Fréttablaðið - 12.06.2010, Blaðsíða 68
36 12. júní 2010 LAUGARDAGUR
H
eimsókn Led Zeppelin á
Listahátíð mánudagskvöld-
ið 22. júní árið 1970 eru lík-
lega goðsagnakenndustu
tónleikar Íslandssögunn-
ar. Vissulega tróð sveitin
upp fyrir troðfullri Laugardalshöll, en þó
er þannig um þessa tónleika líkt og fleiri
sögulega atburði að nánast allir sem voru
á tilteknu reki á þeim tíma segjast hafa
verið þar. Flestir þeirra segjast líka hafa
hitt meðlimi Zeppelin, djammað með þeim,
farið í partí og gott ef ekki spilað fótbolta
við bresku rokkarana.
Forvitnilegt er að hnýsast í gömul blöð og
lesa umsagnir dagblaðanna um tónleikana
á sínum tíma. Þriðjudaginn 23. júní, daginn
eftir tónleikana, birtist umsögn á forsíðu
Vísis undir fyrirsögninni „20-30 stúlkur
bornar út“ þar sem lýst er öngþveiti; skar-
inn sem setið hefði makindalega í salnum
til að byrja með hafi skyndilega ruðst fram
að sviðinu með þeim afleiðingum að nokkrir
unglingar voru við það að kremjast upp við
sviðsbrúnina. „Þeir félagar sýndu óneitan-
lega mikil tilþrif í leik sínum. Hver þeirra
um sig tók sérstakt sólónúmer. Jimmy Page
þandi gítar sinn með fiðluboga aldeilis for-
kostulega og lék auk þess hugljúfa melódíu
á kassagítar. Trommuleikarinn John Poul
Jones [sic] tók æðisgengið trommusóló, sem
stóð kortér minnst,“ segir í Vísi.
Frekara lof á svipuðum nótum birtist í
flestum fjölmiðlum næsta daga eftir tón-
leikana en laugardaginn 27. júní kveður við
annan tón á síðunni Með á nótunum í Vísi.
Þar segist umsjónarmaðurinn Benedikt
Viggósson hafa orðið fyrir nokkrum von-
brigðum með leik Led Zeppelin í höllinni.
Ekki hafi verið um neina músíkupplifun
að ræða hjá viðstöddum, og fagnaðarlæt-
in hefðu frekar virkað sem kurteisisvið-
leitni við hina margumtöluðu „heimsfrægu“
hljómsveit.
Orðum sínum til staðfestingar leitar Vísir
til þriggja „popmúsíkanta“, þeirra Gunn-
ars Jökuls, trommara Trúbrots, Jónasar R.
Jónssonar, fyrrverandi söngvara Náttúru,
og Björgvins Gíslasonar, sóló-gítarista Nátt-
úru, eftir áliti þeirra á tónleikunum.
Gunnar Jökull segir trommustíl Johns
Bonham ópersónulegan, Jónas R. telur
breskar hljómsveitir yfirleitt oflofaðar hér á
Íslandi og Björgvin harmar kraftleysi sveit-
arinnar, sem og frammistöðu gítarleikar-
ans Jimmy Page. „Ég bjóst satt að segja við
miklu meira frá honum, það fór ekki milli
mála, að það, sem hann gerði, gerði hann
bara vegna peninga. Persónulega hafði ég
það ríkt á tilfinningunni, að Led Zeppel-
in álitu okkur hálfgert útkjálkafólk með
einangraðar skoðanir á popmúsík,“ segir
Björgvin Gíslason í Vísi.
Ljóst er að upplifun landsmanna hefur
verið ólík af tónleikum Led Zeppelin fyrir
fjörutíu árum. Það hefur þó ekki varpað
stórum skugga á goðsögnina.
Goðsagnakenndir tónleikar
Fjórir áratugir eru liðnir frá heimsókn bresku rokkaranna í Led Zeppelin hingað til lands, en hljómsveitin hélt þá fræga tónleika
á Listahátíð í Laugardalshöll. Kjartan Guðmundsson rifjar upp viðtökur landsmanna við tónleikunum, sem vöktu mikla athygli.
ÍSLANDSVINIR Led Zeppelin troðfyllti Laugardalshöllina og biðu margir lengi í biðröð eftir miða. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
ZEPPELIN Í HÖLLINNI Hljómsveitin var í miðjum upptökum á breið-
skífunni Led Zeppelin III þegar heimsóknina til Íslands bar að. Hér sömdu
meðlimirnir lagið Immigrant Song, sem hefur að geyma fjölmargar
vísanir í Ísland, og frumfluttu það sex dögum síðar á tónleikum í Bath á
Englandi.
„Þetta voru frábærir tónleikar og mjög eftirminnilegir, ekki síst vegna þess
að þarna heyrði maður í fyrsta sinn alvöru sánd og kraft. Hljómsveitin flutti
inn stórt og alvöru hljóðkerfi svo að maður fékk þetta alveg í brjóstið. Svona
lagað hafði ég aldrei upplifað áður,“ segir söngvarinn Björgvin Halldórsson
sem lét sig að sjálfsögðu ekki vanta á tónleika Led Zeppelin í Höllinni fyrir
fjörutíu árum, enda ein mesta poppstjarna Íslands á þeim tíma.
