Saga - 1994, Page 112
110
SIGURJÓN PÁLL ÍSAKSSON
Upphaflega hefur Njáls saga verið skrifuð á sjö átta blaða kver, en allt
fyrsta kverið er glatað. Sé tekið mið af því hve mikill texti rúmast á
hverri síðu handritsins, má sjá að það sem vantar framan á það hefur
fyllt 7,25 blöð eða 14 '/2 síðu. Hefur forsíða fyrsta blaðsins þá verið auð og
sagan byrjað á baksíðunni, líklega efst í hægra dálki. I vinstra dálk-
inum gæti hafa verið stuttur formáli, jafnvel kvæði. Einnig er hugsan-
legt að upphaf sögunnar hafi verið skrifað nokkru gisnara en framhald-
ið, og sagan, ásamt óvenju stórum upphafsstaf, þá náð að fylla báða
dálkana. Tvær eyður eru aftar í sögunni. Textinn á baksíðu 18. blaðs
hefur verið skafinn af, og þar hefur Magnús Björnsson einmitt áritað
bókina (sjá síðar). Einnig hefur ytri dálkur verið skorinn af blaði 29.
Reynt hefur verið að fylla allar þessar eyður með því að bæta inn
blöðum úr Njáluhandriti frá 17. öld, núverandi blöð nr. 1-8, 10, 19 og
30. Blað nr. 9 hefur verið skorið úr, en smá ræma með orðaslitrum er
eftir inn við kjölinn.
Eins og fram kemur í lýsingu Jóns Helgasonar hér á undan hefur
Gauks saga Trandilssonar átt að koma á eftir Njáls sögu. Jón varð fyrstur
til að veita því athygli að neðst á síðu 61v, neðan við venjulegan letur-
flöt, standa eftirfarandi orð: „Láttu rita hér við Gauks sögu Trandils-
sonar, mér er sagt að [herra] Grímur eigi hana."6 Stefán Karlsson hand-
ritafræðingur kemst að sömu niðurstöðu, að öðru leyti en því að orðið
[herra] sé vafasamt. Það geti alveg eins verið fyrri hluti mannsnafns,
sem endar á gri'mur.7 Þar með veikjast þær ályktanir sem Jón Helgason
dró af þessari tilvísun til herra Gríms Þorsteinssonar. Þessi klausa er
með sérstakri hendi, og að öllum líkindum skrifuð á meðan unnið var að
ritun Möðruvallabókar. Erfitt er að geta sér til um hver eigandi Gauks
sögunnar var, en þaö hve stuttlega hans er getið bendir til að hann hafi
ekki verið mjög fjarri skrifaranum. Gaukur Trandilsson kemur lítillega
við sögu í Njálu, og einnig í rúnaristu í Orkneyjum. Um hann var
kveðinn sagnadansinn:
Þá var öldin önnur, er Gaukur bjó í Stöng
þá var ei til Steinastaða leiðin löng.
6 Jón Helgason: Gauks saga Trandilssonar. Heidersskrift til Gustav Indrebe (Bergen
1939), bls. 92-100. Endurprentað í Ritgerðakorn og ræðustúfar (Rvík 1959), bls. 100-
108.
7 Sagas of Icelandic Bishops. Early lcelandic manuscripts in facsimile VII (Kbh. 1967),
bls. 27 í inngangsritgerð Stefáns Karlssonar.