Æskan - 01.09.1968, Blaðsíða 7
Um leið og við svo smugum í gegnum girðinguna
gutum við augunum heim að bænum, allt hlaut að
vera í stakasta lagi, því að ekki komum við auga á
neina hreyfingu þar. Gekk okkur vel að ná hestun-
um og beizla þá. Síðan teymdum við þá út úr
girðingunni, stigum því næst á bak og þeystum a£
stað. Riðum við i’yrst niður að sjónum og síðan inn
með fjörunni, vorum búnir að ákveða að ríða inn
í Bláadalinn, langan en þröngan dal, sem lá þarna
skammt frá — aðalbeitiland pabba og annarra
bænda í nágrenninu. Já, það yrði gaman fyrir okk-
ur að þeysa um dalinn í vornæturkyrrðinni. Þessa
stundina fannst okkur lífið svo sannarlega dásam-
legt, hrópuðum örvunarorð hvor til annars og
reyndum að korna hestunum hraðar.
En í sömu mund og við beygðum upp á melana
framan við dalinn heyrðum við eitthvert hróp fyrir
aftan okkur. Samtímis litum við til baka og upp-
götvuðum þegar okkur til mikillar skelfingar, að
enginn annar en hann Jón bóndi í Hjáleigunni kom
þeysandi á eftir okkur. Hann var búinn að upp-
götva stuld okkar og nú voru góð ráð dýr.
Ofsahræddir börðum við sem við gátum á farar-
skjótum okkar. Við yrðum að komast undan. Jón
bóndi hlaut að vera mikið reiður, og að lenda í
höndunum á honum þessa stundina gat þýtt það
sama óg að týna lífinu.
Á miklum hraða þutu hestar okkar upp melana,
síðan upp stutta brekku og svo inn Bláadalinn bað-
aðan vornæturkyrrðinni. Já, æðisgenginn eltinga-
leikur var hafinn, en brátt tók minn hestur að
dragast aftur úr fáki bróður míns, og sannast sagt
mátti ég liafa mig allan við að halda mér, svo að
ég félli ekki af baki, og nú heyrði ég, að Jón bóndi
nálgaðist óðum og hann hrópaði í sífellu, að við
bræður ætturn að nema staðar tafarlaust. Vonleysi
greip mig og hvað eftir annað var ég að því kominn
að hlýða skipun hans.
Samt sem áður hélt eltingaleikurinn áfram góða
stund. Jónas var nú kominn þó nokkuð langt á und-
an, en í sömu mund og ég uppgötvaði, að Jón bóndi
var kominn fast að mér, missti ég allt í einu hand-
festuna, síðan fann ég, að ég fékk þungt högg og
svo hvarf allt í sortann...
Þegar ég komst aftur til meðvitundar, áttaðf ég
mig þegar á hlutunum, mundi, hvað gerzt hafði og
sá, að ég lá m'i í rúminu mínu og á rúmstokknum
sat mamma, en við rúrnið stóðu þrír menn, pabbi,
Jónas bróðir, Jón bóndi í Hjáleigunni og Arn-
grímur læknir.
„Jæja, vinur minn,“ rnælti mamma, og ég sá að
hún brosti, „það er gott, að þi'i ert vaknaður og að
þú hefur ekki meitt þig mikið, ég var svo lirædd
um, að þú hefðir stórslasazt."
„Já, drengur rninn, þú varst heppinn, það má
með sanni segja, þó liefur þú fengið nokkuð þungt
höfuðhögg, en samt ekki hættulegt," sagði svo Arn-
grímur læknir með sinni djúpu bassarödd.
Nii var þögn góða stund, ég sá, að allir héldu
áfram að horfa á mig, og þar sem samvizka mín var
ekki í góðu lagi, fannst mér þetta óþægilegasta
stund lífs míns. Svo mælti ég allt í einu mjög svo
vándræðalega:
„En ... en' eru ... eruð þið þá ekkert reið?“
Nú varð aftur þögn góða stund og ég sá, að allir
brostu, já, meira að segja hann Jón í Hjáleigunni og
svo Jónas bróðir líka. En nú hætti pabbi að brosa
og sagði alvarlegri röddu:
„Nei, drengur minn, við erum ekkert reið. En
það var ljótt af ykkur bræðrum að taka hestana hans
Jóns í leyfisleysi og þetta hefði vel getað endað
verr en raun varð á. En nú er ég viss um það, að
þið bræður hugsið ykkur betur um næst, áður en
þið ákveðið að taka eitthvað í leyfisleysi, því að
grunur rninn er sá, að þið hafið mikið lært af
þessu næturævintýri ykkar.“
Svo sannarlega hafði pabbi rétt fyrir sér og aldt'ei
framar tókum við bræður neitt í leyfisleysi, því að
nú fyrst skildum við það í raun og veru, hvað það
var ljótt að stela og hvað það gat haft alvarlegar
afleiðingar.
En fyrsta sunnudaginn eftir að ég hafði risið úr
rekkju alheill eftir nokkurra daga legu, bauð Jón
bóndi í Hjáleigunni okkur bræðrum í útreiðartúr.
Hann hafði þegar fyrirgefið okkur stuld okkar,
sagði að það gleddi sig, að við skyldum hafa gaman
af hestum og sagði einnig, að við hefðum aldrei
þurft að stela hestunum. Hann hefði lánað okkur
þá nteð glöðu geði. En hvað með það. Þessi sunnu-
dagur var örugglega sá skemmtilegasti sunnudagur,
sem ég hafði upplifað, og það var allt honum Jóni
bónda í Hjáleigunni og hestunum hans að þakka.
Einar Björgv’in.
331