Morgunblaðið - 17.10.2009, Blaðsíða 33

Morgunblaðið - 17.10.2009, Blaðsíða 33
Minningar 33 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 17. OKTÓBER 2009 ánægju af þessu. Í þessum heim- sóknum afa Hjalta spurði ég hann líka alltaf hvort ég mætti fá sykur- mola og hann leyfði mér það alltaf ef að enginn sá til. Mér þótti líka mjög gaman að vera með honum í fjárhús- inu og stússa í kringum kindurnar. Ég sjálf heiti Karen María og þeg- ar ég var lítil þá kallaði ég afa „afi María“. Einu sinni ákvað ég að drífa mig til hans og fara að læra hjá hon- um. Ég las bók. Síðan spjölluðum við saman um allt mögulegt. Svo einu sinni kom ég með vínarbrauð til hans og honum þótti það mjög gott. Þegar afi var kominn inn á Ljósheima þá fór ég oft til hans. Við áttum mjög góðar stundir. Við spiluðum ólsen, ólsen að okkar hætti, við lásum ljóð saman og spjölluðum. Mér finnst ég vera búin að eiga mjög góða tíma með afa mínum. Við erum búin að bralla margt skemmti- legt saman bæði á Selfossi og í Mið- nesi. Þessum minningum á ég ekki eftir að gleyma og ég á fleiri til um afa minn, hann Hjalta Gestsson. Karen María Gestsdóttir. Afi minn Hjalti Gestsson er dáinn 93 ára gamall. Afi hefur verið þeirra gæfu njótandi að vera heilsuhraust- ur allt sitt líf. Það er í raun bara síð- asta árið sem halla tók undan fæti. Ég var svo heppin að umgangast afa mikið frá fæðingu og fram til síðasta dags. Fyrstu árin í fanginu á honum að láta hann lesa fyrir mig eða að kúra hjá honum, þegar við lágum upp í rúmi og amma var að lesa Hjemmet. Þetta voru mjög notaleg- ar stundir. Við systkinin dvöldum oft hjá ömmu og afa hvort sem það var með foreldrum okkar eða án þeirra. Ég minnist þess þegar við eldri frænd- systkinin fengum að koma í nokkra daga fyrir jól til afa og ömmu. Þar var föndrað með ömmu og farið í skrifstofuleik hjá afa. Þá fengum alltaf kókópuffs og svo kvöldkaffi með Edits og nýbökuðum bollum. Hjá þeim var alltaf borðað í borð- stofunni og engin mátti vera druslu- legur til fara enda man ég varla eftir að hafa séð afa minn án bindis. Afi var oft með fullan bíl af krökkum. Við fórum með honum til kinda bæði á Selfossi og upp að Hæli. Í bílnum var oft þröng á þingi og hafði afi yf- irleitt brjóstsykur í hanskahólfinu sem hann dró upp þegar slagsmál eða aðrar erjur voru í aðsigi. Þá var farið í leik sem fólst í því að sá vann sem gat látið molann endast lengst í munninum. Við frændsystkinin höfðum mikið keppnisskap og stein- þögðum þá langleiðina, einbeitt við að láta molann endast. Ég man eftir ferð á gamlársdag yfir heiðina með afa en þá var ég unglingur. Stórfjölskyldan ætlaði að vera saman á gamlárskvöld á hjá afa eins og venjan var. Hellisheiðin var ófær en afi lét það nú ekki stoppa sig frekar en annað. Við vorum nokkur frændsystkinin í bílnum með afa og ég sat fram í með hausinn út um gluggann því skyggnið var svo slæmt að vegurinn sást ekki. Ég sagði afa til og hann ók á minnsta kosti áttatíu til að festast ekki í drög- unum. Auðvitað komumst við á leið- arenda enda efaðist enginn af far- þegunum um annað en að afi kæmi okkur á Selfoss. Á fullorðinsárum hef ég kynnst því hversu merkilegur maður hann var að öðru leyti en að vera afi Hjalti. Með því að vinna á sama vinnustað og var hans ævistarf hef ég kynnst því hvað hann gerði mikið fyrir íslenskan landbúnað og þar með Ísland. Hann fór til Danmerkur og menntaði sig í búfræðum og kom með þá menntun heim. Þessari kunnáttu miðlaði hann og er hann mikils virtur fyrir störf sín í þágu landbúnaðar. „Maður á að láta muna um sig,“ sagði hann við okkur en það var sagt við hann þegar hann var ungur og það gerði hann svo