Kirkjuritið - 01.12.1949, Page 8
264
SÁLMUR
Ég kom til þín sem brotlegt barn,
sem braut er villt um lífsins hjarn.
Ég þrái Ijós, ég þrái sól,
ég þrái Drottins náðarskjól.
Ó, Ijá mér, Jesú, hjálparhönd
og hríf þú mína sljóvu önd
með helgimætti hjarta þíns,
svo hefjist merki anda míns.
Svo guðleg náð er nálægð þín,
að nýtt mér Ijós af himni skín,
svo blítt og fagurt, bjart og hreint,
því blessun þína fæ ég greint.
Og lát þú börn þín Ijós þitt sjá
og leið þau hverskyns háska frá,
og gef þeim vilja, vit og þor
að velja og þekkja glöggt þín spor.
Ég veit, oss skortir vit og mátt
og villumst því á ýmsan hátt,
en séu hjörtun helguð þér,
til himins æ að lokum sér.
Ó, bið þú griða breyskum lýð
og bið, að þverri neyð og stríð;
og lát þitt blessað bænarmál
oss boða frið í hjarta og sál.
Ó, legg þú hönd mitt höfuð á,
svo hreinsist ég við snerting þá.
Ég heitt um þína blessun bið,
sem barn þitt kannast þú mig við.
Jón Guðmundsson Garði, Þistilfirði.