Uppeldi og menntun - 01.01.2004, Síða 50
„Á ÉG A Ð VERA MEÐ ÞVÍLÍKUM KERLINGUM Í BEKK?"
í umræðu um fullorðna nemendur hefur verið lögð áhersla á að þeir nálgist nám
á annan hátt en yngri nemendur og það kalli á breytta kennsluhætti. Malcolm
Knowles (1989) bendir á að kennsla byggð á hugmyndafræði fullorðinsfræðslu feli
m.a. í sér að eldri nemendur þurfi frekar að vita hvers vegna mikilvægt er að læra
ákveðna hluti, þeir taki meiri ábyrgð á eigin námi, búi yfir reynslu sem nýtist þeim í
náminu og hafi oft meiri áhuga á því sem þeir eru að læra (sjá einnig Merriam og
Brockett, 1997). Aðrir hafa bent á að háskólasamfélagið þurfi að breytast og koma til
móts við þarfir eldri kvenna sérstaklega með því að aðlaga námsframboð og gera
kennslu-, náms- og námsmatsaðferðirnar þannig úr garði að þær falli betur að náms-
þörfum og stíl kvenna (sjá t.d. Wisker, 1996). Feministar í háskólasamfélaginu hafa
lagt áherslu á að fræðimennska og kennsla sé í eðli sínu „pólitísk" og hafa þróað hug-
myndir um að feminísk uppeldis- og kennslufræði gagnist sérstaklega vel við
kennslu eldri kvenna. í slíkri kennslu er m.a. lögð áhersla á samvinnunám og sam-
þættingu reynsluheims og gildi hans í náminu ásamt kvenna-/kynjafræðilegri
nálgun við sem flest viðfangsefni (Welch, 1994).
Töluverð áhersla hefur verið lögð á að kanna hvaða merkingu og gildi fjölskyldan
hefur í lífi eldri kvenna í háskólanámi og hvernig þeim gengur að takast á við ólík og
oft illsamrýmanleg hlutverk. Ber þar einna hæst rannsókn Rosalind Edwards (1993)
í Bretlandi. Hún tók viðtöl við rúmlega 30 eldri konur sem stunduðu háskólanám í
félagsvísindum. Edwards notar hugtakið „gráðugar stofnanir", sem komið er frá
Söndru Acker (1980), til að lýsa bæði háskólum og fjölskyldunni. Slíkar stofnanir
krefjast mikillar hollustu, óskiptrar athygli og jafnvel að bönd við aðrar stofnanir séu
rofin. Fjölskyldan er „gráðug" á tíma kvenna því hið hefðbundna fjölskyldumynstur
krefst þess að þær séu alltaf til reiðu, tilbúnar að sinna líkamlegum og andlegum
þörfum annarra fjölskyldumeðlima. Þrátt fyrir að launavinna kvenna hafi aukist
mikið síðastliðna áratugi er margt sem bendir til þess að stór hluti þeirra gangist við
þessari menningarlegu arfleifð og skuldbindi sig fjölskyldunni á þennan hátt. Afleið-
ingin er sú að þær eru undir miklum þrýstingi og finnst þær þurfi að standa sig á
báðum vígstöðum og sjá til þess að hvorug þessarar stofnana sé vanrækt vegna hinn-
ar. Ein afleiðing þessa kom fram í rannsókn Edwards því allar konurnar fundu fyrir
tímaleysi og erfiðleikum við að sinna skyldum sínum á báðum vígstöðvum. Þær sátu
gjarnan uppi með þá tilfinningu að þær sinntu hvorki náminu né fjölskyldunni vel
og fundu þar af leiðandi til samviskubits. Jafnvel þó að konurnar hefðu tekið sjálf-
stæðar ákvarðanir um að haga lífi sínu á þennan hátt, þurftu þær að forgangsraða
verkefnum til að geta tekist á við ólík hlutverk. Þessi forgangsröðun fór fram í
ákveðnu félagslegu og stofnanalegu samhengi þar sem tvær „gráðugar" stofnanir
bitust um tíma kvennanna. Þetta samhengi gefur reynslu þeirra merkingu m.a. vegna
þess hversu ósamrýmanlegar kröfur háskóla og fjölskyldunnar eru og skorts á skiln-
ingi og stuðningi samferðafólks þeirra (Edwards, 1993).
Erlendar rannsóknir sýna að reynsla eldri kvenna af háskólanámi og samþætting
náms og fjölskyldulífs er flókin og margþætt. Þær finna til kvíða í upphafi náms,
finnst þær ekki eiga heima í umhverfi sem hefur ekki þróast með námslegar og
félagslegar þarfir þeirra í huga og eiga í erfiðleikum með að sinna náminu og fjöl-
skyldu eins og þær óska. Þessar niðurstöður vekja spurningar um hver sé reynsla
48