sann- arlega. Við afi urðum meiri félagar eftir að ég varð fullorðin og þó við værum ekki alltaf sammála þá áttum við vel skap saman. Fyrir nokkrum árum vorum við stödd upp á afrétti í heið- skíru veðri og urðum mjög ósam- mála um það hvort við sæjum Esj- una eða Ingólfsfjall þaðan. Við þrösuðum um þetta en svo hættum við og bárum þá virðingu fyrir hvort öðru að sannreyna ekki hvort hefði haft rétt fyrir sér. Efst í huga mér í dag er hvað ég hef alltaf verið stolt af afa mínum en fyrst og síðast þakk- læti fyrir að hafa átt svona góðan afa. María Karen Ólafsdóttir. Það var erfitt að vera í vinnunni þriðjudaginn þann 6. október. Ég vissi að afi átti stutt eftir og skömmu síðar kom símtalið. Hjalti bróðir minn sagði mér að elsku afi Hjalti væri dáinn; afi sem er búinn að vera með okkur í öll þessi ár. Þó svo að afi hafi verið orðinn fjörgamall, þá hálf- gleymdi maður því að hann væri orð- inn 93 ára. Hann var svo ótrúlega heilsuhraustur alla sína ævi, nema rétt í lokin. Ég man aldrei eftir því að hann hafi verið veikur eða slapp- ur. Þegar ég hitti afa síðastliðið sum- ar, þegar við komum frá Lundúnum í sumarfrí heim til Íslands, þá leit hann svo frísklega út og bar sig vel og virðulega, eins og alltaf – beinn í baki, útitekinn, andlitið unglegt og varla hrukku að finna. Mig grunar að hann hafi lumað á einhverri töfra- formúlu, sem ég gleymdi því miður að spyrja hann um. Hugurinn var heima á Íslandi síðustu dagana fyrir andlát afa. Þá rifjuðust upp margar og góðar minningar, eins og þegar lítil stelpa full tilhlökkunar fór í pössun hjá afa og ömmu á Selfossi. Það var ævintýri líkast að dvelja hjá þeim á fallega heimilinu þeirra á Reynivöllum. Afi var mjög góður við okkur frændsystkinin, hann las fyrir okkur sögur á svo skemmtilegan hátt og lék og söng með. Stundum var það eins og að vera í leikhúsi. Ekki má heldur gleyma öllum ferð- unum í fjárhúsin til að líta efir kind- unum hans. Mest hlakkaði ég til að sjá Mjallhvíti, en það hét kindin mín sem afi gaf mér í skírnargjöf. Ég var alltaf gífurlega spennt á vorin þegar sauðburðurinn stóð yfir, og velti því fyrir mér hvort Mjallhvít myndi eignast gimbur eða hrút. Stundum fannst mér afi full- strangur við mig. Honum fannst ég vera sérstaklega matvönd, sem ég var, og sagði aftur og aftur við mig að ef borðaði ekki meira þá myndi ég ávallt verða lítil og ekki stækka jafn mikið og frændsystkini mín. Ég reyndi því að borða aðeins meira til að forðast að María Karen frænka mín yrði stærri en ég. Það mistókst um nokkra millimetra. Afi var mjög sterkur og litríkur persónuleiki. Hann hafði sterkar skoðanir á mönnum og málefnum og það þýddi lítið að reyna breyta skoð- unum hans eða rökræða við hann. Hann hafði gaman af skriftum og nóteraði mikið hjá sér, eitthvað sem við fáum vonandi að lesa á prenti síð- ar. Þangað til verðum við að láta Wikipedia-færslurnar um hann duga, en ég vildi að ég hefði vitað um þær fyrr og getað sýnt honum hvað var skrifað um hann þar. Það voru mikil forréttindi að fá að kynnast afa og geta leitað til hans í öll þessi ár. En nú er kominn tími til þess að kveðja og ég veit að amma Karen verður glöð að sjá þig. Svava Kristjánsdóttir. Ég fékk það snemma á tilfinn- inguna að afi minn, Hjalti Gestsson, væri merkilegur maður. Með árun- um skildist mér að hann væri ekki aðeins merkilegur heldur skemmti- legur og alveg stórmerkilegur karl. Afi var ákveðinn og með bein í nef- inu; hann vissi upp á hár hvað hann vildi og hvenær hann vildi það gert. Hann var þrælduglegur og eftir að hann hætti að vinna vildi hann alltaf hafa eitthvað við að vera, hvort sem það var að sinna kindunum sínum, kíkja í heimsóknir