Saga - 1994, Qupperneq 36
34
GUNNAR KARLSSON OG HELGI SKÚLI KJARTANSSON
ar. Við fyrstu sýn kann að virðast að máldagar Reynistaðarklausturs gefi
einna besta undirstöðu undir slíka reikninga. Arið 1295, þegar klaustr-
ið var stofnað, voru landskuldir af jörðum þess 35 hundruð, 14 aurar og
59 vættir skreiðar, alls tæp 46 hundruð.85 Eru þá ótalin sjö kýreldi, þrjú
nautseldi, þrjú lambseldi og eitt mælihlass af töðu. Árið 1315, „eftir
harðindi og manndauða, sem þá hafði gengið," segir Þorkell Jóhannes-
son, voru landskuldirnar 36 hundruð.86 En þegar staðurinn var afhent-
ur tveimur nunnum árið 1408, fjórum til sex árum eftir pláguna, segir
ekkert um landskuldir annað en „j landskylldir ath heimta halft sionda
hvndrath."87 Sé þetta skilið eins og Þorkell gerir, að landskuldirnar
hafi þá aðeins verið sex og hálft hundrað, er það um 18% þess sem þær
voru 1315, og væri ekki fjarri lagi að ætla að mannfækkun á jörðum
staðarins hafi þá verið álíka mikil, um eða yfir 80%. En ef þetta hins
vegar merkir það eitt að sex og hálft hundrað hafi verið óinnheimt af
eldri landskuldum, þá segir það ekkert um eyðingu byggðar, og því
ætlum við ekki að draga ályktanir af þessu dæmi.
Árið 1420 mátu menn fimm jarðir í Andakíl og Skorradal sem Hvann-
eyrarkirkja tók upp í skuld: Ásgarð, Ausu, Kistu, Horn og Eyri (lík-
lega Stóru-Drageyri); „en saker þess ath ur ser uoro geingnar taudur
ok hus voro eingi matum vær allar þessar nefndar iarder firir halfvan
fimta [tug] hundrada."88 Vel kemur heim að þessar jarðir hafi verið í
eyði og að ganga úr sér síðan um plágu. Það er merki um mikla eyðingu
byggðar í Borgarfjarðarhéraði sunnanverðu, en engin leið er að áætla
hlutfallslega auðn út frá heimildinni.
Þorkell Jóhannesson ræður það af skjölum að eyðijarðir hafi verið
orðnar byggðar nokkurn veginn aftur um 1460. Um það virðist hann
leggja mest upp úr einstökum dæmum í máldögum Olafs Hólabisk-
ups Rögnvaldssonar, þar sem getið er um fjölda bæja í kirkjusóknum
án þess að tekið sé fram að nokkur þeirra sé í eyði.89 Björn Teitsson seg-
ir að þar sé yfirleitt skráður sami fjöldi bæja í kirkjusóknum og var
85 íslenzkt fombréfasafii II, 301-02 (nr. 159). - Þorkell Jóhannesson: „Plágan mikla
1402-1404," 91. - Skreiðarvætt taldist 20 álna virði í innanlandsviðskiptum. - Gísli
Gunnarsson: „Landskuld í mjöli og verð þess frá 15. til 18. aldar," 32.
86 íslenzkt fornbrcfasafn II, 398 (nr. 220). - Þorkell Jóhannesson: „Plágan mikla 1402-
1404," 91.
87 íslenzkt fornbréfasafn III, 718 (nr. 594).
88 íslenzkt fornbréfasafn IV, 285-86 (nr. 346).
89 Þorkell Jóhannesson: „Plágan mikla 1402-1404," 89,91-92.