Heima er bezt - 01.10.1976, Blaðsíða 28

Heima er bezt - 01.10.1976, Blaðsíða 28
ur upp í sig, oddurinn hvíldi á milli neðri varar og tanna en skaftið lá á nefinu. Síðan var höfðinu hallað vel aftur og hnífnum varpað með talsverðum rykk út úr munninum. Enginn þótti maður með mönnum nema sá sem varpað gat hnífnum langt frá sér, — og ekkert var að marka nema hnífurinn kæmi niður á oddinn. Leikur þessi var mikið iðkaður þar sem grasbalar voru, annars gat hnífurinn ekki stungist á oddinn. Þessir útlendu kósakkar voru nú allt í einu komnir niður á Hafsteinsbryggju í góða veðrinu. Sögumaður stóð á þilfari Díönu með trésverð í hendi. Allt í einu gengur einn kósakkinn að honum, bendir fyrst á sverð- ið og svo á andlitið á sér, gerir stóra sveiflu með hend- inni og segir: Hviss! Drengurinn glápti á stórt og Ijótt ör á manninum sem náði frá hársrótum og niður að kjálka. Það var augljóst á öllu látæði og tilburðum þessa útlenda manns að hann var að reyna að segja frá því að þetta Ijóta ör væri af völdum sverðshöggs sem hann hafði fengið í stríðinu. Eyrarstrákarnir urðu hljóðir við þessi tíðindi. Það var reglulega gaman að vera í sverðaleik, en þeir höfðu aldrei hugleitt að í alvörunni hefði hann slíkar afleið- ingar eins og ljóta örið á manninum benti til. Pollux-leikurinn fór allur í handaskolum það sem eftir var dagsins. Ljóta örið á rússanum átti sinn þátt í því. Eigendum Díönu var ekkert vel við að strákarnir væru að hamast þar um borð. Og því bönnuðu þeir það. Strákarnir vissu ekki almennilega hvernig þeir ættu nú að bregðast við. Að vísu mátti leika sér í ýmsum öðrum bátum þarna á Eyrinni, en þeir voru allir, nema Díana, svo ljótir, að þeim fannst regluleg skömm að því að láta þá vera hið glæsilega franska herskip. En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Sú saga barst út að uppi á Balanum væri komin hrúga af alls konar kössum sem einhver hafði látið þar. Kassar? Mátti ekki smíða úr þeim skip? Nýtt her- skip? Jú, auðvitað, það var alveg tilvalið! Von bráðar var risið þarna á Balanum hið glæsileg- asta skip sem vitanlega hlaut nafnið Pollux. Stefni skips- ins var neglt saman úr tveim löngum kassalokum, Myndarleg og allhá „kommandóbrú“ var byggð úr mörgum miðlungsstórum kössum, sömuleiðis vélarrtim- ið sem byggt var úr stærsta kassanum. Það var meira að segja búið að koma fyrir alvöru skipsstrompi ofan á vélarrúminu. Strákarnir vissu af gömlum skipsstrompi sem var búinn að liggja óralengi við eitt síkið fyrir ofan sláturhúsið. Strákarnir töldu alveg víst að þeir mættu hirða þennan stromp án þess að spyrja nokkurn um það og þeir sáu ekkert eftir sér að rogast með hann allaleið upp á Bala og koma honum fyrir á hinu glæsilega skipi sem þeir voru búnir að hafa svo mikið fyrir að smíða. Það var meira að segja komin svo mikil alvara í Pollux-leikinn að sumir strákanna höfðu fengið leyfi hjá mömmu til að taka fram matrósahúfuna sem þó var aðeins notuð á hátíðisdögum sem og á öskudeginum. Mamma hafði meira að segja útbúið rauðan dúsk sem nældur var með nælu á húfukollinn. Þeir voru orðnir alvöru Pollux-sjóliðar. Nú fyrst var regluleg alvara komin í Pollux-leikinn. Langur og meðfærilegur kassi var hugsaður sem létt- bátur og hann var dreginn eftir Balanum með „kons- úlnum“ í. Allir vildu vera yfirmenn og hásetar eða „konsúll“, en færri vildu taka að sér að draga kassann. Allt gekk þó þetta snurðulaust, þótt oft þyrfti að beita miklum fortölum ef einhver uppástóð að hann væri búinn að draga kassann svo lengi að hann ætti orðið rétt á stöðu „konsúls“ eða yfirmanns. Enginn veit hvað þessi Pollux-leikur hefði getað gengið lengi, ef einn strákurinn hefði ekki kveðið upp úr með það að þetta væri hálfgert frat skip, — það ryki ekkert upp úr strompinum eins og á alvöru skipum. Skipasmiðina setti hljóða. Þetta var dagsatt. Það rauk ekkert úr strompinum. Þá var það að sú hugmynd fæddist hvort ekki mætti kveikja svolítinn eld innan í vélarúminu, — bara pínu- lítinn eld svo að rétt ryki úr strompinum. Þarna væri nóg af hálmi og öðrum eldsmat. Þessari hugmynd var vel tekið og eldur kveiktur í vélarúminu undir strompinum, — og nú sást úr honum greinilegur reykur. En hvernig sem það var, þá jókst reykurinn alitaf í sífellu. Hann kom ekki aðeins upp úr strompinum, held- ur var hann farinn að gjósa út úr öllum rifum á kössun- um. Strákunum varð ljóst að hér var alvara á ferðum. Eldurinn var orðinn meiri en þeir ætluðu sér að hafa. Eldurinn var orðinn svo mikill að fullorðna fólkið í nágrenninu var farið að veita honum athygli og var farið að hlaupa í átt til strákanna á Balanum. Allir sáu að nú var alvara á ferðum. Þeir kjarkminni í strákahópnum voru farnir að hlaupa burtu frá öllu saman, en hinir kjarkmeiri réðust á eldinn, trömpuðu og stöppuðu á honum. En allt virtist ætla að verða ár- angurslaust. Orvæntingin var þegar að ná tökunum á logandi hræddum strákunum. „Ætlið þið að hafa það af að kveikja í öllum bænum, strákaskammirnar ykkar!“ hrópaði kona sem þegar hafði þotið til strákanna. Það lá við að allar slökkvitilraunir færu út um þúfur við þessi orð konunnar og allt trampið og stappið á eld- inn var að verða að fullkomnu örvæntingaræði. Enginn veit hvernig farið hefði ef ráðagóður strákur hefði ekki allt í einu hrópað: „Lækurinn, strákar! Lækurinn! Sækjum vatn í tómu dunkana sem eru hjá þúfnabönunum!“ Þetta var gert og innan tíðar var eldurinn slökktur með hjálp einhverra góðviljaðra fullorðinna sem komn- ir voru . Fullorðna fólkið lét nægja að skamma strákana fyrir tiltækið og taka af þeim loforð um að endurtaka ekki þennan hættulega leik með eldinn. Strákarnir lof- uðu því og efndu það. Eftir þetta var aldrei aftur farið í Pollux-Ieik. Og svartur blettur á Balanum, þar sem bálið hafði staðið, minnti Eyrarstrákana á að það gat verið hættulegt að hafa of milda alvöru í leikjum sínum. 352 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.