á bæina í sveit- inni, lesa, skrifa eða segja sögur. Ein eftirminnilegasta afmælisgjöf sem mér hefur verið gefin var ein- mitt saga sem afi færði mér á fimm ára afmælisdaginn minn. Í henni sagði afi frá ævi og afdrifum Draum- álfs, lambhrúts sem hann hafði gefið mér þá um vorið. Sagan er skemmti- leg og fallega skrifuð og dregur upp margar minningar um afa í fjárhús- inu og hversu laginn hann var við skepnur. Ég sá þegar ég las söguna yfir seinna meir að afi hafði fegrað töluvert fyrir mér ævilok hrútsins, en greyið endaði ævi sína í slátur- húsinu eftir sína fyrstu fjallferð. Eftir að við fjölskyldan fluttum á Selfoss var afi tíður gestur hjá okkur og var hann jafnan duglegur að bjóða mér með, bæði í fjárhúsið á Selfossi og í bíltúra út um allar sveit- ir. Í bílnum hlýddi afi mér yfir bæja- og örnefni í Árnessýslu allri og verð- launaði mig með mola, stæði ég mig vel. Í bílnum sungum við líka mikið og er mér sérstaklega minnisstæð bílferð ein frá Hæli og heim á Selfoss þegar afi kenndi mér vísuna um Friðrik sjöunda. Þótti mér hún svo skemmtileg að ég heimtaði að hún yrði sungin alla leiðina heim. Afi ent- ist eitthvað niður á Skeið en stakk svo upp á að við færum í kapp um hvort okkar gæti sogið brjóstsykur í lengri tíma, leik sem krafðist gríð- arlegrar einbeitingar og jafnframt þagnar. Ég veit að afi setti svip sinn á líf margra og skilur hann eftir sig stórt skarð í hjörtum þeirra sem voru svo heppin að fá að kynnast honum. Eft- ir stendur ljúf minning um frábæran mann. Elsku afi, takk fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Hvíldu í friði. Kristín Gestsdóttir. Það er með sorg í hjarta að ég sest niður og skrifa þessar línur. Minn- ingarorð um hann föðurafa minn, Hjalta Gestsson. Við afi höfum átt margar góðar stundir á minni 28 ára ævi. Glaðar stundir í stórum hópi frændsystkina á Reynivöllum 10 hjá afa og ömmu, óteljandi fjárhúsferðir með afa, bæði í fjárhúsið á Selfossi og upp í Miðnes, heyskapur, margar sögu- og fróðleiksstundir og svo mætti lengi telja. Þetta síðasta ár höfum við átt sér- lega margar góðar stundir þar sem ég var í fæðingarorlofi með frum- burð minn, Ísak, þá yngsta afkom- anda afa. Við Ísak komum reglulega í heimsókn til afa á Ljósheima, en þar dvaldi hann í tæpt ár. Afi hafði gaman af litla snúð og var það gagn- kvæmt. Afi fylgdist náið með hvern- ig Ísak litli dafnaði og spurði iðulega um hæð og þyngd piltsins.Við Ísak buðum afa stundum í bíltúr og ókum þá um nágrenni Selfoss eða upp að Hæli. Í einni af bílferðum okkar afa í vetur, spurði ég hann hvaða staður á Íslandi honum þætti fallegastur og sagði honum að gefa sér góðan tíma. Afi svaraði um hæl að það væri Suð- urland. Hann var í engum vafa um það. Þegar ég bað hann að vera ná- kvæmari, svaraði hann Árnessýsla og þegar ég innti hann eftir en nán- ari útlistun, svaraði hann án hiks að það væri Gnúpverjahreppurinn. Ég fékk þann heiður í vetur að fá texta frá afa til þess að vélrita fyrir væntanlegt greinasafn sem hann hugðist gefa út. Afi var óþolinmóður og lá á, kannski vissi hann að hann mátti engan tíma missa. Þetta var skemmtilegt verk, þó að vinnuveit- andinn, afi, væri kröfuharður. Ég fékk smám saman skýra mynd af ungum og dugmiklum Gnúpverja, Hjalta Gestssyni. Ég kynntist hin- um hugdjarfa smaladreng og snún- ingastrák, áhugasama námsmannin- um, uppátektasömum bræðrum á Hæli, skólagöngu í Ásaskóla, síðar í menntaskóla og loks háskólanámi í Kóngsins Kaupmannahöfn, þar sem hann kynntist ömmu Karen. Já, hún var löng lífsleiðin hans afa og hann var lánsamur maður. Eignaðist fjög- ur heilbrigð börn, barnabörnin urðu fjöldamörg og barnabarnabörnin eru