Eimreiðin - 01.07.1928, Page 17
Haustnótt.
Hljótt er inni. Hljótt í mó.
Horfinn söngfugl. Bliknuð tó.
Sumar liðið. Röðull runninn,
runninn bak við land og sjó.
Hjótt — en mótt og órótt undir.
Yfir skýfar. Nótt um grundir.
Sumar liðið. Svell í tó.
— Bylgjuniður berst frá sjó.
Hljótt er inni, hljótt í mó,
horfinn söngfugl, bliknuð tó.
Stormský svört um loftið líða,
— leiða með sér dyn frá sjó.
Otal radda ys og kvis
er að heyra í bylgju-þys.
Upp frá hafi svipir sveima,
sveima hring um byrgi og dys.
Otal radda ys og þys
er að heyra um byrgi og dys.
Þýtur í lofti, þýtur í glugga,
þýtur í eyrum nætur-kvis. —
Sumar líður, röðull rennur,
rennur bak við land og sjó.
Alt er hverfult, alt er hverfult,
yndi sérhvert stundarfró. —
Aldrei fær neitt endursvar
ósk, er dýpst í sál þér var.
Aldrei nær síns eðlis blóma
fjöregg inst, er andinn bar.
Aldrei hlýtur endursvar
ósk, er dýpst í sál þér var. —