Æskan - 01.12.1987, Síða 34
Á JÓLVNVM
í fyrsta jólablaði Æskunnar skrifaði
Sigurður Júlíus Jóhannesson ristjóri
eftirfarandi pistil lesendum til umhugs-
unar. Okkur finnst fara vel á að birta
hann nú, níutíu árum síðar. Áminning
Sigurðar um að sýna öllum samúð sem
bágt eiga og miður mega sín á fullt er-
indi við okkur þó að margt sé breytt
frá því sem áður var og lífskjör séu al-
mennt miklu betri. Þá má gjarna líka
hugsa um höf og lönd.
Á jólunum eiga allir að vera glaðir
og kátir ef mögulegt er.
Á jólunum á öllum að koma vel
saman og börnin eiga ekki að stríða
hvert öðru. Þau eiga að vera þæg við
mömmu og pabba og góð við systkini
sín og alla menn.
Ef þið þekkið einhver börn sem
ekkert geta keypt sér fallegt á jólun-
um þá er gustuk fyrir ykkur að gefa
þeim eitthvað ef þið getið.
Ef eitthvað gengur að einhverju
barni svo að það getur ekki verið glatt
á jólunum þá eigið þið að fara heim til
þess og reyna að gleðja það.
Ef þið sjáið þyrsta hesta standa við
brunnana á jólunum þá eigið þið að
vera svo góð börn að vatna þeim eða
biðja einhvern að gera það. Skepnun-
um á líka að líða vel á jólunum.
Eins og þið vitið fæddist Jesús
Kristur á jólunum. Hann elskar litlu
börnin og honum þykir vænt um ef
þið reynið að vera góð og lík honum.
JÓL AÐ FQRNl
HANN VILL AÐ
ÖLLUM LÍÐI VEL
Það var jólakvöld. Lítill drengur sat á
steini niðri við sjó og starði út í blá-
inn; hann átti enga foreldra og hafði
enga jólagjöf fengið. Það var kuldi og
frost og koldimmt myrkur. Allt í einu
sá hann að kveikt var í húsi einu
skammt frá honum og skömmu síðar
heyrði hann fagran söng og hljóðfæra-
slátt. Hann stóð upp, gekk að glugg-
anum, steig upp á stein sem var við
þilið og horfði inn í húsið. Ó, þar var
allt svo ljómandi fallegt og skemmti-
legt. Mörg börn voru þar inni í fal-
legum fötum, öll með sitt kertið hvert
í annarri hendi og bók í hinni. Maður
lék á hljóðfæri og allir sungu undir.
Hann fór að hlusta til þess að vita
hvað væri verið að syngja. Það var
sálmur um barnið sem fæðst hafði á
jólunum:
„Hann vill að okkur öllum líði vel,“
sungu börnin með svo skærum og hríf-
andi rómi.
„Skyldi hann ekki líka vilja að mér
líði vel?“ hugsaði litli drengurinn og
færði sig nær glugganum. „Ó, ég vildi
að ég væri orðinn eitt af þessum börn-
um! Dæmalaust eiga þau skemmtileg
jól.“
Allt í einu skrikaði honum fótur,
hann rann út af steininum, rak hönd-
ina í gluggann, braut í honum eina
rúðuna og datt niður í bleytuna. Hús-
bóndinn stökk út til þess að vita hvað
um væri að vera og öll börnin á eftir.
Þegar þau komu út var litli drengur-
inn að standa á fætur aftur. Hann
hafði skorið sig á hendinni á rúðu-
brotunum og var bæði óhreinn og
blóðugur. Þar að auki var hann dauð-
hræddur um að maðurinn héldi að
hann hefði ætlað að gera eitthvað illt
af sér og yrði því vondur við sig.
„Ég ætlaði ekkert að gera illt!“
stundi hann upp í hálfum hljóðum;
„ég var bara að horfa inn og hlusta á
sönginn.“
„Vertu óhræddur!“ sögðu öll börn-
in, „komdu inn með okkur; má hann
það ekki, pabbi?“
„Jú, börnin mín,“ sagði faðir þeirra
og svo leiddu þau hann inn, færðu
hann í falleg föt og þvoðu hann allan.
Svo fóru þau að leika sér í kringum
jólatréð og héldu áfram að syngja um
litla barnið sem fæddist á jólunum.
Litli drengurinn hlustaði á þau með
athygli en hann gat ekki sungið með
þeim því að hann kunni ekki það sem
þau sungu. Hann hafði aldrei verið
eins sæll og þetta kvöld.
„Nú sé ég að hann vill líka að mér
líði vel,“ hugsaði hann, „hann vill að
öllum börnum líði vel.“
Þegar jólin voru liðin fór hann heim
aftur, ekki í rifnu fötunum sínum
gömlu heldur í fallegu fötunum sem
börnin færðu hann í þegar hann kom;
þau gáfu honum fötin. Það má geta
nærri að hann hefur verið þeim þakk-
látur en vænst af öllu þótti honum
samt um að þau gáfu honum eina af
bókunum sem þau höfðu sungið á um
þann sem vildi að öllum börnum liði
vel.
Sigurður Júlíus Jóhannesson þýddi. Sagan
birtist í 6. tbl. 1. árg. Æskunnar, 21. des-
ember 1897.
34