Eimreiðin - 01.07.1930, Blaðsíða 38
246
FLAKK
eimreiðin
hét. Hann vildi ekki láta kalla sig böðul, heldur hríshaldara.
Hann hafði fult leyfi til að flakka um sýsluna og bar ávalt
með sér vöndinn, líklega að fyrirlagi sýslumanns, sýslubúum
til áminningar. Karl var mjög hreykinn af embætti sínu, en
ekki var hann að sama skapi í áliti, heldur hafður í mestu
fyrirlitningu, þó menn þyrðu ekki að úthýsa honum. Eitt sinn
ætlaði hann að flakka sveita á milli, en yfir á var að fara.
Treystist karl ekki að vaða ána, og beið um stund við vaðið.
Bar þá að ríðandi mann, er yfir um þurfti að fara. Bað karl
manninn, sem var góður bóndi í næstu sveit, að hann reiddi
sig yfir ána. Varð bóndi við bón hans og reiddi karlinn, sem
var lítill og léttur, fyrir aftan sig yfir ána, og skildu þeir svo.
Hagmæltur óvildarmaður bóndans komst að þessu, og af því að
það þótti hin mesta sneypa að hafa haft svo náið samneyti við
böðulinn, kvað maðurinn þessa vísu, bóndanum til háðungar:
Seggir héldu sömu Ieið,
sæmda fátt þó vinni;
böðullinn á baki reið
bænda forsmáninni.
Það versta við flakkarana var óþrifnaður sá, er undan-
tekningarlítið fylgdi þeim, og kvað svo ramt að því, að oft
mátti rekja kláða- og kvillaferil þeirra bæ frá bæ, nema sér-
stakrar varúðar væri gætt um hreinlæti, og oft hreinasti við-
bjóður að hirða og þrífa sængurföt þau, er þessir menn lágu
við, svo að óþrifin bærust ekki út á heimilin, þar sem þessir
menn voru nætursakir.
Nú er alt hér á landi svo breytt, að hinir fornu flakkarar
þrífast ekki lengur, ekki auðið að ferðast langt peningalaust,
greiðasala orðin almenn, samgöngur og öll ferðatæki alt önnur
en fyrrum, auk þess hugsunarháttur fólks mjög breyttur frá
því er var, þó eigi sé lengra til jafnað en mannsaldurs.
Gamla flökkufólkið er farið og kemur aldrei aftur.
En það er nú samt svo, að bæði ég og ef til vill fleiri
eldri menn, sakna þessa fólks, og minnast tilbreytinganna,
sem komur þess urðu valdandi, þar sem lítið var um gesta-
komur. Það voru næstum eins og hátíðakvöld að hlusta á
fréttir þeirra og þjóðsögurnar, sem þeir kunnu svo margar
og sögðu svo vel, eins og þeir sjálfir hefðu séð og lifað með
því, er sögurnar hljóðuðu um. Flökkufólkið gamla hafði í
rauninni meiri og betri þýðingu fyrir íslenzku þjóðina heldur
en alment hefur verið veitt eftirtekt. Það hélt uppi íslenzku
þjóðsögunum og var einskonar ómissandi samgöngutæki, bæði
líkamlega, og einkum þó andlega, á meðan alþýða átti ekki
kost á öðru betra.
Og það hvarf, þegar þess var eigi lengur þörf.