Eimreiðin - 01.04.1928, Qupperneq 64
160
ALDURTILI ARNALDS
EIMREIfilN
sat hjá honum öðru hverju. Og nú vék hún hvergi. Sjúkl-
ingurinn lagði höndina fram á rúmstokkinn, og Asgerður tók
hana í lófa sinn.
Eg veit það! mælti hann.
Hvað veiztu, góði?
Hún hélt að þetta væri óráðshjal.
Eg veit það vel, að ég hef verið þér — ekki góður, —
verið þér ónotalegur.
Eg hef ekkert kvartað undan því, mælti hún.
Nei, þú hefur ekki kvartað, Asgerður; þú hefur verið svo
stilt, eða svo tamin. En þessi lífsbarátta, þessi búskapur,
þetta líf, það gerir suma svo ergilega, býr til skráp á suma.
Og svo þykir manni svo vænt um þessar reitur, sem fengnar
eru með svo mikilli fyrirhöfn, og verður sárt um þær, atS
láta léttúðina eyða þeim. Og svo kemur gremjan niður a
þeim, sem manni þykir vænst um. Svo blasir þetta við alt,
þegar reikningarnir eru gerðir upp.
Asgerður þrýsti mögru höndina, sigggrónu og sinaberu,
sem langt og mikið erfiði hafði markað.
Það er gott! mælti hann.
Hvað er gott? mælti Asgerður í hálfum hljóðum.
Þetta, að þú tókst utan um mína krumlu, með lófunum
þínum.
Hann þagði um stund.
Fyrir fjörutíu árum bauð ég þér hana og hét þér trúnaði.
Það heit hef ég þó haldið, og þessvegna þori ég nú að
deyja og mæta fyrir dómstóli guðs.
Hann misti málið, og tárin runnu niður kinnarnar.
Ásgerður brá svuntuhorninu upp að augum sínum.
Arnaldur mælti eftir stundarþögn:
Þetta er helfróin.
Guðmunduv Friðjónsson.