Tímarit lögfræðinga - 01.10.1998, Page 14
Þessi breyting er ekki rökstudd á annan hátt en þann að hér sé dregið mjög
úr stöðlun bóta vegna ábendinga þar að lútandi í umsögnum, sjá bls. 36 í frum-
varpinu. Hvers vegna lækkunin er þessi en ekki einhver önnur er ekki útskýrt.
Þessi breyting hlýtur að byggjast á útreikningi tryggingastærðfræðings þótt
enginn slíkur fylgi frumvarpinu. Breytingin leiðir hins vegar til þess að bætur
samkvæmt lögunum til þeirra sem slasast á efri árum eru mun lægri en
samkvæmt eldra frumvarpinu þrátt fyrir hækkun margföldunarstuðuls úr 6 í 7,5.
Slíkt var ekki hugmynd þeirra umsagnaraðila sem höfðu gagnrýnt eldra frum-
varpið og lágan margföldunarstuðul þess.
I umfjöllun á bls. 36 í frumvarpinu er sagt að með breytingunum hækki
örorkubætur eftir því sem tjónþoli er yngri. Með hliðsjón af því að í 1. mgr. 9.
gr. felst lækkunarregla er réttara að segja að bætur lækki eftir því sem tjónþoli
er eldri.
6.4 Umsagnir um frumvarpið
Aftur bárust margar umsagnir um frumvarpið. Lögmannafélag Islands gagn-
rýndi enn reiknireglu 6. gr., tekjuviðmiðun 7. gr. og þá miklu mismunun slas-
aðra sem 8. gr. leiðir af sér. Neytendasamtökin tóku undir þessa gagnrýni.
Læknafélag íslands sagði mat á líkamstjóni ávallt hafa verið og verða
læknisfræðilegt og taldi erfitt að greina á milli líkamlegs áverka og skerðingar
á vinnugetu. Um þetta segir orðrétt: „Það hefur öllum reynst erfitt í eitt skipti
fyrir öll að greina alfarið í sundur líkama og sál“.
Þá gagnrýnir stjórn Læknafélagsins harðlega 10. grein frumvarpsins og telur
örorkunefnd „óþarft fyrirbrigði“.
Orðrétt segir í umsögninni:
Hið fjárhagslega mat er hluti af læknisfræðilegu örorkumati, undirþáttur en ekki
sjálfstæður matshluti. Örorkunefnd er því óþörf og það hlutverk hennar m.a. að
semja örorkustigstöflur og miskastigstöflur eru einnig óþarfar (sic). Slíkar töflur eru
til. Þær hafa verið gerðar af þeim sem til þess hafa kunnáttu og þær munu áfram
verða þróaðar og endurmetnar af slíkum aðilum. Tilkoma lögfræðings inn í svo-
nefnda örorkunefnd þjónar engum skynsamlegum tilgangi og lögfræðingar hafa enga
faglega þekkingu á örorkumati og þeir eru af eðlilegum ástæðum hvorki betur til þess
fallnir eða ver eftir atvikum að reikna út augljóst fjárhagslegt tjón sem verður miðað
við skerðingu vinnugetu. Það út af fyrir sig getur hver sem er.
Sérstök athygli er vakin á þessum orðum læknafélagsins vegna umfjöllunar
síðar um störf örorkunefndar.
Einnig varar félagið við stöðlun bóta og lækkunarreglum frumvarpsins og
telur hefðbundið örorkumat nákvæmari mælikvarða á tekjutap.
Jón Erlingur Þorláksson tryggingafræðingur sendi allsherjarnefnd ítarlegar
og vel rökstuddar athugasemdir sem báru þess merki að hann hafði grandskoð-
að bæði viðfangsefnið og frumvarpið. M.a. hafði hann kynnt sér skrif dönsku
182