orðin þó nokkur talsins. Amma Karen dó á besta aldri og var það mikill missir fyrir afa. Hann varð þó þeirra gæfu aðnjótandi að eiga góð- ar stundir með henni Ástu sinni síð- ustu árin. Afi var mikill ættfaðir og því er stórt skarð við hans fráfall. Afi var stoltur af sínum forfeðrum, en ekki síður stoltur af okkur afkomendun- um. Þótti mér gaman að því þegar ég vélritaði fyrir afa, hversu oft „stórglæsilegur“ og „góðar gáfur“ komu fyrir í lýsingum á forfeðrum mínum. Afi sagði að maður ætti að láta muna um sig. Það gerði hann svo sannarlega á sinni löngu ævi og mun ég ávallt minnast hans með hlýju og þakklæti fyrir allt. Hvíl í friði, elsku afi. Hildur Gestsdóttir. Elsku Hjalti langafi okkar, eða bara afi Hjalti eins og við kölluðum þig alltaf. Við systurnar eigum góð- ar minningar með þér í réttunum eins og allstaðar. Í réttunum leituðum við og leit- uðum að kindunum þínum. Mikið var nú gaman og skemmtilegt að vera í Skaftholtsréttum með þér. Ekki skemmdi það nú fyrir að fara út í Miðnes eftir réttir og fá þar góða réttarkjötsúpu með þér og öllu frændfólkinu okkar. Svo sagðir þú líka alltaf frá svo skemmtilegum sögum og söngst stundum fyrir okkur. Minningin um þig, langafi, þína hlýju og góðu hönd sem við leiddum oft, munum við geyma í huga okkar. Þínar, Sif og Elva Margrét Elíasdætur. Með árunum verður manni æ ljósara hvað góðar bernskuminn- ingar eru dýrmætar. Margar af mínum bernskuminningum tengj- ast Hjalta Gestssyni frænda mínum og heimili hans og Karenar, enda nánast daglegur samgangur milli fjölskyldna okkar. Kvöldlestrar Hjalta eru minnisstæðir, en stund- um laumaði ég mér til fóta í hjóna- rúmið þegar lesið var fyrir elstu börnin á heimilinu. Sögurnar urðu alltaf svo skemmtilegar. Hjalti sýndi leikræna takta og hefur ef- laust krítað dálítið til að auka á til- þrif og spennu. Ég man ennþá eftir röddum sumra persónanna í sögun- um. Margar myndir frá bernskuár- unum tengjast Villísjeppa. Fullur bíll af krökkum á leið í fjöruna á Stokkseyri, upp í Hreppa eða á ná- læga sveitabæi, og Hjalti að fræða okkur um náttúruna og umhverfið, eða segja okkur sögur. Þegar ferð- irnar tengdust afmælum barnanna voru borðuð dönsk vínarbrauð sem Karen bakaði. Svo var ekki ónýtt að fá að heilsa upp á heimalninga sem voru í þvottahúsinu og fengu stund- um að koma í stofur heimilanna. Hjalti naut þess að umgangast börn og unglinga. Hann sagði börn- um ekki aðeins sögur, fræddi þau og söng með þeim, hann hlustaði líka vel á það sem þau höfðu að segja og ræddi við unglinga eins og jafningja sína um huglæg efni og veraldleg; laumaði líka að þeim bók- um sem hann hélt að myndu víkka sjóndeildarhringinn. Hamsun var ekki síst í uppáhaldi. Alls þessa fengum við systkinin að njóta ásamt vináttu við börn þeirra Karenar, en svo vel vildi til að börnin á þessum tveimur heimilum frændanna og vinanna á Reynivöllum fæddust nokkurn veginn í takti og kynin samfallandi. Þau Hjalti og Karen voru ein- stakir gestgjafar og skemmtileg heim að sækja, og ávallt mikill gestagangur á heimilinu. Karenu fylgdu hefðir úr danskri menningu og líka ferskir straumar nútímans. Jafnframt var hún opin og fordóma- laus gagnvart öllum þeim hefðum og siðum sem einkenndu íslenska sveitamenningu um miðja síðustu öld. Hún studdi Hjalta í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur og að- stoðaði hann í erilsömu starfi, en var líka óhrædd við að brjóta upp hefðir og fara eigin leiðir. Það var ekki fyrr en á fullorðinsárum að ég áttaði mig á að hlutskipti danska innflytjandans hefur ekki alltaf ver- ið auðvelt. Missir Hjalta og fjöl- skyldu hans var mikill þegar Karen lést fyrir tveimur áratugum. Það var alla tíð jafn ánægjulegt að hitta Hjalta. Ellin náði ekki tök- um á honum fyrr en undir það síð- asta. Ég kveð hann með söknuði og þakklæti fyrir það hversu gjöfull og örlátur hann var, og fyrir allt það sem hann var mér og mínu fólki. Ragnhildur Bjarnadóttir.  