Morgunblaðið - 24.10.2009, Blaðsíða 36

Morgunblaðið - 24.10.2009, Blaðsíða 36
36 Minningar MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 24. OKTÓBER 2009 ✝ Bjarni BreiðfjörðSveinbjörnsson fæddist í Stykk- ishólmi 20. mars 1916. Hann lést á St. Franciskusspít- alanum 14. október sl. Foreldrar hans voru Albína Helga Guðmundsdóttir, f. á Hellissandi 1899, d. 1953, og Sveinbjörn Bjarnason, f. í Efri- Langey 1890, d. 1929. Systkini Bjarna voru Ragnar Breiðfjörð, f. 1917, d. 1972, Ósk, f. 1920, d. 1999, og Rakel, f. 1925. Guðrún Lína Guðmundsdóttir sammæðra, f. 1935, d. 2006. Bjarni kvæntist 1. nóv. 1941 Jó- fríði Sigurðardóttur, f. 1916, d. 1943. Foreldrar hennar voru Ingi- björg Daðadóttir, f. 1884, d. 1987, og Sigurður Magnússon, f. 1880, d. 1984. Dóttir þeirra Jófríðar og Bjarna er Birna, f. 1938, hennar maður var Sveinbjörn Sveinsson, f. 1936, d. 2007. Börn þeirra Jó- fríður, f. 1959, hún á tvo syni, Að- alheiður, f. 1964, hún á þrjú börn, Bjarni, f. 1965, d. 1969, Stefán Þór, f. 1970, maki Hjörtfríður S. Guðlaugsdóttir, þau eiga þrjú börn. Seinni kona Bjarna (6. des. 1947) er Anna Ólafía Kristjánsdóttir, f. 1924. Foreldrar hennar voru Jó- hanna Ólafsdóttir, f. 1897, d. 1980 og Kristján Gíslason, f. 1897, d. 1990. Dóttir Önnu og Bjarna er Jóhanna, f. 1947, maki Ellert Krist- insson, f. 1947, synir þeirra eru Bjarni Sveinbjörn, f. 1969, maki Elín Henrik- sen, þau eiga tvö börn, Kristinn Þór, f. 1973, unn- usta Þyrí Óskarsdóttir, Hannes Marinó, f. 1978, maki Lára Dóra Valdimarsdóttir, þau eiga tvö börn, og Helgi Jóhann, f. 1992. Bjarni stundaði sjó frá ferming- araldri í 49 ár, var síðan hafnar- vörður í Stykkishólmi í 16 ár. Bjarni bjó allan sinn aldur í Hólminum og unni fæðingarbæ sínum mikið og fylgdist jafnan af áhuga með útgerð og aflabrögð- um við Breiðafjörð. Bjarni tók virkan þátt í starfi eldri borgara og setti þar eins og annars staðar sitt hressilega svipmót á um- hverfið. Útför Bjarna verður gerð frá Stykkishólmskirkju í dag, 24. október, og hefst athöfnin kl. 14. Hinn 14. þessa mánaðar dró fyrir sólu í Hólminum og skyndilega dimmdi yfir. Minn kæri bróðir og mágur Bjarni Sveinbjörnsson kvaddi þetta líf. Gleðigjafinn okkar hafði kvatt hinstu kveðju eftir stutta legu á sjúkrahúsi. Þrátt fyrir að heilsan væri orðin tæp og lík- amsþróttur hefði farið minnkandi síðustu ár voru þetta óvænt endalok á annars ströngum sjúkdómi. Lífs- gleðin hafði alla tíð verið sönn, sama á hverju gekk, stutt í gleðina og góðvildina. Bjarni var ekki gamall þegar hann fór í sína fyrstu sjóferð með föður okkar á Haffrúnni frá Pat- reksfirði, þá aðeins níu ára gamall. Árin á sjónum urðu hins vegar far- sæl fimmtíu ár. Það má segja að lífshlaup hans hafi verið eins og sjórinn. Hann varð fyrir stórum ágjöfum í lífinu og hann átti líka marga sólskinsdaga. Umhyggja Önnu mágkonu var alla tíð mikil, sem hér er þakkað fyrir. Á kveðjustund fara margar minn- ingar í gegnum hugann. Það var alltaf mikil eftirvænting hjá fjöl- skyldunni að fara vestur í Hólm. Oftast var sól þegar keyrt var yfir fjallið og eyjarnar óteljandi blöstu við og fjallahringurinn einstakur. Það var mikil tilhlökkun að koma til Bjarna bróður og Önnu konu hans. Meiri höfðingja heim að sækja var ekki hægt að hugsa sér. Allar þær gleðistundir sem við áttum í Hólm- inum eða í Reykjavík eru ógleyman- legar. Þar réðu ríkjum góðvild og sönn gleði, kærleikur og vinátta. Nú að leiðarlokum Bjarna