Fréttablaðið - 09.12.2010, Blaðsíða 94
78 9. desember 2010 FIMMTUDAGUR
HANDBOLTI Ísland mætir í dag liði
Svartfellinga á EM í handbolta sem
fer fram í Noregi og Danmörku.
Svartfellingar komu nokkuð á
óvart í fyrstu umferðinni þegar
liðið lagði heimsmeistara Rússa
en á sama tíma tapaði Ísland fyrir
Króatíu.
Sigur Svartfellinga kom Júlíusi
Jónassyni landsliðsþjálfara nokkuð
á óvart. „Ég sá reyndar ekki mikið
af leiknum þar sem ég var sjálfur
að undirbúa mitt lið fyrir leikinn
gegn Króatíu. En þetta kom mér
vissulega á óvart,“ sagði Júlíus.
„Rússarnir hafa reyndar oft hikst-
að í upphafi stórmóta og eflst svo
með hverjum leiknum. Yfirleitt
endar það með því að þeir enda í
einu toppsætanna.“
Hann á von á erfiðum leik gegn
Svartfjallalandi í dag. „Styrkur
þeirra er svipaður og ég reiknaði
með. Þær sýndu í leiknum gegn
Rússum að þær eru afar öflugar og
leikmenn liðsins búa yfir miklum
líkamlegum styrk. Þær eru heldur
ekki að spila of flókin leikkerfi og
hafa þetta frekar einfalt – það er
leitað mikið inn á línu og í þessu
liði eru mjög góðir skotmenn eins
og reyndar í öllum liðunum í okkar
riðli.“
Með liðinu leikur Bojana Pop-
ovic, sem er af mörgum talin ein
allra sterkasta handknattleiks-
kona heims. „Hún er vissulega í
þeim hópi en hún hefur afrekað
mikið á sínum ferli og er einfald-
lega sigurvegari,“ sagði Júlíus um
hana. Rússarnir brugðu á það ráð
að taka hana úr umferð og gerðu
það í stórum hluta leiksins.
„Það er eitt af því sem kemur
til greina hjá okkur en það hefur
ekkert verið ákveðið í þeim efnum
enn. En það sem skiptir líka miklu
máli er að hún er mikill leiðtogi í
liðinu og dugleg að segja félögun-
um til og peppa þá upp, hvort sem
hún er inni á vellinum eða ekki.
Hún er því gríðarlega mikilvægur
leikmaður fyrir Svartfellinga.“
Alls eru þrettán leikmenn
í landsliði Svartfellinga sem
koma úr sama félagsliðinu, ZRK
Buducnost sem leikur í höfuðborg-
inni Podgorica. „Ætli liðið sé ekki
líkara félagsliði en landsliði. Þær
þekkjast að minnsta kosti mjög vel
og þetta hjálpar þeim heilmikið.
Það sést líka vel á liðinu enda eru
allar aðgerðir hjá þeim afar vel
tímasettar, sem einkennir oft góð
félagslið,“ segir Júlíus. „Og þar að
auki er Buducnost alvöru lið – eitt
það allra besta í Evrópu í dag.“
Hann segir að sínir leikmenn
séu klárir í slaginn í dag og að þeir
hafi jafnað sig á tapinu á Króatíu.
„Það var búið að afgreiða þann
leik snemma í morgun [gærmorg-
un] og þá hófst strax undirbúning-
ur fyrir næsta leik. Það eru allir
heilir og tilbúnir fyrir þann leik.“
- esá
Júlíus Jónasson um lið Svartfjallands, næsta andstæðing Íslands á EM í Danmörku og Noregi:
Landsliðið sem er nánast eins og félagslið
EINBEITTUR Júlíus á hliðarlínunni í fyrsta leik. FRÉTTABLAÐIÐ/OLE NIELSEN
HANDBOLTI Hanna G. Stefáns-
dóttir var markahæsti leikmað-
ur íslenska liðsins gegn Króatíu
á þriðjudaginn með sex mörk
og nýtti þau færi sem hún fékk
í hægra horninu vel. Hanna er
þó rétthent en þekkir það vel að
spila í þessari stöðu.
„Þetta hef ég verið að gera í 20
ár,“ segir hún í léttum dúr. „Það
háir mér alls ekki enda hef ég
gert þetta lengi og finnst ég hafa
staðið mig vel. Þetta snýst bara
um að læra að hoppa rétt inn og
snúa sér í stökkinu. Þá er þetta
ekkert mál,“ bætir hún við.
Hún segir að meira sé um þetta
í handbolta í dag en áður. „Þetta á
ekki að koma neinum markverði
neitt sérstaklega á óvart. Það á
að vera auðveldara fyrir hann að
verja frá mér en örvhentum leik-
manni. En hann nær mér ekkert
og því er þetta í lagi,“ sagði hún
og brosti.
