Heima er bezt - 01.10.1976, Blaðsíða 31

Heima er bezt - 01.10.1976, Blaðsíða 31
RÖGNVALDUR S. MÖLLER FORTÍÐIN GLEYMIST 8. HLUTI Um leið og landfestar hafa verið leystar, er skipið laust við bönd landsins, það lætur að stjórn mannsins og er reiðubúið að taka þátt í baráttu hans við storma og æstar öldur. Maður getur talað við skipið, og einhvern veginn svarar það manni, beinlínis eða óbeinlínis, með hreyfingum sínum og viðbrögðum. í mínum augum er skipið lifandi, og svo sannarlega verður það með söknuði, að ég kveð gamla bátinn minn, og skammast mín ekkert fyrir að viðurkenna það, síður en svo. — Vonandi, að sá nýi reynist þér jafnvel, og verði far- sæll, eins og sá gamli, mælti Þórarinn og reis á fætur. — Ekki óttast ég, að þú linist mjög við sjósóknina, en allir verða víst að lúta lögmáli lífsins. — Þú átt við það, að ég sé farinn að eldast? Auðvitað er ég ekkert unglamb lengur. En um það þýðir ekki að fást, heldur halda áfram sitt strik eins og hægt er. Það verður hver og einn að vinna meðan kraftar leyfa. Þegar ég hætti sjósókn, og fer í land fyrir fullt og allt, verð ég fljótlega gamalmenni, því vinna, sem áhugi er fyrir, heldur mönnum ungum. En sestu niður aftur. Mér hefur alltaf mislíkað, að þú skyldir hætta við sjómennskuna, einmitt þegar þú varst rétt að hefja skipstjórnarferil þinn, sem allar líkur bentu til að yrði glæsilegur, þó þú byrjaðir ekki á stórum báti. Fjandans uppátæki þetta hjá þér! Nú, ég var fyrir löngu búinn að ætla mér að hafa samband við þig, og hefði gert það innan fárra vikna, ef þig hefði ekki borið hér að garði svona fyrirvaralaust. Þegar ég ákvað að byggja þennan bát gerði ég það ekki alveg umhugsunarlaust. Ég hugsaði sem svo, að þó ég entist ekki nema fáein ár ennþá á sjónum, þá stæði báturinn alltaf fyrir sínu, og ungir menn kæmu í stað þeirra gömlu. Ég var ákveðinn í að ná mér í ungan mann, sem ég gæti treyst, og gera hann að félaga mínum, ef hann vildi. Vitanlega hafði ég þig þá fyrst og fremst í huga. Svo datt þessi skollans dintur í þig, að æða upp í sveit. En samt sem áður vil ég láta þig heyra tilboðið, sem ég ætlaði að gera þér. Það tilboð stendur enn, og ég vona að þú hugsir þig tvisvar um, áður en þú hafnar því. Ég bíð þér að ganga inn í smíðasamninginn á nýja bátnum og sel þér fjórða hlutann. Annan fjórða hlutann nafnfæri ég yfir á þig, svo þannig verður þú eigandi að hálfu á móti mér. Þér stendur þannig til boða að verða meðeigandi minn með góðum kjör- um, að mér finnst. En vitanlega er ég engu síður að hugsa um minn hag en þinn. Mér er það ljóst, að sjómennska mín getur orðið stutt úr þessu, og þá er mikilvægt fyrir mig að hafa mann, sem ég get treyst, þó ég færi að gaufa eitthvað í landi. Ég ætlast ekki til, að þú svarir þessu tilboði mínu nú á stundinni, en hugleiddu það vandlega, og láttu mig svo vita. — Og freistarinn fór með hann upp á hátt fjall og sýndi honum öll ríki veraldar og þeirra dýrð, sagði Þórarinn, og brosti dauft. — Ég hugsa, að ég þurfi ekki svo ýkjalangan umhugsunarfrest Eg á fáum meira gott upp að unna en einmitt þér. En sjáðu nú til. Þegar ég hætti á sjónum, gerði ég það af eigin hvötum. Sigríður krafðist einskis af mér, svo sjálfur tók ég þessa ákvörðun, sem ég hef aldrei iðrast. Ég stofnaði heimili uppi í sveit, lagði það, sem ég átti til í að búa þar vel um mig, og ég get með góðri samvisku sagt, að með hverjum deginum sem líður, kunni ég betur við mig. Nú gæti ég ekki hætt þessu lífi. Ég hef fundið ham- ingjuna í faðmi sveitarinnar, — og sveitakonunnar, og þaðan vík ég ekki, síst vegna meiri peningavonar, því af peningum hef ég alveg nóg, þó nokkuð sé erfitt að afla þeirra, en það er það líka á sjónum. Ég hef höndlað ham- ingjuna, og ég tel henni best borgið í sveitinni. Ég hefði tekið tilboði þínu, án umhugsunar, fyrir nokkrum árum, en þrátt fyrir það, að þú ert sá maður, sem ég met hvað mest, þá afþakka ég það nú. Boð þitt er alveg sérstætt og höfð- inglegt, og ég þakka traustið, sem þú berð til mín. En nú er líf mitt komið í fastar skorður, ég hef fundið sjálfan mig og nú vil ég ekki breyta til. Að hafa nóga peninga er ekki mesta hamingjan í lífinu, eins og þú veist sjálfur. Þér finnst ef til vill, að ég sé gamaldags glópur að haga mér svona, en það verður að hafa það. Ég skil ekki, að þú verðir í neinum vandræðum með að finna þér félaga, þú ert það kunnur maður. En ég endurtek þakklæti mitt til þín fyrir allt, bæði fyrr og síðar. — Þú ert glópur, rómantískur glópur, þverhausinn þinn! hreytti Einar út úr sér, en glettni skein úr augum hans. — Að vilja heldur vera merakóngur í Nesfirði en afla- kóngur á Suðurnesjum! Hlægilegt! Ég ætla samt að koma norður í sumar og vera hjá þér í nokkra daga, og þá skal þér verða sagt til syndanna. Kannski skil ég þig betur en ég hef látið skína í, að minnsta kosti eftir að hafa séð konuna þína. Ég hlakka til að sjá, hvernig þú hefur búið um þig, og í hvernig umhverfi þú hefur valið þér samastað. Mér veitir ekki af að taka mér smáhvíld, ég æddi reyndar einu sinni með kerlinguna suður á Spán, en skrattinn hafi það, ég læt ekki hafa mig í svoddan nokkuð aftur. Eg þekki ekkert til í Nesfirði, ég var alinn upp austar, og manni er nær að kynnast landinu sínu betur, áður en farið er að Heima er bezt 355

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.