Uppeldi og menntun - 01.01.2004, Side 85
JÓHANNA EINARSDÓTTIR, AMALÍA BJÖRNSDÓTTIR OG INGIBJÖRG SÍMONARDÓTTIR
UMRÆÐA
Niðurstöður málþroskamælinga við fimm ára aldur gefa sterkar vísbendingar um
það hvernig börnum gengur á samræmdu prófi í íslensku í 4. bekk. Mikill munur er
á málþroska einstakra barna við upphaf grunnskólagöngu. Tengsl eru á milli
almenns málþroska og hljóðkerfisvitundar, einnig á milli málþroskamælinga við
fimm og við sjö ára aldur. Börn sem voru með góða færni á málþroskaprófum við
fimm og sjö ára aldur fengu langflest meðalgóðar eða góðar einkunnir á samræmdu
prófi í íslensku í 4. bekk. Þau börn sem sýndu slaka færni á HLJÓM-2 eða á TOLD-
2P við fimm eða sjö ára aldur fengu langflest slaka eða meðalgóða einkunn á sam-
ræmdu prófi í íslensku í 4. bekk. Samt sem áður kemur í ljós að nokkur börn sem
voru með slakan eða jafnvel mjög slakan málþroska við fimm ára aldur náðu
jafnöldrum við sjö ára aldur og sýndu meðalfærni á samræmdu prófi í 4. bekk.
Niðurstöður málþroskamælinga við fimm ára aldur
Niðurstöður prófana bæði á hljóðkerfisvitund og málþroska sýna að mikill munur er
á getu einstakra barna í þessum þáttum við fimm ára aldur. Eðlilega sýna flest börn
meðalfærni bæði í hljóðkerfisvitund og málþroska, rúm 70% barnanna eru skilgreind
með eðlilegan eða góðan málþroska og hljóðkerfisvitund. Við upphaf skólagöngu
mæta því flest börn vel undir það búin að takast á við væntanlegt nám. Þau hafa
góðan málskilning, setningagerð og orðaforða. Þessu er eins farið með hljóðkerfisvit-
undina. Flest börn eru með góða hljóðkerfisvitund og hafa því allar forsendur til að
takast á við væntanlegt lestrarnám. Með því að leggja HLJÓM-2 og TOLD-2P fyrir
leikskólabörn má finna börn sem eru með slakan málþroska og/eða hljóðkerfisvit-
und í leikskóla áður en þau hefja eiginlegt grunnskólanám. Erlendar rannsóknir hafa
sýnt að hægt er með markvissri þjálfun að auka málþroska og hljóðkerfisvitund hjá
börnum í áhættuhópum á leikskólaaldri (National Research Council, 1998). Saman-
tekt Ehri og félaga á 52 rannsóknum sýndi fram á að þessar rannsóknir sýndu mark-
tækan mun á lestri og lesskilningi þeirra barna sem höfðu fengið kennslu og þjálfun
í hljóðvitund borið saman við þau sem höfðu ekki fengið slíka kennslu (Ehri, Nunes,
Willows, Schuster, Yaghoub-Zadeh og Shanahan, 2001). Engin ástæða er til að ætla að
það sama gildi ekki hér á landi en vanda þarf til verka. Þjálfunin þarf bæði vera
markviss og vel skilgreind. Enn fremur þarf að byggja á þjálfunarefni og æfingum
sem rannsóknir hafa sýnt að skili árangri en nánar verður vikið að þessu atriði
seinna. Líklega væri best að leikskólakennarar og talmeinafræðingar myndu vinna
saman í þverfaglegu teymi að því að auka málþroska og hljóðkerfisvitund þeirra
barna sem þurfa á því að halda.
Tengsl TOLD-2P og HUÓM-2
I ljós kom mjög sterkt samband á milli TOLD-2P og HLJÓM-2, þ. e. á milli almenns
málþroska og hljóðkerfisvitundar. Börn sem eru með góðan málþroska eru yfirleitt
með meðalgóða eða góða hljóðkerfisvitund og þau sem eru yfirleitt með slakan mál-
þroska eru með slaka eða meðalgóða hljóðkerfisvitund. Það þekkist varla að barn hafi
83