Saga - 1994, Page 91
LANDNYRÐINGUR Á SKAGAFIRÐI
89
Tutna páttur
Veturinn 1221-22 gerðust örlögríkir atburðir norður í Skagafirði sem
féllu Hólamönnum og öðrum Norðlendingum seint úr minni, enda leið
ekki ýkja langur tími uns tíðindi þessi voru færð í letur, og síðan hafa
þau geymst á skrá. Á jólaföstu flýði Guðmundur biskup frá Hólum til
Málmeyjar, en Tumi Sighvatsson (f. 1198) settist á staðinn „svo sem
það væri hans föðurleifð" og hafði mannmargt þar. Biskupi fylgdu sjö
tigir manna til Málmeyjar, og þurftu þeir að fara í land til að draga að
sér aðföng, en Tumi lét varna þeim vista, enda fór að þrengja að kosti
biskupsmanna þegar leið á veturinn. Þeim var því mjög í mun að kom-
ast heim að Hólum að sækja sér mat og klæðnað. En hér var ekki hægt
um vik, því að Tumi og menn hans höfðu ströng varðhöld á staðnum.
Eftir jólin senda förunautar biskups njósnarmann til Hóla í því skyni
að kynnast tilhögun Tuma, og hinn þriðja febrúar fór þrjátíu manna
sveit á tveim skipum úr Málmey undir forystu þeirra Arons Hjörleifs-
sonar og Eyjólfs Kárssonar, komu til Hóla um nóttina á óvart, sóttu að
húsum með eldi og vopnum, tóku Tuma höndum og sviptu hann lífi;
héldu síðan út til eyjar með vistir og önnur föng.
Engin ástæða er til þess að gera ráð fyrir að höfundur Grettlu þyrfti að
sækja sér vitneskju um þessa atburði í munnmæli, enda átti hann kost
á ýmsum skráðum heimildum, sem sé Guðmundar sögum biskups, Is-
lendinga sögu Sturlu Þórðarsonar og Arons sögu Hjörleifssonar. Til hægð-
arauka verða frásagnir þeirra af þessum atburðum kallaðar „Tuma þátt-
Ur" einu nafni, en sérkenndar hver um sig eftir því sem þörf þykir. í
fljótu bragði virðist atburðarás þáttarins vera býsna fjarskyld því sem
gerist í Grettlu, en þegar betur er að gáð kemur glögglega í ljós að frá-
sögnin af efstu dægrum og andláti þeirra Grettis og Illuga dregur
ýmsan dám af Tuma þætti. Einkum virðist höfundur Grettlu hafa sótt
sér efni í svokallaða Miðsögu Guðmundar biskups.
Þótt hrímkaldur landnyrðingur af Dumbshafi blási oft inn eftir Skaga-
firði, þá mun hitt vera næsta fágætt í bókum að slíkt veðurlag gegni
sömu hlutverkum og í Grettlu og Tuma þætti. I hvorutveggja hagar
svo til að hrakviðri stuðlar að sigri þeirra manna sem sigla hraðbyri inn
Skagafjörð fyrir landnyrðingi í því skyni að ráða niðurlögum andstæð-
lnga sem standa svo vel að vígi að þeir hefðu verið óhultir um líf sitt, ef
þeir hefðu haft andvara á sér. Árásarmenn hlíta forsögn leiðtoga sem
ræður yfir kynlegri þekkingu, hvort sem hún stafar frá rammri for-