Heima er bezt - 01.10.1976, Blaðsíða 18

Heima er bezt - 01.10.1976, Blaðsíða 18
]ón B. Johnson óbyggðum. Þær voru á eyjum, við voga 0g víkur og á útnesjum, allt eftir því hvar veiðifanga var von. Sumar þessar stöðvar þróuðust í fastar verstöðvar eða jafnvel þorp hcr og þar um vatnið. Enginn vafi er á því, að það sem úrslitum réði um nýlenduval á þessari stóru strandlengju, var vonin um björg í bú úr vatninu. Og þeim varð að von sinni. Hinn góði fiskur úr Winnipegvatni varð þess valdandi að hin íslenzka byggð festi rætur og varð að veruleika. Og síðan hafa fiskiveiðar verið eitt aðallifibrauð þeirra og íslendingar verið í fararbroddi í öllum útgerðarmál- um við vatnið. Það má segja að svo til hvert einasta heimili, sem land átti að vatninu, hafi fljótt komist yfir bátskænu og net- stúf, í fyrstu yfirleitt heimaunnið. Menn smíðuðu sér fyrst smápramma, skut- og stefnislausa og sagt er, að margir hafi notað í þessa pramma timbur úr stóru flat- bytningunum, sem fyrstu landnámsmennirnir voru fcrj- aðir á niður Rauðána og út á vatnið, þar sem þeir höfn- uðu svo á Víðinesi. Timbur hefur verið mikið í þessum stóru prömmum og verið notað til margskonar smíða eftir að þeirra hlutverki var lokið. Fljótlega byggðu þeir sér byttur, 12 til 14 feta langa báta, með stefni og flötum skut og tveim þóftum. A þessum bátum voru yfirleitt einn eða tveir menn við veiðar. Seinna komu stærri seglbátar og enn seinna gasknúnir bátar, unz fiski- skipafloti þeirra Ný-lslendinga er nú orðinn mjög ný- tízkulegur og fullkominn í allan máta. A fyrstu frumbýlingsárunum var að vísu um fleiri farkosti að ræða, en hina litlu báta sem landnemarnir smíðuðu sér, því fyrir landnámstíð voru komin til sög- unnar stærri gufuskip, sem héldu uppi áætlunarferðum og ýmissi fyrirgreiðslu til indíánabyggða og útstöðva hér og þar um vatnið. Þessi skip munu hafa verið í um- sjá stærri verzlunarfélaga eða opinberra aðila. T. d. var COLVILLE, sem dró íslendingana inn á víkina við Víðines, haustið 1875, gufuskip. Þessi skip urðu íslend- ingum fljótt til mikilla nota til ýmiskonar flutninga norður á vatnið, til að flytja fiskinn til byggða og til verzlunar og viðskipta á ýmsan hátt. Síðar urðu ýmsir Ný-íslendingar nafntogaðir skipstjórar á sumum þessara skipa. Þrátt fyrir þetta notuðu fiskimennirnir mjög mikið sínar eigin fleytur til flutninga, sem og til allra veiða enda stóru skipin ekki alltaf til taks þegar þurfti að flytja fólk og farangur í veiðistöðvar. Gefur að skilja að slík ferðalög hafa verið bæði erfið og áhættu- söm, ekki sízt að hausti til, þegar vatnið var að frjósa og allra veðra von og kuldi og vosbúð hrjáði ferðafólk- ið. Nú á tímum er þetta orðið allt öðruvísi og það er altítt, að heilar fjölskyldur taki sig upp að vorinu og fari norður á vatn á sumarvertíðina og búi í hinum ný- tízkulegu veiðibátum sínum, sem eru þá með íbúð inn- réttaða á þilfari. Útgerð Jóns þróaðist með líkum hætti og annarra fiskimanna við vatnið. Eins og áður segir byrjaði hann að fiska á smákænu 12 ára gamall og lauk reyndar sín- um veiðiskap 86 ára gamall, einn á smábáti sem nú er geymdur á Minjasafninu á Gimh til minningar um 75 ára úthald Jóns. Mun þetta vera algert met í veiðiút- haldi þar um slóðir. Þótt hann hefði oft á sínum langa starfsferli marga menn í vinnu, var hann þó sjálfur allt í senn: fiskimað- ur á sínum smábáti, formaður á seglskipum og skip- stjóri á mótorskipum, þegar þau komu til sögunnar. En hans útgerðarstörf urðu þó enn víðtækari. Hann kom upp fiskvinnslustöðvum, sem gerðu að fiski og pökkuðu hann á Bandaríkjamarkað. Hann var einn af stofnendum „Lake Winnipeg Fishermen’s Association“, sem varð nokkurskonar stéttarfélag fiskimannanna við Winnipegvatn og var lengi formaður þess. Þegar hann svo fer yfir í fiskmóttöku og kaup og sölu á fiski þá gengst hann, ásamt fleirum, fyrir stofnun fiskverkunar og fisksölufélags, „Lake Winnipeg Packers Associati- on“ og stjórnaði því um aldarfjórðungs bil. Hann lét sig alltaf miklu varða hag beggja þessara félaga og á efri árum var hann orðinn heiðursfélagi þeirra beggja. Þótt Winnipegvatn sé oft fagurt og friðsælt þá er það engu að síður mjög duttlungafullt. Óveður og stór- sjóir æða oft um það þegar það er autt og hafa tekið mörg mannslíf. Haustveiðarnar eru ekki síður erfiðar vegna kulda og vosbúðar, enda þá oft mjög illviðra- samt. Kaldast og verst er þó á vetrum, þegar stormar og stórhríðar æða um ísilagt vatnið, ekkert skjól nein- staðar og engin kennileiti að sjá svo mílum skiptir, ut- an óljósar sleðaslóðir. Það þarf mikil hraustmenni til að þola þessar hamfarir allar, en landarnir hafa staðist þessar þolraunir með prýði. 342 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.