Saga - 1999, Page 312
310
RITFREGNIR
einhver hefur áður gert en ekki í einstök skjöl. Þá eru tilvísanirnar þannig
gerðar að bókatitlar eru ekki skáletraðir og gæsalappir eru ekki settar um
óprentaðar ritgerðir og greinar í safnritum. Þar sem heimildaskrá er eng-
in er oft ómögulegt að átta sig á hvað eru prentuð rit og hvað eru greinar
eða ritgerðir. Þetta verður að kalla óvandaðan frágang og ekki faglegan.
Málfar er víðast gott, textinn skýr og villur fáar. Með góðum prófarka-
lestri hefði mátt gera textann enn vandaðri með því að afmá ósamræmi.
Ýmist er ritað „1914-1915" eða „1917-18", t.d. á bls. 51. Tölur eru ýmist
ritaðar 7 eða sjö, 3 eða þrír. A bls. 60 kostar teningsmetrinn af grjóti „4,50
krónur" en á bls. 66 „fjörutíu og níu krónur." Bls. 56: „tvo fimmtu af
kostnaði við mannvirkið." Bls. 70: „ 1/10 hluti í stað 2/5 ...." Ýmist er rit-
að 50 þúsund eða 50.000. Bls. 96: „ þrjátíu ár." Bls. 97: „30 ára Bls. 383:
„hinn 1. nóvember 1905" og þriðju línu neðar: „þann 25. janúar 1974." Það
lýtir texta að vera með of margar skammstafanir en þær eru of algengar í
myndatextum, t.d. bls. 72, 292 og 302. í meginmáli segir á bls. 374: „tengd
fullveldinu 1. des." Þá er nafnorðastíll of áberandi, t.d. á bls. 86: „Auk
þess vann nokkur fjöldi við upptekt á grjóti... ." Bls. 145: „og fengin yrði
manneskja til gæslu þess."
Flestar eða allar bækur eiga sér bæði sterkar hliðar og veikar. Veikleiki
Sögu Húsavíkur liggur fyrst og fremst í því að hún er skrifuð sem þema-
verk og þróunarsaga kauptúns og kaupstaðar er óljós. Þá spillir það verk-
inu að engar skrár fylgja því. Kostir annars bindis eru þeir helstir að frá-
sögnin er nákvæm, það er efnismikið, rannsóknin ítarleg og traust.
Friðrik G. Olgeirsson
Kirsten Hastrup: A PLACE APART. AN ANTHRO-
POLOGICAL STUDY OF THE ICELANDIC WORLD.
Clarendon Press. Oxford 1998. xii, 227 bls. Nafna- og
hugtakaskrá.
Snemma á níunda áratugnum kom Kirsten Hastrup, ungur danskur þjóð-
fræðingur, til íslands til þess að gera vettvangskönnun fyrir mannfræði-
lega rannsókn. (Hún notar orðin ethnography og anthropology til skiptis í
sömu merkingu.) Hún dvaldist á landinu í 18 mánuði samtals og hafði
einkum vist á þremur stöðum, á Árnastofnun í Reykjavík, á Hala í Suður-
sveit og á Hellissandi. Á næstu árum lauk hún tveimur viðamiklum bók-
um um sögu Islendinga, auk fjölda greina og fyrirlestra um íslensk efni,
sem úr varð myndarlegt greinasafn árið 1990. Þá léði hún dönskum leik-
hópi sjálfsævisögulegt efni í leiksýningu, frá íslandi og víðar, og hópurinn
fór með hana um heiminn í tvö ár. Þetta var óslitin sigurganga.