyni og Kristni
Þorsteinssyni.
ÁSTARSÆLA
Ég lék við þinn gull-lokldnn bjarta
og leit inn í augun þín blá!
þar inni með hugföngnu hjarta
minn himnanna himin ég sá.
Ég kom við þinn kafrjóðan vangann,
oss kossinn á vörunum brann;
svo rósblíða ununar angan
ég aldrei í heiminum fann.
En sem þegar smásólir hreinar
í silfur-daggdropunum gljá,
svo spegluðust eilífðir einar
í augnablikunum þá.
Sá sem gerði hvað mest af að útbreiða kvæði Stein-
gríms með fallegum lögum var járnsmiður í Reykja-
vík, sem Jónas Helgason hét (f. 1839, d. 1903). Hann
stundaði iðn sína langt fram eftir ævi jafnhliða músík-
iðkun, en helgaði sig svo söngmálunum algerlega síð-
ari æviárin. Hann gaf út fjölda sönglaga og meira að
segja leiðbeiningar um hvernig beita skyldi röddinni
við söng. Ég hef það eftir fróðum að samstarf þeirra
Stengríms sé ákaflega merkur kafli í íslenskri sönglist-
arsögu, nánast brautryðjendastarf, því alþýða manna
kunni ekki mörg sönglög á þessum árum. En það hvað
Steingrímur átti mörg ljóð í sönglagaheftum Jónasar
olli nokkurri öfund út í Steingrím, sem sakaður var um
að hafa „gengið í komplot eða félag við Jónas Helga-
son“ til að koma ljóðum sínum út svo „þjóðin væri
neydd til“ að lesa þau. Nútímafólk getur auðvitað bros-
að að svona skrafi, því lélegt hlýtur það tóneyra að vera
sem ekki skynjar hvað Ijóð Steingríms eru sérstaklega
vel löguð til söngs. Næsta ljóð er einnig eftir Steingrím.
Þrjú lög eru til við það, tvö eftir íslenska höfunda, Ingi-
björgu Sigurðardóttur og Sigfús Einarsson (í handriti),
en kunnast er þýska lagið sem Jónas Helgason kynnti,
sem mér finnst ákaflega fallegt og hæfa vel ljóði Stein-
gríms, svo engu er líkara en tónskáld og ljóðahöfundur
hafi haft náið samstarf, sem þó auðvitað ekki var.
SVANIRNIR
Hvert svífið þér svanir af ströndu,
með söngvum í bláheiðan geim?
Ég sé það af öllu þið ætlið
í ósýnis fjarlægan heim.
„Vér erum þíns sakleysis svanir,
vor samvista tími nú dvín,
vér förum með klökkvandi kvaki
og komum ei framar til þín“.
Með augunum ykkur ég fylgi,
og alltaf bárust þið fjær
í bláinn með blikandi vængi
og burt dóu sönghljóðin skær.
En síðan við hlust minnar sálar
af söng yðar blítt hefir eimt,
sem heyrði’ ég úr himneskri fjarlægð:
„Vér höfum ei alveg þér gleymt“.
Vor hjörtu þann fögnuð þá fundu,
sem flýðu því miður svo skjótt;
við lifðum á líðandi stundu,
og ljósið varð bráðum að nótt.
Þið kvödduð og komið ei framar
með kliðinn, sem lengst hef ég þreyð,
En, svanir, kemst ég þá til yðar,
ef ómurinn vísar mér leið.
290 Herma er bezt