Fleiri minningargreinar um Hjalta Gestsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. Sólveig, dóttir mín, mikil afastelpa, sem nú tekur á móti honum, átti þessi minningabrot um Hjalta afa: „Ég held að ég hafi verið um átta ára gömul þegar ég uppgötvaði að afi Hjalti væri ekkert venjulegur afi heldur sauðfjárræktarráðunautur og það var ekkert smávægilegt embætti á þessum blómatíma íslenskr- ar sauðfjárræktar. Tilefnið var hrútasýning á Skeið- unum, nánar tiltekið á Hlemmiskeiði og var búist við töluverðum mannfjölda enda bændur þar áhuga- samir og kappsfullir ræktunarmenn. Ég hafði þá eins og oft áður dvalið á Selfossi hjá ömmu Karen og afa og verið boðið með kvöldið áður. Ég hafði aldrei farið áður á hrútasýningu þótt ég væri vön að þvælast með afa í fjárhúsunum. ... Allnokkur fjöldi bænda var þegar kominn inn í fjárhús og héldu spenntir í stæðilega hrúta sem gáfu hver öðrum illileg augnaráð. Ég er ekki frá því að eigendurnir hafi líka litið hver annan hornauga enda miklir kappar þarna samankomnir. Afi kynnti mig fyrir körlunum sem sumir áttu eftir að verða ná- grannar mínir mörgum árum síðar en ég man mest eftir stórum glaðlegum karli sem blikkaði mig kank- víslega, Ingvari í Reykjahlíð, sem örlögin höguðu því síðar að varð stjúpafi minn. Óvitandi um framtíð mína sem bóndi á Skeiðunum varð ég ekki lítið upp með mér þegar afi kynnti mig sem sonardóttur sína sem hefði gott lag á kindum þótt hún væri nú hrifnari af hestum og yrði ritarinn hans á sýningunni. Þið haf- ið kannski aldrei orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að sjá afa Hjalta í hrútasýningarham en þessi stund varð mér ógleymanleg. Hann byrjaði á því að flytja stutta tölu yfir körlunum þar sem hann reifaði nið- urstöður fyrri sýninga og hvaða væntingar hann bæri til þessarar sýningar. Síðan raðaði hann körlunum upp með hrútana þannig að karlarnir sneru baki í garðann en hrútarnir bakhlutum inn í króna. Hann færði einn hrút til, annan ofar, enn einn neðar í röð- ina og af svipfari karlanna mátti ýmislegt lesa. Þegar hann hafði raðað af miklu kappi og litið síðan gaum- gæfilega yfir röðina dró hann upp málband og önnur mælitæki og hóf dóma. Nú reyndi mikið á skrifarann stutta sem sat uppi á garðabandinu með mundaðan blýant og skrifblokk því afi var mjög fljótur að dæma og eftir stutta stund var þetta allt farið að renna svo- lítið saman -„malir 8,5, ekki alveg nógu þéttur bak- vöðvi, full-gulur“ osfrv. Ég var hins vegar svo roggin yfir hinu veigamikla hlutverki að ég var ákveðin í að standa mig og verða ekki mínum glæsilega afa til skammar og einhvern veginn fór þetta allt vel. Afi tók síðan skrifblokkina og reiknaði út stigin og hon- um til hróss þurfti lítið að breyta röðinni á hrútunum – svo glöggt var augað þegar hann raðaði þeim upp í fyrstu. Ekki voru allir ánægðir eins og gengur en eft- ir samræður við afa sem útskýrði galla og kosti held ég að allir hafi verið orðnir nokkuð sáttir. Að minnsta kosti voru allir kátir og reifir við kaffiborðið þar sem afi hélt enn eina ræðuna þar sem hann ræddi nið- urstöðurnar, benti á það sem betur mætti fara og hvatti menn til frekari dáða. Ég man að ég var stolt af honum afa þegar við héldum heim á leið eftir ánægjulegan dag og skildi nú betur starf hans og ástríðu.“ Ólafur Hjaltason. Minningabrot afastelpu

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.