Kirkjuritið - 01.12.1949, Page 84
1540—1815.
1 þessari stuttu ritgerð skal reynt að draga fram það,
sem helzt er vitað um sögu íslenzkra Biblíuþýðinga frá
útgáfu NT Odds Gottskálkssonar 1540 til stofnunar Hins
íslenzka Biblíufélags 1815. Verða heimildir jafnan nefnd-
ar til hagsbóta fyrir þann, sem vildi frekar glöggva sig
á þessari harla mikilsverðu grein bókmennta. Málfræð-
ingar, sagnfræðingar og guðfræðingar eiga þar mörg erf-
ið, en skemmtileg viðfangsefni, sem bíða rannsóknar. Væri
það æskilegt, að sem mest samvinna gæti tekizt innan
þessara fræðigreina. Þá yrði starf þeirra haldbezt og næði
því tilgangi sínum.
Jón prófessor Helgason hefir rannsakað þýðingu Odds
á NT 1540 málfræðilega1), en um Guðbrandsbiblíu 1584
er enn harla lítið vitað, hvort heldur er á sviði málfræði
eða sagnfræði. Til dæmis er þeirri spurningu ekki full-
svarað enn, hversu mörg ritin Guðbrandur þýddi sjálfur.
Hitt er vitað, að Oddur Gottskálksson á í þeirri Biblíu þýð-
inguna á NT og Saltaranum, ef til vill einnig á nokkrum
spámannabókanna. Gizur biskup Einarsson á þar þýðing-
una á Jobsbók, Orðskviðunum og Síraksbók, ef til vill
einnig á Samúelsbókum. Gísli biskup Jónsson kvað eiga
þýðingu nokkurra spámannabóka og Makkabeabókanna.2)
Koma fleiri hér til greina? Hvernig bjó Guðbrandur þýð-
ingar þessar undir prentun? Þessu er enn ósvarað að
miklu leyti.
Þorláksbiblía 1644 er að nokkru leyti endurprentun