Björgvin segir Zeppelin hafa slegið algjörlega í gegn á tónleikunum og
minnist þess að margir í bransanum hafi snúið aftur í bílskúrinn í kjölfarið
til að æfa sig betur, slík hafi áhrifin verið. „Zeppelin-menn voru auðvitað
brautryðjendur og voru með frábær lög á borð við Good Times, Bad Times,
Babe I‘m Gonna Leave You og Dazed and Confused á prógramminu, þar
sem Jimmy Page mundaði fiðlubogann á Les Paul-gítarinn sinn af stakri
snilld. Við í Ævintýri og Brimkló spiluðum mörg Zeppelin-lög á tónleikum
árin á eftir og þegar ég hlusta á ýmsar upptökur frá þessum tíma heyrist mér
að mér hafi tekist ágætlega upp við að ná tónhæðinni hans Roberts Plant.
Það er eiginlega mesta furða, en á þessum tíma tíðkaðist að syngja í hæstu
tóntegundum,“ segir Björgvin og hlær.
Hann segir rúsínuna í pylsuendanum hafa verið partí með meðlimum
Zeppelin á klúbbnum Las Vegas við Grensásveg, en þangað var útvöldu
fólki boðið eftir tónleikana. „Við töluðum við þá alla og þeir voru reglulega
næs, mjög prúðir og kurteisir og þótti mikil upphefð í því að íslenska ríkið
hefði beðið þá um að koma hingað á Listahátíð, eða Art Festival, til að flytja
sína list. Einhvern tíma um kvöldið brá ég mér á salernið og tyllti drykknum
mínum á salernisskálina og tók þá eftir því að stór og mikill maður vexti
stillti sér upp við hlið mér, Þarna var sjálfur trommarinn John Bonham
mættur við hliðina á mér. Við pissuðum þarna í kross og að því loknu þreif
Bonham glasið mitt og kláraði úr því í einum teig. „Excuse me sir, this is my
drink,“ sagði ég, og ekki stóð á svarinu frá trommaranum; „Well son, you
wanna make something of it?“, og þar við sat. Ég var mjög upp með mér og
hefði eiginlega átt að geyma glasið,“ segir Björgvin Halldórsson.
YOU WANNA MAKE SOMETHING OF IT?
UNGA KYNSLÓÐIN Björgvin í miklu stuði á tónleikum Led Zeppelin í Laugar-
dalshöll í júní 1970, ásamt Henný Hermannsdóttur og Arnari Sigurbjörnssyni,
gítarleikara úr Ævintýri, sem heldur á Oddi Halldórssyni, yngri bróður Björgvins.
FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
„Led Zeppelin er frábær uppeldistónlist. Mamma og
pabbi hlustuðu mikið á þá og því óumflýjanlegt að
það hafi haft einhver áhrif á mann,“ segir Pétur Örn
Guðmundsson, söngvari og orgelleikari hljómsveitar-
innar Dúndurfrétta, sem heldur tónleika til heiðurs Led
Zeppelin í tilefni af fjörutíu ára afmæli Íslandsheimsókn-
ar hinnar síðarnefndu. Tónleikarnir fara fram í Borgarleik-
húsinu þriðjudaginn 22. júní, fjörutíu árum upp á dag
eftir að Zeppelin tryllti íslenskan æskulýð í Höllinni.
Dúndurfréttir voru stofnaðar árið 1995 undir þeim
formerkjum að leika lög Led Zeppelin og Pink Floyd,
en síðar bættust einnig við lög með sveitum á borð
við Uriah Heep og Deep Purple. Með tímanum hafa
tónleikar sveitarinnar orðið stærri í sniðum og er hún
tíður gestur í stórum sölum á borð við Borgarleikhúsið
og Loftkastalann. Góður rómur hefur verið gerður að
tónleikum Dúndurfrétta, enda segir Pétur meðlimina
skemmta sér gríðarlega vel við tónleikahaldið. „Við
leggjum okkur alla í verkefnið og gerum þetta eins vel
og við mögulega getum, en þar sem við erum allir miklir
Zeppelin-aðdáendur er þetta okkur líka hjartans mál.
Þetta er áhugamál hjá okkur, enda erum við allir í öðrum
verkefnum á milli,“ segir Pétur.
Hann segir Robert Plant hafa verið sér fyrirmynd í
söngnum, enda búi hann yfir einni flottustu rokkrödd
allra tíma. „Röddin í Plant er fyrirbrigði sem kemur ein-
ungis fram einu sinni. Ekki einu sinni á öld, heldur bara
einu sinni,“ segir hann og hlær. „Þegar ég var að byrja að
syngja pældi ég mikið í því hvernig Plant færi eiginlega
að því að syngja svona hátt uppi nánast fyrirhafnarlaust,
og reyndi að tileinka mér það. Svo komst ég auðvitað
að því að svona söngur gerist ekki fyrirhafnarlaust, það
verða allir að hafa fyrir þessu.“
Robert Plant hélt tónleika hér á landi árið 2005 og
segir Pétur gamla rokkarann hafa tapað heilmiklu af
röddinni sem heillaði heimsbyggðina á sínum tíma, en
þó hafi hann lagað sig vel að þeirri breytingu. Pétri varð
þó ekki að þeirri ósk sinni að sjá Zeppelin á endurkomu-
tónleikum sveitarinnar árið 2007. „Ég hafði allar klær úti
til að ná mér í miða en því miður gekk það ekki. Einung-
is Bretar sem unnu í happdrætti fengu miða, þannig að
ég hefði líklega þurft að beita ólöglegum aðferðum til að
breyta um ríkisfang til að fá miða,“ segir Pétur að lokum
og lofar stórgóðum tónleikum í Borgarleikhúsinu.
VIRÐINGARVOTTUR Meðlimir Dúndurfrétta æfa nú af kappi
fyrir Led Zeppelin-tónleikana í Borgarleikhúsinu 22. júní.
FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN
FJÖRUTÍU ÁRA AFMÆLISTÓNLEIKAR DÚNDURFRÉTTA