Heima er bezt - 01.08.1974, Blaðsíða 29

Heima er bezt - 01.08.1974, Blaðsíða 29
ÞORBJÖRG FRÁ BREKKUM TRYGG Ð APANTUR 10. HLUTI En brátt varð henni ljóst, hvert hugur hans stefndi, og varð að viðurkenna, hversu sárt sem það annars var, að pilturinn hennar var orðinn að óskhyggju. Með örvænt- ingarfullu þreki þess, sem finnur sig særðan og niður- beygðan, reif hún sig lausa. „Láttu mig vera,“ hvæsti hún. Rúnar hló hálfkæft og greip hana í fangið aftur. „Hvers vegna?“ spurði hann. „Er kannski skilyrði, að menn séu kvæntir til þess að þú takir þá til athugunar?“ Hönd Katrínar sveiflaðist til og skall á vanga hans. „Góða bezta," sagði hann hálf undrandi, hálf gramur. „Hefur þú efni á að móðgast?“ Hún sneri andlitinu að honum, og augu hennar sögðu: Ég fyrirgef þér aldrei. Rödd hennar sagði styrk, næstum þóttafull: „Ég legg mig ekki niður við að tala við þig, Rúnar Hjálmtýsson.“ Að svo mæltu gekk hún út úr eldhúsinu. En jafnskjótt og hún sneri bakinu í Rúnar, var öll hennar kokhreysti rokin út í veður og vind. Að vera þannig mis- boðið, bæði í orði og verki, af þeim, sem var henni kær- astur allra, gerði hana hrellda og niðurbeygða, svo að hún gat varla tára bundizt. Hún sá þess vegna lítið út úr aug- unmn með þeim afleiðingum, að hún gekk allhastarlega á Skúla, sem kom á móti henni eftir ganginum. „Æ, fyrirgefðu," sagði Katrín angistarlega og reyndi að láta Skúla ekki sjá framan í sig. „Þetta var nú eins mér að kenna,“ sagði Skúli rólega. „Ég datt út af yfir skruddunni, sem ég var að lesa, og er varla vaknaður enn, svo að ég skunda á hvað sem er. Meiddirðu þig annars nokkuð?“ „Nei, nei, það er allt í lagi með mig. Góða nótt,“ flýtti Katrín sér að segja. „Góða nótt,“ anzaði Skúli og gekk til eldhússins. Þar sat Rúnar umvafinn þéttu reykskýi. „Nú, það eru fleiri seinir í háttinn en ég,“ sagði Skúli, en fékk aðeins til baka óskiljanlegt uml. Hann tók sér sæti, dró tóbak og reykjarpípu upp úr vasa sínum og tróð í pípuna með liprum fingrum. Að því búnu bar hann eld að og tottaði pípuna með þeirri ánægju, sem reykinga- maður einn þekkir. En þó að Skúli væri rólegur að sjá, var hugur hans fullur ólgu, sem tárin á hvörmum Katrín- ar höfðu kallað fram. Öðru hverju gaut hann spyrjandi auga til bróður síns, sem sat hinu megin við borðið. Það var hann þessi afbrýðissami þöngulhaus, sem bar ábyrgð- ina á vanlíðan Katrínar og sinnar eigin um leið. Þótt Skúla væri þvert um geð að blanda sér í einkamál annarra, gat hann ekki orða bundizt að þessu sinni. Hann tók pípuna út úr sér og spurði röggsamlega: „Þarftu endilega að koma svona skammarlega fram við Katrínu?“ Rúnar svaraði ekki strax, heldur horfði á bróður sinn, og úr svip hans mátti ráða þrjózkufulla ögrun, sem hann leyndi hugarástandi sínu með. „Veiztu nokkuð, um hvað þú ert að tala?“ spurði hann loks á móti. Skúli sló frá sér annarri hendinni. „Nú, er ekki mergur málsins sá, að Katrín hefur þekkt Vilhjálm, hann klætt þann kunningsskap á sína vísu og þú gleypt við því öllu?“ Rúnar dökknaði í framan. „Hvað veizt þú um það?“ spurði hann aftur, nú sýnu ákafari en áður. Skúli yppti öxlum. „Eiginlega ekki neitt,“ varð hann að játa, „nema það, sem ég hef getið mér til af viðbrögðum ykkar. Katrín varð til dæmis á svipinn eins og hún sæi Kölska gamla koma hægt og sígandi upp úr gólfinu, þegar Vilhjálmur kom og bauð henni upp á ballinu, sællar minningar.“ Rúnar yppti öxlum. „Og það sagði þér ekki neitt?“ „Og jú, en ekki endilega það, sem þú átt við.“ Það lá við, að Rúnari hætti að standa á sama um þessar bjargföstu yfirlýsingar Katrínu í vil, en hann gætti þess að láta ekki á því bera. „Jæja, jæja,“ sagði hann kurteislega. „Ég fer bara að halda, að þú sért dauðhrifinn af henni sjálfur." Skúli skellti í góm. „Við getum sleppt öllum kjánaskap. Væri ég það, er ekkert líklegra en ég væri jafnfullur tortryggni og þú. Ég sé Katý bara í réttu ljósi.“ Heima er bezt 293

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.