Heima er bezt - 01.10.1976, Blaðsíða 35

Heima er bezt - 01.10.1976, Blaðsíða 35
þarf næstum kraftaverk til að koma þessu fólki aftur í jafn- vægi, andlega og líkamlega, og stórfelldar breytingar á um- hverfi þess og lífsvenjum. Ég tel, að Guðrún eigi sáralitla möguleika á bættum lífsskilyrðum, meðan hún er bundin Teiti, kannski batnar eitthvað fyrir henni, ef hún losnaði við hann til fulls, þó hún þyrfti þá að berjast fyrir þessum tveimur krökkum, sem enn eru heima. En það dylst engum, að hún er mjög illa farin á öllum sviðum. — Já, það eiga margir bágt, andvarpaði Sigríður, — og það er slæmt að hugsa til þess að geta ekki gert neitt fyrir þá, sem verr eru staddir en við. En sá fjöldi er svo mikill og til stórra átaka getur ekki komið af hendi einstaklinga, þó viljinn sé fyrir hendi. Verst er þó, að mikið af þessum bágindum stafar af orsökum, sem hlutaðeigendur sjálfir gætu ráðið við að verulegu leyti, ef hugsun þeirra og fram- kvæmd væri eðlileg, og þeir aðgættu, hvað vanhugsaðar athafnir þeirra geta haft víðtæk áhrif á líf annarra. Ég þekki Guðrúnu og hennar fólk sáralítið, en samt get ég ekki að því gert, að ég hugsa oft um Möggu. Þau sneru við og gengu hægt til baka og þurftu nú ekki að bíða lengi eftir Birni og Sigrúnu. Þetta varð óþurrkasumar, og heyskapurinn mjög erfiður. Heyin urðu í minna lagi, en grasið hafði sprottið úr sér og fengið lélega verkun, svo þau urðu létt og ólystug til gjaf- ar. Þórarni veittist sumarið erfitt til verka. Samvinnan við Björn var góð að vanda, en tíðarfarið var þreytandi. Oft rofaði til svo hægt var að snúa heyinu, en svo var komin hellirigning eftir nokkra stund, og heyið skemmdist enn meira. Samt óttaðist hann ekki heyleysi á komandi vetri, því hann átti góðar fyrningar, en hann hét því, að áður en heyskapur hæfist næst, skyldu súgþurrkunartæki verða komin í hlöðuna á Teigi, svo öflun heyjanna yrði ekki eins háð veðri og vindum. Hann gerði sér ljóst, að svo illt, sem það var að heyin hrektust hjá honum, þá voru þó erfið- leikarnir meiri hjá þeim bændum, er höfðu stór sauðfjár- eða kúabú. Hrossin voru ekki eins vandfóðruð, og þau björguðu sér þó betur í útbeit. Það var útlit fyrir að bændur þyrftu mikinn fóðurbæti handa búpeningi sínum á kom- andi vetri, en við þau kaup myndi hann alveg sleppa, enda tekjur hans ekki miðaðar við slíkt. En Þórarinn var ekki þrælbundinn yfir töðunni á túninu. Þrátt fyrir óþurrkana voru gæftir góðar og afli sæmilegur. Verð á saltfiski var hækkandi, og Þórarinn sótti sjóinn hverja stund, sem hann sá sér mögulegt að nota til þess. Saltfiskstakkurinn í kjallaranum undir viðbyggingunni á Mýri var orðinn allstór um haustið, og tekjurnar urðu meiri en hann hafði gert sér vonir um. Hann lagði mjög hart að sér og var þreyttur, þegar leið að hausti, en hann hló, þegar Sigríður var að segja honum að fara sér hægar og ætla sér af, láta ekki peningagræðgina gera út af við sig. Hann sagði þá venjulega, að veturinn gæfi nægar hvíldarstundir, og þá hyrfi öll þreyta frá sumrinu, sem alls ekki væri umtalsverð, hvað sig snerti. Svo væri þess að gæta, að nú væri fjöl- skyldan að stækka og þá þyrfti strax meira til heimilisins, og það kostaði aukna vinnu. Svo sagðist hann ekki vera svo bjartsýnn, að sér dytti ekki í hug, að þau gætu