- esá
Hanna G. Stefánsdóttir:
Hef spilað
svona í 20 ár
Á FLEYGIFERÐ Hanna í leiknum gegn
Króötum. FRÉTTABLAÐIÐ/OLE NIELSEN
HANDBOLTI Fleiri Danir horfðu
á landsliðið sitt vinna Serbíu í
fyrstu umferð riðlakeppninnar á
EM í handbolta en þeir sem fylgd-
ust með knattspyrnuliði FCK
tryggja sér sæti í 16 liða úrslitum
Meistaradeildar Evrópu.
FCK mætti Panathinaikos frá
Grikklandi á þriðjudagskvöldið
og náði þeim glæsilega áfanga að
komast áfram upp úr riðlakeppni
Meistaradeildarinnar og um leið
tryggja liðinu gríðarlega miklar
tekjur.
En það voru stelpurnar í
danska landsliðinu sem náðu hylli
sjónvarpsáhorfenda. Nærri millj-
ón manns fylgdust með útsend-
ingu TV2 frá leiknum en tæplega
sex hundruð þúsund horfðu á leik
FCK á TV3+.
Dönsku stelpurnar unnu Serba
örugglega, 25-20, og ætla sér
stóra hluti í mótinu á heimavelli.
„Þetta var stórt kvöld fyrir
danska íþróttaáhugamenn og
árangur beggja liða frábær. Þetta
var stór áfangi fyrir danska
knattspyrnu en það gladdi mig
einnig að sjá að kvennalandsliðið
í handbolta nýtur slíkra vinsælda
að það geti staðið af sér harða
samkeppni um sjónvarpsáhorf-
endur,“ sagði Frederick Lauesen,
yfirmaður hjá TV2. - esá
Sjónvarpsáhorf í Danmörku:
Handboltinn
sló við FCK
MARGIR SÁTU HEIMA Þótt Danir hafi
mætt illa á völlinn horfðu þeir á hand-
boltann heima hjá sér. FRÉTTABLAÐIÐ/OLE
HANDBOLTI Berglind Íris Hansdótt-
ir náði sér ekki á strik frekar en
margir aðrir í íslenska landslið-
inu í fyrsta leik þess á EM í Dan-
mörku og Noregi. Þá tapaði liðið
fyrir Króatíu en mætir sterku liði
Svartfellinga í dag.
„Fyrir leikinn leið mér mjög vel
og ég hafði góða tilfinningu fyrir
honum,“ sagði Berglind við Frétta-
blaðið í Árósum í gær. „Auðvitað
var maður með fiðring og þannig á
það líka að vera. En ég náði aldrei
að tengjast vörninni og þá kom
ekki þetta öryggi sem ég þurfti
á að halda. Ég varði þar af leið-
andi ekki þá bolta sem þurfti til
að koma mér inn í leikinn,“ segir
hún. „Ég var mjög ósátt við sjálfa
mig eftir leikinn en að sama skapi
var ég einnig ósátt við varnar-
leikinn. Við erum allar óánægðar
með hann. Við erum bara komn-
ar í þannig bolta að við verðum að
stíga út á móti skyttunum og láta
finna fyrir okkur. Það gerðum við
ekki í þessum leik.“
Hún segir þó að það hafi verið
ýmislegt jákvætt við leikinn sem
megi ekki gleyma. „En á móti
svona sterkum þjóðum eins og
við erum að spila við á þessu móti
þurfum við allar að skila okkar
besta til að geta unnið.“
Berglind segir liðið ekki líða
fyrir það að heima á Íslandi séu
skytturnar ekki jafn sterkar og í
alþjóðlegum handbolta.
„Það hefur auðvitað sín áhrif
og munurinn er mikill. En ég hef
nú spilað í Noregi í hálft ár þar
sem eru margar góðar skyttur og
þar að auki hef ég mætt mörgum
góðum skyttum í landsleikjum í
gegnum tíðina. Við hittum bara
ekki á okkar dag að þessu sinni,“
segir hún. „Við erum þó ekki svart-
sýnar og höfum fulla trú á því að
við getum staðið okkur vel í næsta
leik. Við ætlum að gera það og við
ætlum að bæta fyrir þennan lélega
leik. Við erum allar staðráðnar í
því að spila betur. Það getur oft
verið stutt á milli. Hefðum við nýtt
nokkur færi og við markverðirnir
varið nokkur skot til viðbótar hefði
þetta getað litið allt öðruvísi út.“
- esá
Berglind Íris Hansdóttir segir að til standi að bæta fyrir slæman leik gegn Króatíu:
Ég var mjög ósátt við sjálfa mig
BERGLIND ÍRIS Ætlar að gera betur í
næsta leik. FRÉTTABLAÐIÐ/OLE NIELSEN
Eiríkur Stefán
Ásgeirsson
skrifar frá Árósum
eirikur@frettabladid.is
HANDBOLTI Karen Knútsdóttir var
maður leiksins gegn Króatíu og
þessi tvítugi leikstjórnandi sýndi
oft lipra takta í sóknarleik íslenska
liðsins. Hún skoraði fyrsta mark
Íslands á stórmóti og þó svo að
ýmislegt hafi farið úrskeiðis í leik
íslenska liðsins verður sá áfangi
aldrei tekinn af henni.