bróður viljum við þakka fyrir allar þessar góðu samverustundir. Hann hefur nú lagt upp í sína hinstu ferð á Guðs vegum. Blessuð sé minning hans. Þín systir og mágur, Rakel og Eiríkur. Á kveðjustundu okkar tengda- pabba er mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa átt því láni að fagna að tengjast einstökum manni, honum Bjarna Svein. Gæfu- og gleðiríkt var það líka að njóta samvista við hann svo lengi, síungan og hressan. Glaðværð Bjarna og jafnlyndi virk- uðu vel á mig eins og alla sem hon- um kynntust, lífslöngun hans og smitandi áhugi á öllu sem var að gerast til sjós og lands. En þó að- allega til sjós,því hann fylgdist jafn- an grannt með gengi og aflabrögð- um bátanna og engu líkara var en að eftir að sjópokinn kom í land fengi hann orku og næringu af að deila kjörum, í huganum, með ung- um sjómönnum við störf sem hann þekkti svo vel og vissi að skiptu þá og þjóðina miklu. Hún hófst snemma, lífsbaráttan, hjá Bjarna, en hann heldur til sjós daginn eftir fermingu sína. Þá um veturinn hafði hann misst föður sinn í sjóslysi. Bjarni var elstur systkinanna og staðráðinn í að hjálpa móður sinni við að halda hópnum saman. Ekki kom annað til greina fyrir hinn óharðnaða ungling en að standa sig og verða fullgildur á sjónum enda verkefnið áríðandi og ég er viss um að það kapp, trú- mennska og dugnaður sem alla tíð einkenndi Bjarna mótaði hann á þessum árum. Þau 49 ár sem Bjarni var á sjón- um var hann alla tíð eftirsóttur í skipsrúm enda nýttust eðliskostir hans vel á nánum afmörkuðum vett- vangi, sem lítill fiskibátur er. Eins og nærri má geta lifði hann tímana tvenna á sjónum og nefndi oft með leikrænum tilburðum ótrúleg dæmi því til sönnunar. Bjarni gegndi síð- ustu 16 starfsárin hafnarvarðar- stöðu í Hólminum og þótt einhverj- um hafi dottið í hug að þarna myndi ómenntaður maðurinn færast helst til mikið í fang, efuðust þeir ekki sem þekktu Bjarna best, lagni hans í mannlegum samskiptum, snyrti- mennsku og samviskusemi, enda var hann vakinn og sofinn í starfinu og stóð sig vel að allra dómi. Bjarni fékk vissulega margt að reyna í líf- inu, auk þess að missa föður sinn ungur féllu móðir hans og bróðir frá á besta aldri og einnig varð hann að sjá á bak nánum ástvinum við átak- anlegar aðstæður. Slíkar sorgar- og örlagastundir setja sitt mark á og fylgja manni ávallt en sálar- og trúarstyrkur Bjarna var mikill þeg- ar á reyndi og þeim mun frekar lagði hann áherslu á björtu hlið- arnar í lífinu. Bjarni gladdist mikið er Birna litla var tekin í fóstur af góðu frændfólki sínu og gæfusporið hans mesta varð er hann kvæntist Önnu. Bjarni, Anna og Jóhanna voru alla tíð mjög náin. Verkaskipting á heimilinu var sannarlega uppá gamla mátann, húsbóndinn vana- fastur með afbrigðum en innilegt samband þeirra þriggja og vænt- umþykja hvers um annað duldist engum. Anna hefur sýnt Bjarna fádæma umhyggju í veikindum hans og hlúð að honum eins og raunar alltaf í þeirra sambúð. Guð blessi þig og styrki, Anna mín. Bjarni var mikill fjölskyldumaður og vildi fá að fylgj- ast náið með fólkinu sínu í mót- og meðbyr og þau yngstu hændust að honum. Oft var hátt kveðið að en nú er röddin hljóðnuð, lagt hefur verið upp í síðustu sjóferðina og vinir munu taka á móti spottanum. Takk fyrir allt, Bjarni minn, Guð blessi minningu þína. Ellert. Elsku afi. Minningarnar sem ég geymi um þig eru margar, þú hefur verið í huga mínum alla tíð og allar þær stundir sem við