Embla - 01.01.1949, Side 27
eitt sinn, er hreinsað var til í bókakostinum. Sagt er, að upphaf-
lega hafi verk Sapphóar fyllt níu bækur, eins og komizt er að
orði, en þær voru allar gjörsamlega upprættar á byzantiska tíma-
bilinu af siðgæðisvörðum þeirra daga. Þó hafa tvö lieil kvæði og
mikið af kvæðisbrotum eftir hana geymzt á þann hátt, að grískir
og rómverskir sagnaritarar hafa tekið þau upp í ritum sínum og
vitnað til þeirra. En þessar reytur úr kvæðum hennar bera ósvikið
aðalsmerki listarinnar, svo óhrekjanlega, að vegna þeirra verður
höfundi þeirra jafnan skipað í allra fremstu röð meðal Ijóðskálda
veraldar.
Ekki er vitað með vissu, hvenær Sapphó fæddist eða dó, en
blómaskeið hennar hefur verið um 6 öldum f. Kr. Hún fæddist á
eynni Lesbos, annað hvort í Mytilene eða Eresus, sem eru borgir
þar. í Mytilene átti hún heima lengst af ævi sinni. Lesbos er fræg
frá alda öðli vegna þess, hve þar er dásamlegt loftslag, gróðursæld
og náttúrufegurð. Þótt eyjan sé hálend, er þar djúpur jarðvegur,
þar grær vínviður, olífur og hveiti. Lesbos átti frjóar nýlendur um
langt skeið, bæði í Litlu-Asíu og Þrakíu. Vínið frá Lesbos var
mjög eftirsótt, og siglingar og verzlun færðu landsmönnum björg
í bú, svo að þar var almenn velmegun. Á þessari fögru, sólvermdu
ey ólst Sapphó upp, og fegurðin umhverfis hana varð að ljóðum
á vörum hennar. Sapphó giftist ríkum andriönskum kaupmanni,
er hét Cerkolas, en hann mun hafa andazt ekki löngu síðar. Þau
áttu eina dóttur saman, sem Cleis hét. Sapphó lrefur unnað dóttur
sinni mjög og lýsir hún því í einu kvæði sínu, segir, að hún sé
fögur sem gullblóm og sér dýrmætari en öll auðæfi Lesbosar.
Sapphó sjálfri er svo lýst, að hún hafi verið smávaxin og dökk á
brún og brá. Alkaios skáld, samlandi hennar, orti til hennar
ástarljóð, og er efni þess eitthvað á þessa leið: Fagurhærða, hýr-
brosandi Sapphó, mig langar að segja þér það, sem mér býr í
brjósti, en ég kem mér. ekki að því. Þessu svaraði hún lipurt og
rösklega: Sé ósk þín hrein og fögur, blygðast þú þín ekki fyrir
liana, heldur berð hana frjálslega fram. Þegar Sapphó var komin
á efri ár, hefur ungur maður beðið hennar fyrir konu, en hún
svarar því, að hún sé of gömul til þess að giftast honum, hann
skuli velja sér unga konu.
EMBLA
25