orðið fyrir skakkaföllum í buskapnum, og þá sakaði ekki að vera svo- litið undir það búinn. En hafi Þórarinn verið þreyttur eftir sumarið, þá hvarf honum öll þreyta, þegar lítill glókollur kom í heiminn í októbermánuði. Sigríður hafði ekki tekið annað í mál en eiga barnið heima, læknirinn hafði sagt, að hún væri vel byggð og fæðingin gæti þess vegna gengið vel, svo henni fannst ekki nema vitleysa að fara að þvælast í sjúkrahús, þar sem umönnun væri ekkert betri en móðir hennar myndi veita henni. Reyndar kom á daginn, að fæðingin gekk frek- ar seint, svo Þórarni þótti nóg um og varð harla órólegur, en Sigríður hló að honum og spaugaði við hann, og sagði, að þarna yrði náttúran að hafa sinn gang, og þetta yrði ekki hespað af með offorsi. Þórarinn sat allan tímann kófsveitt- ur við rúmstokkinn og hélt í hendina á henni. Loks var þessi þraut yfirstað.n, og titrandi af taugaspennu og fögn- uði tók hann við syni sínum, sveipuðum í stórt handklæði, úr höndum ljósmóðurinnar og bar hann fram í stofu, meðan Sigríði var gert til góða. Björn hafði verið við útiverk um daginn, en orðið tafsamt, því sífellt hafði hann verið að koma inn til þess að vita hvernig liði. Nú sat hann í eld- húsinu, en kom inn í stofuna, þegar hann heyrði í barninu. Framhald í næsta blaði. SKÍÐAMENN V~y eturinn nÁlgast. Skíðamennirnir hugsa gott ' til glóðarinnar, fara að hyggja að búnaði sín- um og fá sér annan nýrri og betri, ef sá gamli skyldi vera orðinn úr sér genginn eða ekki fylgja tískunni. Margir hugsa vafalaust að skíðaíþróttin sé eitt af börnum aldar vorrar, og það er hún að nokkru leyti, enda þótt rætur hennar liggi langt aftur í djúp aldanna. Nokkrar staðreyndir úr sögu hennar fara hér á eftir: Á Rödöy (Rauðsey) í Noregi fannst 1927 hellurista af skíðagöngu, sem talin er 5.000 ára gömul og sýnir skíðamennina furðulíka því sem er enn í dag. Keppni í skíðagöngu var fyrst háð á Þelamörk í Nor- egi 1855, og þar var einnig fyrsta brunkeppnin 1870.. Það er raunar fvrst á seinni helming 19. a’darinnar, sem skíðakeppnin tekur að verða vinsæl íþrótt. Holmen- kollen leikarnir norsku hófust 1883, og hafa verið haldn- ir síðan. Fyrsta svigbrautin með átta hliðum var far- in 1905. Fyrsta skíðalyftan var gerð og tekið á henni einkalevfi 1908, gerði það þýskur gestgjafi Robert Winterhalden í Schwarzwald, var hún knúin vatns- afli. Fyrsta rafmagnslyftan var gerð í Triburg 1910. Hún bar 32 manns og lyfti þeim 85 metra eftir 550 m. langri línu á 5 mínútum. Félag til iðkunar skíðaíþrótta var fyrst stofnað 1813 í Osló, en fyrsti eiginlegi skíðaklúbburinn var Skauta- og skíðaklúbbur Kristjánssands í Noregi stofnaður 1875. 1 Mið-Evrópu var fyrsti skíðaklúbburinn stofn- aður í þorpinu Todtnau í Schwarzwald 1892. Upphafs- maður að skíðastökki var Norðmaðurinn Nordheim 1840, en fyrsta heimsmetið í þeirri list var sett 1879, það var 23 metrar, og stökk það Norðmaðurinn Hammsveit. Nú stökkva menn um 170 metra á skíðum, má það fremur kallast flug en stökk. Fyrsta stökkbraut- in, sem gerði kleift að stökkva 100 metra eða meira, var gerð í Planica í Júgóslavíu. Og fyrstur til að komast 100 metrana í stökki var austurríkismaðurinn Sepp Bradl 1936. Hann stökk 101,5 m. Heitna er bezt 359

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.