áttum saman eru mér ógleymanlegar. Þú varst ekki einungis afi minn heldur varstu besti vinur minn. Margt spjallið áttum við um dag- inn og veginn enda varstu svo vel inni í öllum hlutum. Þú náðir frá- bæru sambandi við Láru Dóru og krakkana okkar og er ég þér æv- inlega þakklátur fyrir það. Viðbrögð Önnu Þóru við andláti langafa síns segja meira en mörg orð og skiln- ingur hennar er mikill. Við Lára Dóra höfum verið að rifja upp allar þær skemmtilegu minningar sem þú skilur eftir þig, til að mynda heimsóknir á gamlárskvöld þegar þú vildir endilega að ég fengi mér einn snafs fyrir áramótaballið, eða þegar ég kynnti Láru Dóru fyrir þér fyrst og þú hvíslaðir í eyra mér að þessi Skagastelpa væri svaka tútta. Skemmtilegt er að rifja það upp hvað þú náðir góðu sambandi við vini mína og ræddum við fé- lagarnir oft á tíðum um þig og hvað þú værir skemmtilegur og hress. Myndin sem þú gafst mér í lok síð- asta sumars, af þér á skelveiðum í Breiðafirði árið 1974, brosandi, haldandi á kaffibolla og pípu með sixpensarann klæddur gulum sjó- stakk, hefur verið á skrifborðinu mínu síðan. Margir hafa spurt hver þessi maður sé og ég hef svarað stoltur að þetta sé hann afi minn sem byrjaði sína fyrstu vertíð að- eins 14 ára. Ég man hvað það gladdi þig mikið þegar ég sagði þér hvað myndin vekti mikla athygli, og þú sagðir „hva“ með hvelli eins og þér var einum lagið. Elsku afi, hvað mér varð oft hugsað til þín þegar ég var til sjós nokkur sumur. Þú varst á heima- velli þegar kom að sjómennsku og við áttum það til að tala um sjávar- útveg heilu klukkutímana enda hafðir þú frá mörgu að segja eftir hálfa öld á sjónum og hafðir gaman af að frétta af aflabrögðum af bát- um á Nesinu, stórum sem smáum. Margar kveðjurnar hef ég flutt til þín frá sjómönnum sem ég hef kynnst í gegnum starf mitt og hafa allir einhverja skemmtilega sögu að segja af þér frá því í gamla daga. Við áttum nokkur leyndarmál svo sem eins og samkomulagið um að ég fengi gullpening í vasann ef ég þyngdist milli vigtana og seinna þegar ég, ófermdur strákurinn, varð mér úti um tvær vodkaflöskur, úr rússneskum rækjutogara, til að færa þér. Elsku afi, þegar mamma hringdi og sagði mér að þú værir látinn setti að mér mikla sorg og trega og mikið átti ég erfitt það sem eftir lifði dags og næstu daga. Síðast þegar ég kom í heimsókn til ykkar ömmu sagðir þú við mig nokkur falleg orð, takk fyrir það. Elsku amma, þú eins og alltaf hefur staðið þig eins og hetja en afi treysti mikið á þig og vissi að það var óhætt. Hvíldu í friði elsku afi minn, blessuð sé minning þín og hjartans þakkir fyrir allt. Hannes Marinó. Ég mun aldrei gleyma þeirri stundu þegar pabbi hringdi í mig miðvikudaginn 14. október síðastlið- inn og sagði mér að afi væri alveg við það að deyja. Tíminn hjá mér stoppaði og hugsanir um hann afa minn byrjuðu að streyma fram. Klukkustundu síðar fékk ég þær fréttir frá mömmu að hann væri dá- inn og þótt maður vissi hvað í vændum væri átti ég samt bágt með að trúa því að þetta væri að gerast. Samband okkar afa hefur alla tíð verið mjög gott og við verið miklir vinir. Ég minnist þess hvað það var gott að koma í heimsókn til afa og ömmu, maður var varla kominn inn úr dyrunum þegar hann afi sagði: „Fáðu þér nú malt og appelsín, Kiddi minn,“ og svo var byrjað að spjalla um ýmis málefni líðandi stundar. Þegar við töluðum saman, við afi, þá barst talið oftar en ekki að sjónum og öllu því sem tengist honum, en