„Ég hef reynd-
ar ekki mikið
leitt hugann að
því. En það er
vissulega ánægju-
legt og ágætt að eiga
fyrsta markið,“ segir
Karen og vill greini-
lega ekki gera mikið
úr því. „Það sem ég vil
fyrst og fremst gera er
að sýna mitt rétta and-
lit og hvað ég get. Það
er gaman að fá tækifæri
til að gera það á móti eins
og þessu,” bætir hún við.
Karen nýtur þess einn-
ig að hafa stuðning for-
eldra sinna hér í Árósum
eins og fleiri í íslenska
liðinu. En hún er í þeirri
sérstöku stöðu að faðir
hennar, Knútur G. Hauks-
son, er formaður HSÍ.
„Pabbi er stundum
pabbi og stundum er
hann formaður HSÍ.
Það voru settar skýrar
reglur í þeim efnum
áður en við fórum út.
En mamma er hérna
líka og það er gott
að hafa þau bæði
með mér. Þau
veita mér mikinn stuðning eins og
þau hafa alltaf gert. Þau hafa allt-
af mætt á alla leiki og hafa áður
komið mér í keppnisferðir.“
Spurð um atvinnumennsku
játar hún því að hún stefni að því
að komast út – hvort sem frammi-
staðan á EM muni flýta fyrir því
eða ekki.
„Það er markmiðið hjá
mér að komast út. Fyrst
ætla ég mér þó að einbeita
mér að því að standa mig
vel í þessum leikjum sem
eru fram undan og svo
verður bara að koma
í ljós hvað verður,“
segir Karen.
„En ég held að ég
sé að verða tilbúin
fyrir næsta skref-
ið á mínum ferli.
Ég var kannski ekki
tilbúin áður en tímabilið
hófst í haust og það gæti
vel verið fínt fyrir mig að
taka svo eitt ár til viðbót-
ar heima. En á endanum
vil ég komast út.“
Hún neitar því ekki
að það er stórt skref
fyrir leikmann í N1-
deild kvenna að fara á
stórmót í alþjóðlegum
handbolta.
„Deildin heima er
ekki nægilega sterk í ár.
Það eru nokkur góð lið í
deildinni en munurinn er
óneitanlega mikill. Það er þó
skemmtilegt að takast á við
það. Við tókum stórt skref
með því að komast á EM og
það er góð blanda af yngri og eldri
leikmönnum í liðinu. Leiðin liggur
aðeins upp á við og við getum lært
heilmikið af þátttöku á móti sem
þessu. Ég er þess alveg fullviss að
við förum aftur á stórmót áður en
langt um líður.“
Fram undan er leikur gegn
Svartfjallalandi í dag en liðið virð-
ist ógnarsterkt. Það vann heims-
meistara Rússa á þriðjudaginn og
stefnir því á að fara í milliriðla-
keppnina með fullt hús stiga.
„Maður tekur heilmikið með sér
að spila á svona sterku móti. Nú er
strax komið að næsta leik og hér
erum við eingöngu að spila við
sterkar þjóðir. Það reynir á mann
og ég held að við lærum bara af
því,“ segir Karen. „Það vex okkur
ekki í augum að mæta Svartfjalla-
landi. Þetta er hörkulið en ef við
náum okkar allra besta fram
getum við unnið þetta lið. Við erum
ekki hræddar við þær enda teljum
við að við eigum möguleika í öllum
leikjum. Það þarf að bæta ýmislegt
frá síðasta leik og við vitum hvað
þarf til að gera það.“
Vil sýna hvað ég get á stórmóti
Karen Knútsdóttir skráði nafn sitt í sögubækurnar með því að skora fyrsta mark Íslands á stórmóti í hand-
bolta kvenna. Hún ræddi við Fréttablaðið um mótið, framtíðaráætlanir í boltanum og foreldrana.
MEÐ MÖMMU OG PABBA Karen er hér með föður sínum, Knúti Haukssyni, og móður
sinni, Sigrúnu Bragadóttur, í miðbæ Árósa í gær. FRÉTTABLAÐIÐ/E. STEFÁN