hann reyndi að fylgjast með eftir fremsta megni öllu því sem var að gerast á kæjanum. Þegar ég stundaði sjóinn rakti hann úr mér garnirnar í helgarfrí- um; hvar við hefðum verið, hvaða beitu hann tæki best og samsetn- ingu aflans. Þannig var hann alltaf að hugsa um hvað bátarnir voru að fiska og hvað hinn og þessi sjómað- ur var að gera, því allir sjómenn voru hátt skrifaðir hjá honum afa. Allir þeir sem þekktu kallinn, hann afa, vita að hann var hress og ávallt léttur í lund, jafnvel þó að hann glímdi við erfið veikindi síðustu ár- in. Smám saman drógu þau máttinn úr honum, kom það þá í hlut ömmu að annast hann meira en ella hefði þurft og hefur hún staðið eins og klettur við hlið hans, eins og ávallt. Mér finnst það algjör forréttindi að hafa fengið að umgangast afa minn svona mikið og ég mun aldrei gleyma öllum þeim góðu minning- um sem ég á um hann. Elsku afi, Guð geymi þig. Kristinn. Ferjan hefur festar losað, farþegi er einn um borð, mér er ljúft af mætti veikum mæla nokkur kveðjuorð. Þakka fyrir hlýjan huga, handtak þétt og gleðibrag, þakkir fyrir þúsund hlátra, þakkir fyrir liðinn dag. (J. Har.) Elsku besti afi minn, betur þekktur sem Bjarni Svein, er nú fallinn frá og verður sárt saknað meðal þeirra sem þekktu hann. Þótt dauðinn sé óumflýjanlegur tókst afa mínum að leika á hann nokkrum sinnum í gegnum árin með lífsgleð- ina og sigurviljann að vopni enda lífslöngunin svo sterk. Afi var alltaf miðpunkturinn hvar sem hann steig niður fæti, ókunnugir urðu fljótt málkunnugir og hreif hann unga jafnt sem aldna með sér í fjörið enda aldrei lognmolla í kringum karlinn. Já, það fór ekki á milli mála þegar Bjarni Svein var annars veg- ar og sögðu gárungarnir að það væri eins og minkur væri staddur í hænsnakofa þegar hann birtist og byrjaði að skeggræða við fólk, ég sel það nú ekki dýrara en ég keypti. Lífssaga afa er merkileg og ein- stök fyrir margra hluta sakir og minnir helst á metsölureyfara þar sem fabúlerað er fram og til baka um efnisþráðinn, sagan krydduð með tilfinningalegum og harm- þrungnum köflum auk þess sem háðið og kímnin eru ávallt höfð í forgrunni. Afi notaði húmorinn til að ná því besta fram hjá fólki og notaði oft til þess orðaforða hins rammíslenska sjóara. Í hartnær fjörutíu ár fylgdist afi minn mjög náið með hverju skrefi í lífi mínu, svo eftir var tekið, og und- ir það síðasta í veikindum sínum spurði hann hvernig nafni hans og fjölskylda hefðu það og daginn áður en hann dó hnippti hann í ömmu og spurði: „Ertu búin að kaupa afmæl- iskort handa Alexöndru Elínu, góða mín?“ en hún átti tveggja ára af- mæli þann dag. Ávallt var honum umhugað um fjölskyldu mína að nóttu sem degi og hann unni sér ekki hvíldar fyrr en mál voru komin í höfn og sérstaklega ákveðið mál. Ég man hvað það gladdi karlinn þegar ég nældi mér í Siglufjarð- armey, er leiðir okkar Elínar lágu saman í menntaskóla, og ekki spillti fyrir að tengdafaðir minn stundaði sjóinn og stjórnaði Henriksen-síld- arplaninu fyrr á árum. Afi kynntist tengdaforeldrum mínum nokkuð vel og fór ávallt vel á með þeim, karlinn átti oft til að spyrja mig hvernig gömlu hjónin hefðu það á Sigló en þess má geta að þau eru 20 árum yngri en hann. En svona var hann í hnotskurn, umhugað um sína nán- ustu og vini. Til marks um það leit afi aldrei á sig sem gamlan mann. Óþrjótandi lífslöngun til að gefa af sér einkenndi allt hans líf og er það okkar, ungu kynslóðarinnar, að taka við kyndlinum og halda á lofti. Lífið sjálft er stærsta vöggugjöfin sem hvert mannsbarn fær og það þarf að varðveita það. Sú ást og um- hyggja sem afi umvafði mig og fjöl- skyldu mína, vini og tengdafjöl- skyldu öllum stundum verður aldrei endurgoldin að fullu nema að halda minningu hans á lofti um ókomna tíð. Hvíl í friði, elsku afi minn. Ég mun alltaf sakna þín. Bjarni Sveinbjörn. Þegar ég gaf afa mínum skútulík- anið í jólagjöf skírði ég hana Haf- frúna því afi fór á sjó níu ára með pabba sínum á Haffrúna frá Bíldu- dal og var með honum fjögur sum- ur. Afi sagði mér oft frá gamla tím- anum og ég sakna hans mjög mikið. Bless elsku afi minn. Helgi Jóhann. Mig langar til að minnast Bjarna í nokkrum orðum, en honum kynnt- ist ég fyrst fyrir rétt rúmum 20 ár- um eftir að leiðir okkar Bjarna Sveinbjarnar lágu saman í Mennta- skólanum á Akureyri. Fyrsta heim- sókn mín í Hólminn, sumarið 1988, einkenndist af svolitlum kvíða enda ég að heimsækja heimabæ unnusta míns í fyrsta skipti og kynnast fólk- inu hans. Í þeirri heimsókn var að sjálfsögðu komið við á Silfurgötunni þar sem ég hitti Bjarna og Önnu í fyrsta skipti. Strax við fyrstu kynni fékk ég að finna að ég var hluti af fjölskyldunni og allt frá þeim tíma hefur umhyggjan og væntumþykjan í minn garð verið einstök. Síðan hafa heimsóknirnar í Hólm- inn verið ótalmargar eins og gefur að skilja, en ég veit að Bjarna fannst við aldrei koma nógu oft. Hann var duglegur að hringja í okkur og fá helstu fréttir og oft átti hann það til að hringja bara til að heyra í mér. Þá ræddum við þjóð- félagsmálin, hvernig fjölskylda mín hefði það og svo voru bankamálin rædd í þaula. Hann bað svo bara að heilsa nafna sínum og sagðist heyra í honum næst. Þessi símtöl þótti mér alltaf afar vænt um, það var eins og hann ætti í mér hvert bein. Ofarlega í huga mér er helgar- heimsókn Bjarna til Siglufjarðar í kringum 1990 en þá skellti hann sér með nafna sínum að heimsækja kærustuna, það eru líklega ekki margir afar sem farið hafa með barnabörnum sínum í helgarferð til kærustunnar. Þessa helgi skartaði Siglufjörður sínu fegursta, við rúnt- uðum um bæinn og höfnina, nutum blíðunnar úti í garði yfir kaffisopa og voru rifjaðar upp sögur frá síld- arárunum. Í þessari heimsókn sá ég hversu djúp tengsl voru á milli nafnanna og hversu miklir mátar þeir voru. Bjarni Anton sagði að það væri svindl að langafi væri dáinn. Hann saknaði þín á 5 ára afmælisdegi sín- um í sumar en vissi alveg að ástæð- an fyrir því að þú gast ekki komið var sú að snúran úr súrefniskútnum þínum náði ekki alla leið í Kópavog. Honum fannst alltaf gaman að koma í heimsókn og fór strax í skúffuna þar sem dótið var sem þú keyptir handa barnabörnunum. Það er honum afar dýrmætt að hafa fengið að kynnast langafa sínum vel og ég veit að hann á fallegar og góð- ar minningar um þig. Ég tel það forréttindi að hafa fengið að kynnast Bjarna, sem frá fyrsta degi tók mér opnum örmum og kom fram við mig eins og eitt af barnabörnum sínum. Í honum fann ég hvernig tilfinning það var að eiga yndislegan afa. Elsku Bjarni, hjartans þakkir fyrir allt sem þú hefur gert fyrir okkur fjölskylduna, þín verður sárt saknað. Elsku Anna og Jóhanna, söknuðurinn er mikill en minning- arnar um Bjarna eru fjársjóður sem við munum varðveita um ókomin ár. Blessuð sé minning þín, kæri Bjarni. Elín Henriksen. Bjarni Breiðfjörð Sveinbjörnsson
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.